Fara í efni

Opið ferli um áherslur Austurlands

Frá fundi á Austurlandi

Á Austurlandi hefur verið farið í markvissa vinnu til þess að finna og greina sérstöðu landshlutans og um leið skilgreina áherslur landshlutans svo viðhalda megi sérstöðunni um ókomna tíð. Vinna við verkefnið Áfangastaðurinn Austurland fléttast inn í verkefni Ferðamálastofu um áfangastaðaáætlanir landshlutanna sem hefur verið í gangi síðastliðið ár.

Áfangastaðurinn Austurland

Verkefnið Áfangastaðurinn Austurland var sett af stað árið 2014 að frumkvæði Ferðamálasamtaka Austurlands en því hefur alla tíð verið stýrt af Austurbrú. Verkefnið snýst um að þróa og hanna áfangastaðinn Austurland með það að markmiði að styrkja aðdráttarafl og samkeppnishæfni Austurlands, gera áætlun til lengri tíma með áherslu á sjálfbæran og arðbæran vöxt ferðaþjónustu og skapandi greina.

Þessi vinna á Austurlandi fléttast inn í verkefni Ferðamálastofu um áfangastaðaáætlanir sem hefur verið í gangi undanfarið ár.

Fyrir austan hafa verið haldnir opnir fundir með hagsmunaaðilum á svæðinu. Hátt í tvö hundruð manns hafa komið að vinnunni í kringum Áfangastaðinn Austurland. Öllum hefur verið boðið á fundi frá upphafi; íbúum, sveitarfélögum, fyrirtækjum og öðrum áhugasömum. Fundir hafa verið auglýstir í héraðsmiðlum og á heimasíðum Austurbrúar og sveitarfélaga.

Ferðalag gestsins

Á fyrsta fundi verkefnisins Áfangastaðurinn Austurland sem haldinn var í október 2014 var notuð sérstök aðferð til að sjá út styrkleika og veikleika svæðisins og tækifæri þess og ógnanir. Notast var við aðferð sem kallast ferðalag gestsins. Þar settu aðilar á fundinum sig í spor íbúa, nýrra íbúa og ferðamanna. Áttu þátttakendur að lýsa hugsanlegum ástæðum þess að flytja til Austurlands eða ástæðum núverandi íbúa fyrir búsetu í fjórðungnum. Þá áttu aðilar að lýsa einum degi frá því þeir vakna og þar til þeir leggjast til hvílu.

Niðurstöður úr þessari vinnu gáfu tilefni til að velta fyrir sér því sem betur mætti fara og hvað það væri sem hefði áhrif á upplifun íbúa og ferðamanna á svæðinu. Það sem kom helst í ljós voru sterk tengsl íbúa við svæðið og hversu stórt hlutverk náttúran og kyrrðin spilar þar inn í. Þá hafði það mikið gildi fyrir ferðamenn að komast í samband við heimamenn og ferðast í náttúrunni. Veikleikar sneru að fáum nýum atvinnutækifærum og lítilli þjónustu við ferðamenn fyrir utan sumarmánuði.

Áskoranir Austurlands

Í framhaldi var haldin opin vinnustofa þar sem leitast var við að svara því hvernig Austurland yrði þróað áfram og gert að öflugri áfangastað. Fundargestir komu sér sjálfir saman um umræðuefni og forgangsröðuðu þeim. Meðal þess sem var rætt var samstarf sveitarfélaga, stefnuyfirlýsing svæðisins, heilsársferðaþjónusta, innviðir, samgöngur, afþreying og vöruþróun á svæðinu. Hóparnir fóru yfir þessi umræðuefni og listuðu upp helstu áskoranir svæðisins. 

Í framhaldinu fór fram mikil vinna tengd áherslusviðum Austurlands hvað varðar þróun áfangastaðarins. Fjölmargir hagsmunaaðilar tóku þátt, viðruðu skoðanir sínar og veltu fyrir sér í sameinigu hverjar áherslur fjórðungsins væru.

