Fara í efni

8% fjölgun erlendra farþega í febrúar

8% fjölgun erlendra farþega í febrúar

Brottfarir erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll voru 160.078 í febrúar síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 11.700 fleiri en í febrúar á síðasta ári. 

Aukningin nemur 7,9% milli ára sem er sambærileg þeirri aukningu sem var í nóvember (9,8%), desember (8,4%) og janúar (8,5%) síðastliðnum en umtalsvert minni en í febrúar síðustu ára. 

Bretar og Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í febrúar og stendur fjöldi þeirra í stað á milli ára. Brottförum þjóðerna sem falla undir annað fjölgar mest en þar eru mest áberandi Austur Evrópubúar og Asíubúar. Í heild hefur fjöldi brottfara í febrúar meira en þrefaldast á undanförnum fimm árum.

Frá áramótum hafa 307.600 erlendir farþegar farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 8,2% aukning miðað við sama tímabil í fyrra.


Fjölgun brottfara í febrúar á milli ára er nú umtalsvert minni en verið hefur á síðustu árum. Frá 2014 til 2015 var aukningin 34,5%, frá 2015 til 2016 var hún 42,9% og frá 2016 til 2017 var aukningin 47,2%.

12 fjölmennustu þjóðerniBretar og Bandaríkjamenn tæplega helmingur

Af einstaka þjóðernum voru brottfarir Breta flestar í febrúar í ár, um 47 þúsund, litlu færri en í febrúar 2017. Brottfarir Bandaríkjamanna komu þar á eftir, voru 30.500 talsins en þær voru 5,6% fleiri en í febrúar á síðasta ári. Brottfarir Breta og Bandaríkjamanna voru 48,4% af heild.

Brottfarir Kínverja í febrúar í ár komu þar á eftir, um 8.600 talsins eða 5,4% af heild og voru þær litlu fleiri en árið 2017. Þar á eftir fylgdu brottfarir Þjóðverja (4,3% af heild), Frakka (4,2% af heild), Pólverja (3,7% af heild), Kanadamanna (2,5% af heild), Spánverja (2,2% af heild), Íra (1,9% af heild), Taívana (1,9% af heild), Dana (1,8% af heild) og Hollendinga (1,7% af heild).

Tvöföldun í brottförum Pólverja

Hlutfallslega er mest fjölgun í brottförum Pólverja sem voru ríflega tvöfalt fleiri í febrúar í ár en í fyrra en leiða má líkum að því að það sé í talsverðu mæli umferð vegna pólskra ríkisborgara sem hér eru búsettir atvinnu sinnar vegna. Þannig má t.d. sjá af landamærakönnun Ferðamálastofu að 27,3% Pólverja í desember og janúar síðastliðnum tilgreindu vinnu eða heimsókn til vina og ættingja sem tilgang með ferð sinni.

Einn af hverjum tíu frá Japan eða Suðaustur-Asíu

Brottfarir Kínverja, Japana, Hong Kong-búa, Indverja, Taívana, Singapúrbúa og Suður-Kóreubúa voru um 11,6% af heildarbrottförum í febrúar síðastliðnum en byrjað var að telja fimm síðasttöldu þjóðernin sérstaklega frá og með júní á síðasta ári.

Þreföldun á fimm árum

Fjöldi brottfara erlendra farþega hefur ríflega þrefaldast í febrúar á fimm ára tímabili, þ.e. frá árinu 2014. Þannig hefur fjöldi Norður-Ameríkana meira en fjórfaldast, Mið- og Suður-Evrópubúa meira en þrefaldast, fjöldi Breta meira en tvöfaldast og fjöldi þeirra sem kemur frá löndum sem flokkast undir "annað" meira en fimmfaldast. Brottförum Norðurlandabúa hefur hins vegar fjölgað í mun minna mæli á tímabilinu 2014-2017 eða um þriðjung.

Bretar standa í stað yfir veturinn

Aukning fækkun milli ára

Áhugavert er að skoða þá þróun sem verið hefur í vetur á einstökum markaðssvæðum. Mesta athygli vekur að brottfarir Breta hafa staðið í stað eða heldur fækkað á milli ára síðastiðna fjóra mánuði. Bretlandsmarkaður hefur verið okkur afar mikilvægur yfir vetrarmánuðina en heldur fleiri Bretar hafa komið að vetri en sumri síðustu ár. Hlutfallsleg aukning á milli ára er mest hjá þeim sem flokkast undir "annað" en þar undir eru meðal annars Austur-Evrópuþjóðir og Asíubúar.

Nokkur hlutfallsleg aukning er í brottförum Mið- og Suður-Evrópubúa og Norðurlandabúa en verulega hefur dregið úr aukningu Norður-Ameríkana yfir vetrarmánuðina þegar litið er til þróunar síðustu ára.

Bretar minnka stöðugt hlutdeild sína

Samsetning eftir markaðssvæðumHlutfallsleg samsetning farþega hefur breyst nokkuð frá árinu 2014 eins og sjá má af myndinni hér til hliðar um brottfarir á árunum 2014-2018. Norður-Ameríkanar voru 21,6% af heild árið 2018 en hlutdeild þeirra var nokkuð lægri á árunum 2014-2016. Hlutdeild Breta var 29,3% árið 2018 en var mun hærri á árunum 2014-2016 eða rúmlega 40%. Norðurlandabúar voru 5,1% af heild árið 2018 en hlutdeild þeirra hefur minnkað jafnt og þétt síðustu ár. Hlutdeild Mið-og Suður-Evrópubúa hefur hins vegar verið svipuð 2014-2018 en þeirra sem falla undir ,,annað“ hefur hins vegar hækkað ár frá ári frá 2014.

Ferðir Íslendinga utan

Um 40 þúsund Íslendingar fóru utan í febrúar í ár eða 14,4% fleiri en í febrúar 2017. Samtals voru brottfarir Íslendinga í janúar og febrúar um 70 þúsund talsins eða 9,4% fleiri en á sama tímabili árið 2017.

Nánari upplýsingar*

Talning Ferðamálastofu og Isavia er hugsuð sem viðbótarupplýsingar við farþegatölur Isavia til að geta greint fjölda ferðamanna til landsins eftir þjóðernum. Um er að ræða handtalningu áður en komið er inn á brottfararsvæði og vert er að hafa í huga að með þessari aðferð ná talningarnar yfir alla sem fara í gegnum öryggisleit. Tölurnar ber því að skoða með þeim fyrirvörum sem aðferðafræðin felur í sér. Þó ber að ítreka að flestir skiptifarþegar eru ekki inn í þessum tölum. 
Niðurstöður úr könnun sem Isavia hefur látið framkvæma meðal brottfararfarþega tvívegis á árinu, annars vegar yfir hásumarið (júlí-ágúst) og hins vegar í nóvember gefa til kynna að 86,3% brottfararfarþega yfir hásumarið og 92,1% í nóvember voru að heimsækja Ísland í persónulegum eða viðskiptalegum tilgangi. Þeir sem voru erlendir ríkisborgarar búsettir hérlendis til skemmri eða lengri tíma reyndust 2,7% brottfara yfir hásumarið og 4,7% í nóvember. Þeir sem millilentu án þess að fara út af flugvellinum reyndust 4,8% yfir hásumarið og 1,7% í nóvember en þeir sem millilentu og nýttu tækifærið til að fara út af flugvellinum og heimsækja einhverja staði reyndust 6,2% yfir hásumarið og 1,6% í nóvember. Sjá nánar

Skiptingu milli þjóðerna má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Ferðamenn febrúar 2018