Fara í efni

Tekjur af skemmtiferðaskipum meiri en af góðri loðnuvertíð

Skiptifarþegar sem gista í landi skila mun meiri tekjum en aðrir

Skemmtiferðaskip á Akureyri / Markaðsstofa Norðurlands

Ferðamálastofa hélt í liðinni viku vel sóttan kynningarfund um helstu málefni sem tengjast komum erlendra skemmtiferðaskipa hingað til lands. Þar kom meðal annars fram að samtals hafi beinar tekjur innlendra lykilaðila og atvinnugreina af viðskiptum við skipin og farþega þeirra líklega numið í kringum 52 milljörðum króna á þessu ári, fyrir utan opinber gjöld, sem er meira en af góðri loðnuvertíð. Þar til viðbótar koma opinberar tekjur, s.s. af virðisaukaskatti og vitagjöldum, og sala minni þjónustuaðila hringinn í kringum landið til skipanna og farþega þeirra, á kosti, afþreyingu, veitingum o.fl.

Segja má að þetta sé í fyrsta sinn sem reynt er að leggja mat á heildartekjur innlendra lykilaðila af komum skemmtiferðaskipa hingað til lands. Meginforsendur þess eru m.a. könnun sem Rannsóknamiðstöð ferðamála vann fyrir Faxaflóahafnir í sumar, að forgöngu Ferðamálastofu, um eyðslu farþega skipanna, og greining Ferðamálastofu á tekjum helstu hagsmunaaðila hér innanlands. Þessar niðurstöður voru m.a. kynntar á fundinum.

Vísir að upplýstari umræðu

Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri var fundarstjóri. Í máli hans kom fram að málefni skemmtiferðaskipanna hafa verið mjög áberandi í umræðunni á árinu. „Það sem hefur hins vegar á tíðum einkennt umræðuna er skortur á gögnum, skortur á þekkingu, skortur á niðurstöðum kannana. Við munum ekki svara öllum spurningum hér í dag en hins vegar verða hér settar fram upplýsingar sem við höfum ekki séð áður og eru mjög fróðleg gögn sem vísir að upplýstari umræðu en hefur verið á tíðum hingað til,“ sagði Arnar Már meðal annars.

Viðskipti, viðhorf og mengun

Fjórir fyrirlestrar voru í boði á fundinum, sem greindu og settu fram tölulegar upplýsingar um helstu hagsmunamál Íslendinga vegna koma þessara skipa hingað til lands og viðskipti íslenskra aðila við þau. Var fjallað um tekjurnar af skipunum og farþegum þeirra, afstöðu heimamanna á lykiláfangastöðum til skipanna og umhverfismál, m.a. í samanburði við ferðaþjónustu með flugi.

Hér að neðan má finna efni hvers fyrirlestrar, bæði glærur fyrirlesara og upptöku af erindunum. Upptaka af fundinum í heild er á Facebook síðu Ferðamálastofu

Þórný Barðadóttir: Útgjöld farþega skemmtiferðaskipa í Reykjavíkurhöfn í landi og aðrar meginniðurstöður könnunar sumarið 2023

Þórný Barðadóttir, Rannsóknamiðstöð ferðamála

Samkvæmt úrtaki Rannsóknamiðstöðvar ferðamála áætluðu venjulegir skipafarþegar, sem komu og fóru með skipi sínu, að þeir eyddu að meðaltali tæpum 28 þús. kr. í stoppinu, þar af ríflega 20 þús.kr. í afþreyingu. Svokallaðir gistifarþegar, sem annað hvort fljúga inn og fara um borð í Reykjavík eða öfugt og nota tíma sinn fyrir eða eftir skipsdvöl til að njóta borgarinnar og nærumhverfis hennar, kváðust hins vegar eyða tæplega 98 þús.kr. eða um 3,5x meira. Stærsti útgjaldaliður þeirra var gisting, um 41 þús.kr. á mann. Aðrir skiptifarþegar, sem flugu samdægurs til/frá skipi sínu eftir að það kom í höfn og gistu ekki í landi, eyddu mjög svipuðu og venjulegir skipafarþegar í höfuðborginni að meðaltali, rúmlega 29 þús.kr. Um 60% skiptifarþega í úrtakinu gistu í landi, að meðaltali 2,15 nætur.

Um 56% svarenda sögðu útgjöld sín í Reykjavík vera sambærileg útgjöldum sínum á öðrum komustöðum á landinu. Um 39% sögðu þau vera hærri í Reykjavík og 5% að útgjöldin í Reykjavík væru lægri.