Framtíðarsýn Austurlands

Á næsta fundi var framtíðarsýn svæðisins rædd og greind. Meðal þess sem rætt var á fundinum voru þau loforð sem hægt væri að gefa ferðamönnum og nýjum íbúum, gildi svæðisins, persónuleiki svæðisins og hvaða minningar gestgjafarnir vildu skapa hjá gestunum.

Í lok þessa fundar voru áherslur Austurlands skilgreindar og sérfræðingar á hverju sviði kallaðir til svo vinna mætti stefnuyfirlýsingu fyrir fjórðunginn. Sem dæmi má nefna að kokkar og rekstraraðilar veitingahúsa á Austurlandi voru fengnir til að vinna yfirlýsingu í tengslum við mat og matarmenningu svæðisins. Svipuð aðferð var notuð til að vinna yfirlýsingu fyrir aðrar áherslur landshlutans.

Áherslur Austurlands:

Útivistarmöguleikar

  • Við viljum þróa sjálfbæra útivistarmöguleika.
  • Við viljum að útivistarmöguleikarnir okkar hafi á sér persónulegt handbragð.
  • Við stefnum á að bjóða upp á útivistarmöguleika árið um kring.
  • Við viljum sníða útivistarmöguleikana að gestum okkar og þörfum þeirra.
  • Við viljum að útivistarmöguleikar sem í boði eru séu faglegir og vottaðir, til að bjóða upp á vörur í háum gæðaflokki og örugga upplifun.

Leiðangrar

  • Við viljum að allir upplifi og skilji að þeir eru á Austurlandi.
  • Við viljum að gestir okkar upplifi sig örugga þegar þeir kanna Austurland.
  • Við viljum að gestir okkar hafi aðgang að góðum upplýsingum þegar þeir kanna Austurland.
  • Við viljum að Austurland sé áfangastaður sem hægt er að kanna út í hið óendanlega.
  • Við viljum að staðið sé vörð um umhverfi okkar og náttúru.

Matur

  • Við viljum að maturinn okkar beri vott um hreinleika, ferskleika og einfaldleika.
  • Við viljum að maturinn beri vitni um líðandi árstíð.
  • Við viljum fara fram úr væntingum og standa við loforð.
  • Við berum virðingu fyrir hráefninu og sýnum því væntumþyggju og virðingu.
  • Við bjóðum gestum okkar að taka þátt í matarmenningu okkar.
  • Við viljum leggja frekari áherslu á hollustu.

Menning og sköpun

  • Við viljum að gestir okkar upplifi sköpunarkraft Austurlands.
  • Við viljum að gestir okar hafi aðgang að menningu okkar og sköpun.
  • Við viljum að upplifun á Austurlandi verði einstakari með því að bæta við hana auka lagi af menningu og sköpun í hæsta gæðaflokki.
  • Við viljum hvetja til þess að menning og sköpun tengist landslaginu og menningararfleifðinni sem umvefur okkur.
  • Við viljum að sagan um Austurland einkennist af menningu okkar og sköpun.

Austurland: hágæða vörur og upplifun

Á Austurlandi eru allir samstarfsaðilar komnir með aðgang að verkfærakistu þar sem meðal annars er hægt að skoða stefnuyfirlýsinguna. Verkefnisstjórar áfangastaðaáætlunar á Austurlandi trúa því að hún muni nýtast vel í áframhaldandi vinnu við áfangastaðaáætlun Austurlands og geti virkað sem leiðarljós þegar farið er af stað með vöruþróun á Austurlandi.

Nú vinna verkefnisstjórar að undirmarkmiðum og aðgerðum sem tengjast áherslunum. Áherslur Austurlands tengjast allar hægri ferðamennsku þar sem markmiðið er að gestir dvelji lengur á svæðinu. Áherslurnar eru einnig tengdar íbúunum á svæðinu og mikilvægi þess að þeim líði vel í sínu eigin umhverfi.

Lokamarkmiðið er að þróa hágæða vöruru og upplifun með sérstöðu sem mun hafa jákvæð áhrif á íbúa og gesti Austurlands.

Á vef Ferðamálastofu eru reglulega fluttar fréttir af vinnu við gerð áfangastaðaáætlana og nánari upplýsingar um verkefnið má einnig nálgast hér.