Fara í efni

Hvaða leyfi þarf ég? - Lykilhugtök

Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson

Þann 1. janúar 2019 taka gildi tvenn ný lög á sviði ferðamála:

Hér að neðan er farið yfirr nokkra lykilþætti sem ferðaþjónustuaðilar þurfa að hafa í huga.

Tvenns konar leyfi

Allir sem skipuleggja, selja og framkvæma ferðir eru áfram leyfisskyldir. Leyfin eru tvenns konar:

  • Leyfi ferðaskrifstofu:
    Leyfið tekur til aðila sem falla undir lögin um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Allir sem bjóða einhverskonar samsettar eða samtengdar ferðir verða að hafa leyfi sem Ferðaskrifstofa.

    Núgildandi ferðaskrifstofuleyfi halda gildi sínu en tekin verða upp ný auðkenni. Þeir sem í dag eru með ferðaskrifstofuleyfi þurfa því ekki að sækja um upp á nýtt.

  • Leyfi ferðasala dagsferða:
    Tekur til aðila sem selja ferðir sem ekki falla undir lögin um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Leyfi ferðasala dagsferða er einungis fyrir þá sem bjóða aðeins stakar ferðir sem eru styttri en 24 klst. og fela ekki í sér gistingu. Hverskyns samsetning og samtenging við aðra þjónustu getur kallað á stærra leyfi.

Hvað verður um ferðaskipuleggjendaleyfi?

Leyfi ferðaskipuleggjenda halda gildi sínu til 1. mars 2019. Fyrir þann tíma þurfa þessir aðilar að skoða starfsemi sína og og sækja um nýtt leyfi í samræmi við hana. Ekki verður tekið leyfisgjald vegna endurútgáfu leyfa þeirra sem sækja um fyrir 1. mars 2019 en greiða þarf fyrir mat á fjárhæð tryggingar, falli viðkomandi undir ferðaskrifstofuleyfi.

Ferðamálstofa metur hvort um er að ræða starfsemi ferðasala dagsferða eða ferðaskrifstofu samkvæmt nýjum lögum og gefur út leyfi í samræmi við það.

Umsóknir fyrir aðila sem nú þegar eru með ferðaskipuleggjendaleyfi fara í gegnum Þjónustugátt Ferðamálastofu og verður opnað fyrir þær á fyrstu dögum nýs árs.

Hvað með bókunarþjónustur?

Hugtakið bókunarþjónusta fellur úr lögunum og ber þeim að sækja um viðeigandi leyfi, sem ferðaskrifstofa eða ferðasali dagsferða. Starfsemi upplýsingamiðstöðva verður áfram tilkynningaskyld til Ferðamálastofu.

Umsóknir fyrir aðila sem eru skráðar bókunarþjónustur fara í gegnum "Þjónustugátt Ferðamálastofu" og verður opnað fyrir þær á fyrstu dögum nýs árs.

Nýmæli - Samtengd ferðatilhögun

Nýmæli í lögunum að skilgreind er svokölluð samtengd ferðatilhögun. Í stuttu máli er hún skilgreind þannig að um sé að ræða a.m.k. tvær mismunandi tegundir ferðatengdrar þjónustu sem keyptar eru vegna sömu ferðar en mynda ekki pakkaferð, enda séu gerðir aðskildir samningar við hvern ferðaþjónustuveitanda fyrir sig. Aðilum sem hafa milligöngu um samtengda ferðatilhögun ber að hafa tryggingu komi til gjaldþrots rekstraraðila eins og þeim sem bjóða pakkaferðir.

Ríkari upplýsingaskylda

Upplýsingaskylda seljenda pakkaferða varðandi réttindi neytenda er aukin verulega. Einnig er lögð upplýsingaskylda á aðila sem hafa milligöngu um samtengda ferðatilhögun.

Fleiri verða leyfis- og tryggingaskyldir

Ljóst er að ýmsir aðilar sem til þessa hafa verið undanþegnir leyfis- og tryggingaskyldu munu falla undir gildissvið laganna, þetta getur t.d. átt við um starfsemi bókunarþjónusta, flugfélaga, gististaða og bílaleiga sem hafa milligöngu um samtengda ferðatilhögun.

Öryggisáætlun verður skylda

Öllum sem framkvæma skipulagðar ferðir inna íslensks yfirráðasvæðis verður skylt að setja sér öryggisáætlanir fyrir þær og uppfæra reglulega. Öryggisáætlanir skulu vera til bæði á íslensku og ensku.

Hvenær get ég sótt um?

Opnað verður fyrir umsóknir á fyrsti dögum ársins 2019.

  • Umsóknir um ný leyfi fara í gegnum Leyfisveitinagátt á island.is
  • Umsóknir fyrir aðila sem nú þegar eru með ferðaskipuleggjendaleyfi eða eru skráð bókunarþjónusta fara í gegnum Þjónustugátt Ferðamálastofu