Fara í efni

Erlendir ferðamenn á Íslandi 2018 - Efni frá hádegiskynningu

Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson

Á hádegisfyrirlestri Ferðamálastofu í gær voru kynntar niðurstöður heilsárskönnunar Ferðamálastofu og Hagstofunnar 2018 á upplifun og ferðahegðun erlendra ferðamanna. Efni frá fundinum er aðgengilegt hér að neðan og þá eru væntanlegar fleiri útgáfur með nánari greiningum á niðurstöðum könnunarinnar

Efni frá fundinum

Á fundinum í gær fór Oddný Þóra ÓIadóttir yfir meginþætti könnunarinnar, aðdragandann, framkvæmd og helstu niðurstöður. Jakob Rolfsson kynnti síðan nýjar útgáfur sem eru væntanlegar frá Ferðamálastofu, 7 tvíblöðunga yfir sex stærstu þjóðernin og eitt markaðssvæði. Þeir innihalda helstu stærðir á borð við lýðfræði, ferðahegðun og viðhorf hjá Bandaríkjamönnum, Þjóðverjum, Frökkum, Kanadabúum, Kínverjum, Bretum og Norðurlandabúum.

Ítarlegri þekking á viðhorfi og atferli

Gagnasöfnun vegna könnunarinnar hófst um mitt ár 2017 og með henni verður til ítarlegri þekking á viðhorfi og atferli erlendra ferðamanna en hingað til hefur legið fyrir. Þar skipta mestu regluleg gagnasöfnun og örari birting á niðurstöðum. Þannig eiga að skapast forsendur til að fylgjast betur með breytingum og þróun og með því mynda kjölfestu til framtíðar í þekkingu á þessari undirstöðuatvinnugrein.

Meðal þess sem könnunin leiðir í ljós eru upplýsingar um bókunar- og ákvörðunarferlið varðandi Íslandsferð, dvalarlengd, tegund gistimáta, tilgang ferðar, hvaða landshlutar voru heimsóttir, hvaða afþreying var nýtt, álit eða ánægju með ýmsa þætti sem snerta ferðalög fólks hér á landi og svokallað meðmælaskor (e. Net Promoter Score - NPS).

Niðurstöður birtar í Mælaborðinu

Niðurstöður könnunarinnar birtast í Mælaborði ferðaþjónustunnar um leið og búið er að vinna úr gögnum hvers mánaðar. Könnunin er tvískipt, þ.e. við brottför á Keflavíkurflugvelli er spurt nokkurra spurninga og þeir sem samþykkja frekari þátttöku fá síðan sendan hlekk í tölvupósti með spurningalista sem svarað er eftir heimkomu.