Fara í efni

Þjóðernasamsetning metin með nýjum hætti

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Frá og með 1. október voru gerðar breytingar á fyrirkomulagi talningar brottfararfarþega eftir þjóðerni á Keflavíkurflugvelli. Í stað handtalningar á öllum farþegum á leið úr landi verður þjóðernasamsetning framvegis metin út frá kerfisbundnu úrtaki.

Ferðamálastofa mun sem áður birta þjóðernasamsetningu ferðamanna fyrir hvern mánuð byggða á niðurstöðum frá úrtaki og tölum Isavia um heildarfjölda brottfararfarþega frá Keflavíkurflugvelli. Með nýju aðferðafræðinni má reikna með að skekkja í hlutfalli hvers þjóðernis sé innan við +/- 0,3% að meðaltali í mánuði.

Talning á ferðamönnum til landsins hefur verið einn af lykilmælikvörðum íslenskrar ferðaþjónustu en um er að ræða ómetanlega heimild sem nær allt til ársins 1949. Út frá niðurstöðum talningar hefur verið hægt að fylgjast náið með þróun á fjölda ferðamanna og samsetningu þeirra. Fjöldatölur byggðar á talningu á Keflavíkurflugvelli hafa verið grundvallarbreyta í hagtölugerð og greiningu á ferðaþjónustu í íslensku og alþjóðlegu samhengi, auk þess sem þær hafa lagt grunn að framtíðarspám.

Framkvæmd talningar hefur verið samvinnuverkefni Ferðamálastofu og Isavia en verður nú alfarið á vegum Ferðamálastofu. Vegna breytinga á aðferðafræði var nokkur seinkun á birtingu októbertalna miðað við það sem hefur tíðkast en þær komu inn á vefinn í dag.