Fara í efni

Tæplega hálf milljón farþega árið 2020

Jökulsárlón sumarið 2020. Mynd: Hildur Helga Pétursdóttir
Jökulsárlón sumarið 2020. Mynd: Hildur Helga Pétursdóttir

Brottfarir erlendra farþega* frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega 480 þúsund árið 2020 eða um 1,5 milljón færri en árið 2019, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Fækkunin milli ára nemur 75,9%. Leita þarf tíu ár aftur í tímann til að sjá álíka fjölda brottfara erlendra farþega. 

Sjö af hverjum tíu brottförum árið 2020 voru farnar á tímabilinu janúar til mars og um fjórðungur yfir sumarmánuðina. 

Brottförum erlendra farþega fækkaði alla mánuði 2020 frá fyrra ári og nam fækkunin meira en 90% sjö mánuði ársins.


Brottfarir 2020 álíka margar og 2010

 

Brottfarir erlendra farþega frá landinu mældust tæplega 480 þúsund á nýliðnu ári eða 75,9% færri en árið 2019. 

Leita þarf tíu ár aftur í tímann til að sjá álíka fjölda brottfara erlendra farþega eða til ársins 2010 en þá mældist fjöldi þeirra um 459 þúsund. 

 

Sé dreifing brottfara erlendra farþega innan ársins 2020 skoðuð kemur í ljós að um um sjö af hverjum tíu voru á tímabilinu janúar til mars eða um 333 þúsund talsins. Um 124 þúsund eða fjórðungi færri brottfarir er að ræða en á sama tímabili árið 2019. Brottfarir að sumri til voru um fjórðungur brottfara ársins eða um 115 þúsund talsins, 562 þúsund færri en sumarið 2019. Nemur fækkunin 83% milli ára. Um sex prósent brottfara árið 2020 voru farnar sjö mánuði ársins eða á tímabilinu apríl til júní og á tímabilinu september til desember.

 

 

Brottfarir eftir mánuðum

Í töflunni hér til hliðar má sjá nánari útlistun á brottförum eftir mánuðum en þeim fækkaði á bilinu 10-15% í janúar til febrúar, um ríflega 50% í mars, um 80% í júlí og um 75% í ágúst. Aðra mánuði ársins fækkaði brottförum um meira en 90% milli ára eða í apríl, maí, júní, september, október, nóvember og desember.

 

 

 

 

Fjölmennustu þjóðernin

Af einstaka þjóðernum voru flestar brottfarir árið 2020 tilkomnar vegna Breta eða um 101 þúsund talsins. Um er að ræða nærri þrisvar sinnum færri brottfarir Breta en árið 2019. Brottfarir Bandaríkjamanna komu þar á eftir en þær mældust um 52 þúsund árið 2020 og fækkaði um 411 þúsund milli ára eða 88,7%. Í þriðja sæti voru brottfarir Þjóðverja, um 43 þúsund talsins og fækkaði þeim um 88 þúsund frá árinu 2019 eða um 66,9%. Samtals voru brottfarir Breta, Bandaríkjamanna og Þjóðverja um tvær af hverjum fimm (41,4%).

Þar á eftir fylgdu síðan brottfarir Pólverja (7,6% af heild), Frakka (5,8% af heild), Kínverja (5,0% af heild), Dana (4,9% af heild), íbúa frá Eystrasaltslöndunum (3,3% af heild) og Hollendinga (2,6% af heild).

 

 

Fjölmennustu þjóðernin eftir mánuðum

Hér má sjá dreifingu brottfara sjö fjölmennustu þjóðerna¹ eftir mánuðum.

  • 92,2% brottfara Breta voru á tímabilinu janúar-mars.
  • 95,1% brottfara Bandaríkjamanna voru á tímabilinu janúar-mars.
  • 44,8% brottfara Þjóðverja voru á tímabilinu janúar-mars og 50,4% á tímabilinu júlí-september.
  • 44,8% brottfara Pólverja voru á tímabilinu janúar-mars, 37,6% á tímabilinu júlí-september og 17,6% aðra mánuði.
  • 68,7% brottfara Frakka voru á tímabilinu janúar-mars og 27,8% á tímabilinu júlí-september.
  • 97,7% brottfara Kínverja voru á tímabilinu janúar-mars.
  • 65,5% brottfara Dana voru á tímabilinu júlí-september og 25,9% á tímabilinu janúar-mars.

¹Samanlagt voru sjö fjölmennustu þjóðernin árið 2020 64,8% af heild.

Ferðir Íslendinga utan

Brottfarir Íslendinga voru um 130 þúsund talsins árið 2020 eða um 481 þúsund færri en árið 2019. Fækkunin nemur 78,7% milli ára. Flestar brottfarir voru farnar á tímabilinu janúar til mars eða 67,8% talsins. Brottfarir Íslendinga hafa ekki mælst svo fáar frá því Ferðamálastofa hóf talningar árið 2002.

Nánari upplýsingar

Nánari skiptingu á milli þjóðerna má sjá í töflunni að neðan og frekari upplýsingar eru undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Niðurstöður um brottfarartalningar má jafnframt nálgast í Mælaborði ferðaþjónustunnar undir liðnum Farþegar.

Skýringar*

Fram til október voru allir brottfararfarþegar taldir en eftir það er byggt á kerfisbundnu úrtaki sem tekið er meðal farþega áður en komið er inn á brottfararsvæði Keflavíkurflugvallar. Niðurstöður eru hugsaðar sem viðbótarupplýsingar við farþegatölur Isavia til að geta greint fjölda ferðamanna til landsins eftir þjóðernum og ber að skoða þær með þeim fyrirvörum sem aðferðafræðin felur í sér. Sjá nánar Ítreka ber að flestir skiptifarþegar eru ekki inni í þessum tölum.
Ferðamálastofa áréttar að fjöldi brottfara erlendra farþega gefur vísbendingu um þróun í komum ferðamanna til landsins. Til að álykta um breytingar á umsvifum í ferðaþjónustu þarf að líta til fleiri mælikvarða s.s. fjölda gistinótta og útgjalda ferðamanna.