Auk upplýsinga um útgjöld kannaði RMF aðrar ýmsar aðrar stærðir í könnun sinni, s.s. þjóðerni svarenda, fyrri reynslu af Íslandi og áætlanir um endurkomu, ánægju af upplifuninni, o.fl. Um 17% svarenda höfðu komið áður til landsins; þar af ríflega 60% einnig með skipi í fyrra skipti. Tæp 90% svarenda kváðust ánægð eða mjög ánægð með heimsókn sína til Reykjavíkur, 4,5% voru hvorki né en rúmlega 5% voru mjög óánægð. Á kvarðanum 0-10, þar sem 10 er líklegast, völdu þó tæplega 24% tölu á bilinu 0-6 þegar spurt var hversu líklegir svarendur væru til að mæla með Reykjavík sem áfangastað.Tveir þriðju svarenda voru sextugir eða eldri, 69% voru á ferð sem par. Bandaríkjamenn, Bretar og Þjóðverjar voru langfjölmennastir í úrtakinu, ríflega fjórðungur svarenda hver þjóð.

Skýrsla Rannsóknamiðstöðvar ferðamála um útgjöld farþega skemmtiferðaskipa í Reykjavíkurhöfn í sumar

Opna glærur

Jóhann Viðar Ívarsson: Núll og nix eða myndarleg búbót? Tekjur Íslendinga af þjónustu við skemmtiferðaskip

Jóhann Viðar Ívarsson, Ferðamálastofa

Stórhækkað hlutfall gistifarþega af skemmtiferðaskipum í Reykjavík (og Hafnarfirði) á árunum eftir Covid, til viðbótar mun fleiri komum slíkra skipa í íslenskar hafnir en áður, hefur aukið mjög innlendar tekjur af farþegum skipanna á höfuðborgarsvæðinu og í nærumhverfi þess. Árið 2019 var hlutfall skiptifarþega af heild 9% (allra skiptifarþega, bæði þeirra sem gista og ekki). Árin 2023 og 2024 (skv. bókunum) er hlutfall þeirra um 50%.

Miðað við útgjaldatölur farþega skv. könnun RMF fyrir höfuðborgarsvæðið í sumar og að farþegar eyði um helmingi minna í þremur öðrum komuhöfnum í landinu að meðaltali (engir skiptifarþegar utan höfuðborgarsvæðis), áætlar Ferðamálastofa að bein útgjöld þessara ferðamanna innanlands í ár gætu hafa numið nálægt 20 mö.kr. án vsk. á landsvísu, tæpum 14 mö.kr. á höfuðborgarsvæðinu og um 6 mö.kr. á landsbyggðinni. Þar af hafi um 10 ma.kr. farið í afþreyingu og um 3,4 ma.kr. í gistingu á höfuðborgarsvæðinu.

Eftir öflun upplýsinga frá helstu þjónustuaðilum skemmtiferðaskipanna innanlands um eigin tekjur þeirra á þessu ári af viðskiptum við skipin áætlar Ferðamálastofa varfærið mat á tekjum íslenskra flugfélaga af því að fljúga skiptifarþegum skipanna til og frá landinu, að þær hafi numið um 4 mö.kr. Tekjur komuhafna skipanna hafi numið rúmlega 3 mö.kr, olíufélaganna af eldsneytissölu um 15 mö.kr. og að stærstu ferðaskrifstofurnar og umboðsfyrirtækin sem þjónusta skipin hafi haft um 11 ma.kr. án vsk. í tekjur í ár af þessum viðskiptum. Samtals kunni tekjur þessara stærstu innlendu þjónustuaðila af skipunum að hafa numið í kringum 52 mö.kr. án vsk. á árinu 2023.

Þá eru ótaldar tekjur hins opinbera af sköttum og gjöldum á þessa starfsemi, s.s. af virðisaukaskatti, vitagjöldum, o.fl., og margra minni fyrirtækja hringinn um landið, sem selja kost og aðrar vistir í skipin, afþreyingu, veitingar, minjagripi, osfrv.

Opna glærur

Eyrún Jenný Bjarnadóttir: Upplifun og viðhorf heimamanna til skemmtiferðaskipa á Akureyri, Ísafirði og í Reykjavík: Könnun sumarið 2023

Eyrún Jenný Bjarnadóttir, Rannsóknamiðstöð Ferðamála.

Rannasóknamiðstöð ferðamála hefur með spurningakönnunum og viðtölum vaktað reglulega viðhorf íbúa landsins til ferðaþjónustunnar fyrir Ferðamálastofu frá árinu 2014 en velvilji íbúa er mikilvægur liður í sjálfbærri þróun greinarinnar. Í ár var í fyrsta skipti spurt sérstaklega út í afstöðu íbúa í þremur bæjum, sem eru vinsælustu áfangastaðir skemmtiferðaskipa í landinu, til komu skipanna í bæinn.

