Fara í efni

Stórt skref í öryggismálum ferðamanna

Vélsleðamenn á ferð. Mynd: VHH
Vélsleðamenn á ferð. Mynd: VHH

Ferðamenn, innlendir sem erlendir, í styttri sem lengri ferðum, hafa nú kost á að láta fylgjast með að þeir skili sér úr ferðum sínum.

Hægt að bregðast við með skilvirkari hætti

Undanfarna mánuði hafa Slysavarnafélagið Landsbjörg og Neyðarlínan unnið að því að setja upp kerfi sem getur tekið við og vaktað ferðir ferðamanna. Ekki er vitað til þess að sambærileg þjónusta sé í boði erlendis. Vonast er til að sem flestir nýti sér þessa þjónustu og ef svo illa fer að til óhapps komi er þá hægt að bregðast við með skilvirkari hætti en ella. Fyrir liggja þá allar upplýsingar um viðkomandi og hans ferðaáætlun.

Einnig tengt við 112 appið

Að auki er þjónustan tengd við 112 Iceland appið þannig að ef viðkomandi hefur notað það má sjá síðustu staðsetningu.

Einfalt að skrá sig

Einfalt er að nota þjónustuna en viðkomandi þarf að skrá sig á vefnum www.safetravel.is  og í nokkrum einföldum skrefum að skrá inn persónupplýsingar, ferðatilhögun og aðrar helstu upplýsingar. Í lok skráningar býðst ferðamanni að velja Ferðavöktun (e.Trip Monitoring) og um leið að skrá inn tímasetningu á heimkomu. Hann fær sent sms og tölvupóst og í lok ferðar notar hann annaðhvort til að láta vita að ferð sé lokið. Ef það gerist ekki kemur upp melding á stjórnborði Neyðarlínunnar sem hringir í viðkomandi. Ef ekki næst á ferðamanninn er brugðist við á viðeigandi hátt.