Ný reglugerð um tryggingar - Opnað fyrir umsóknir

reglugerð um tryggingar vegna sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar hefur tekið gildi. Jafnframt hefur verið opnað að nýju fyrir umsóknir um ferðaskrifstofuleyfi en reglugerðin var forsenda þess að hægt væri að taka við umsóknum í samræmi við nýja löggjöf sem tók gildi um áramótin.

Hvað felst í reglugerðinni?

Reglugerðin kveður meðal annars á um tryggingarskyldu, bókhald og reikningsskil, upplýsingaskyldu vegna sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar, mat á fjárhæð tryggingar og heimildir til tímabundinnar hækkunar og lækkunar tryggingarfjárhæðar.

Helstu breytingar

Sé miðað við fyrri reglugerð þá eru helstu breytingar þessar:

  • Forsendum útreiknings við mat á tryggingarfjárhæð hefur verið breytt. Litið er til fleiri þátta í nýju fyrirkomulagi við mat á fjárhæð tryggingar en áður var.
  • Gögn sem liggja eiga til grundvallar útreikningi eru færð nær í tíma, en áður var, en eigi síðar en 1. apríl skal skila gögnum vegna árlegrar endurskoðunar tryggingarfjárhæða.
  • Auknar kröfur eru gerðar um upplýsingar um sölu pakkaferða.

Helstu nýmæli:

  • Aðilar með staðfestu utan EES-svæðisins sem beina markaðssókn sinni varðandi sölu pakkaferða að ferðamönnum hér á landi eru tryggingarskyldir og skulu tilkynna starfsemi sína til Ferðamálastofu
  • Skipuleggjanda er heimilt að undanskilja frá tryggingarskyldri veltu tekjur vegna pakkaferða sem seldar eru af smásala sem uppfyllir tryggingarskyldu vegna þeirra.
  • Hafi tryggingarskyldur aðili ekki skilað inn gögnum fyrir 1. apríl ár hvert er Ferðamálastofu heimilt að áætla fjárhæð tryggingar og getur áætluð tryggingarfjárhæð verið allt að 50% hærri en tryggingarfjárhæð fyrra árs.
  • Skylt er að tilkynna til Ferðamálastofu ef fyrirsjáanlegt er að tryggingarskyld velta verði umtalsvert meiri á yfirstandandi ári en þau gögn sem lágu til grundvallar ákvörðun tryggingarfjárhæðar gáfu til kynna.
  • Hafi aukin tryggingarskyld velta verið tilkynnt til Ferðamálastofu er heimilt að undanskilja tímabundna auka veltu síðasta rekstrarárs við mat á tryggingarfjárhæð.
  • Heimilt er að lækka tímabundið tryggingarfjárhæð vegna samdráttar í rekstri. Skilyrði er að eigið fé sé jákvætt, vanskil með opinber gjöld séu ekki fyrir hendi og ekki sé ástæða til að ætla að trygging muni ekki nægja komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar. Sækja þarf um slíka heimild til Ferðamálastofu og skal umsókn studd fylgigögnum sem Ferðamálastofa metur nægjanleg.

Tryggingarskyldir aðilar eru hvattir til að kynna sér reglugerðina. Fyrstu skil vegna endurskoðunar á tryggingarfjárhæð samkvæmt nýju reglugerðinni eru 1. apríl næstkomandi.


Umsóknir um ferðaskrifstofuleyfi

Sem fyrr segir var nýja reglugerðin forsenda þess að hægt væri að taka við nýjum umsóknum um ferðaskrifstofuleyfi. Sótt er um á Þjónustugátt Ferðamálastofu og er nauðsynlegt er að skrá sig inn með Íslykli eða rafrænum skilríkjum í farsíma.


Athugasemdir