Skv. úrtakinu voru 64% svarenda í Reykjavík frekar eða mjög sammála þeirri fullyrðingu að hafnaryfirvöld réðu vel við að taka á móti skemmtiferðaskipum, en 70% Ísfirðinga og 72% Akureyringa. Þegar spurt var um getu heimabyggðarinnar sem heildar til að þjónusta farþega skipanna var helst að sjá breytingu á meðal Ísfirðinga; 49% þeirra töldu byggðina ráða almennt vel við þetta en það gerðu 72% Reykvíkinga og 68% á Akureyri. Um 46% reykvískra svarenda voru frekar eða mjög sammála því að skemmtiferðaskip séu efnahagslega mikilvæg fyrir heimabyggð. Það töldu hins vegar 83% Ísfirðinga. Á Akureyri voru þeir 63% svarenda. Um 57% Reykvíkinga og Ísfirðinga og 65% Akureyringa töldu farþega skipanna eyða almennt litlu í landi.

Um 49% Ísfirðinga töldu að íbúar yrðu fyrir ónæði af komum skemmtiferðaskipa en það gerðu hins vegar 25% Reykvíkinga og 34% Akureyringa. Svipað hlutfall Ísfirðinga, eða um 47%, sagðist forðast ákveðna staði í heimabyggð þegar skemmtiferðaskip væru í höfn. Það sama átti við um 36% Akureyringa og 19% Reykvíkinga.

Þegar spurt var um áhyggjur manna af mengun frá skemmtiferðaskipum í heimabyggð bar svo við að hlutfallslega fæstir reyndust hafa áhyggjur af mengun á Ísafirði, eða um 58%, en þeir voru þrír af hverjum fjórum í Reykjavík og á Akureyri.

Að lokum svar spurt hvort svarendur vildu fá fleiri skemmtiferðaskip í sína heimbyggð. Á því reyndust aðeins 8% Akureyringa, 9% Ísfirðinga og 13% Reykvíkinga.

Opna glærur

Þorsteinn Aðalsteinsson: Bleiki fíllinn í stofunni: Mengun af skemmtiferðaskipum í íslenskri landhelgi

Þorsteinn Aðalsteinsson, Hagstofa Íslands.

Líkt og aðrir farkostir til ferðalaga menga skemmtiferðaskip á ferðum sínum. Dæmigert er að stærri skemmtiferðaskip, með 3.000 farþega, eyði um 240 tonnum af olíu á úthafssiglingu. Slík sigling frá Noregi til Íslands tekur um tvo sólarhringa, sem þýðir notkun upp á 160 kg af olíu á farþega. Þetta er hærra gildi en gerist hjá flugvélum, en þar er meðal notkun á eldsneyti um 48 kg á farþega. Í siglingu á milli hafna fer skipið hægar og má gera ráð fyrir olíunotkun upp á 140 tonn á dag. Í höfnum, þar sem ekki er hægt að fá rafmagn úr landi, má gera ráð fyrir að olíueyðsla sama skips sé um 4 tonn á dag, þar sem framleiða þarf um 75 MWh af rafmagni á dag. Til samanburðar er heildar rafmagnsnotkun heimila á Selfossi á bilinu 20-60 MWh.

Sorp- og skólpmyndun hjá skemmtiferðaskipum er sambærileg og gerist í landi, eða um 3,5 kg sorp og 35 L af skólpi á dag. Skemmtiferðaskip hafa sökum strangra reglna mun betri frágang og flokkun á sorpi en gerist í landi og eru almennt ekki að skila sorpi til úrvinnslu hérlendis. Einnig gilda strangar reglur og kvaðir um úrvinnslu á skólpi og er sá frágangur mun betri en gerist á Íslandi. Önnur mengunarefni frá skipunum eru t.d. kjölfestuvatn, brennisteinn frá eldsneyti (SOx) og sótmengun. Slík mengun kemur ekki einvörðungu frá skemmtiferðaskipum, heldur fylgir stórskipum almennt.

Opinber loftslags- og mengunaruppgjör sem eru unnin hér á landi ná ekki til skemmtiferðaskipa nema að litlu leyti, þar sem slík bókhöld eru annað hvort unnin með tilliti til mengunar frá landi, eða til mengunar sem tilheyrir íslenskum rekstri. Töluleg gögn um mengunarmagn liggja því ekki ljóst fyrir í þeirri umræðu sem þarf að eiga sér stað, en á sama tíma eru losunartölur frá íslenskum flugrekstraraðilum og öðrum aðilum í ferðaþjónustu hérlendis aðgengilegar.

Margir kostir standa til boða sem gætu bætt úr gagnaleysi í tengslum við skemmtiferðaskip, enda er þetta þekkt vandamál annars staðar. Íslensk stjórnvöld og sveitarstjórnir geta meðal annars heimilað hafnarstjórnum að taka upp umhverfiseftirlitskerfi og þannig umbunað nýrri skipum sem menga minna í hafnargjöldum. Slík kerfi kalla eftir raunverulegum gögnum um hönnun, birgðir og efnisnotkun í þessum skipum. Slík gögn myndu koma umræðu um mengunarmál tengdum þessum þætti ferðaþjónustunnar í upplýstara horf.

Opna glærur

Mynd með frétt: Skemmtiferðaskip í Akureyrarhöfn / Markaðsstofa Norðurlands