Fara í efni

Íslandsferðin uppfyllir væntingar vetrargesta

©arctic-images.com
©arctic-images.com

Ýmsar áhugaverðar niðurstöður er að finna í könnun meðal erlendra ferðamanna sem Maskína sá um að framkvæma fyrir Ferðamálastofu. Niðurstöður úr svörum þeirra gesta sem heimsóttu landið síðastliðinn vetur liggja nú fyrir og í árslok verða birtar niðurstöður úr svörum sumargesta 2014.

Um könnunina

Með könnuninni var aflað upplýsinga um erlenda ferðamenn á Íslandi, aðdragandann að Íslandsferðinni, ferðahegðun þeirra á Íslandi, eyðsluhætti og viðhorf þeirra til ýmissa þátta íslenskrar ferðaþjónustu. Um var að ræða netkönnun þar sem netföngum var safnað með skipulögðum hætti á komu- og brottfararsvæði flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á tímabilinu október 2013 til maí 2014. Úrtakið var 4.500 manns og var svarhlutfallið 55,8%. Könnunin var unnin með sambærilegum hætti og síðasta könnun, sem framkvæmd var á tímabilinu september 2011 til maí 2012.

Hvað er fólk tilbúið að greiða fyrir náttúrupassa?

Í ljósi umræðu um mögulega fjármögnun á uppbyggingu og viðhaldi ferðamannastaða, voru gestir beðnir um álit sitt á verði á hugsanlegum náttúrupassa.

  • Hvaða verð væri svo lágt að efast mætti um gæði heimsóttra staða
  • Hvaða verð væri hagstætt
  • Hvaða verð væri við það að vera of hátt
  • Hvaða verð á náttúrupassanum væri of hátt

Hvað er fólk tilbúið að greiða fyrir náttúrupassa

Þegar reiknað er út úr niðurstöðum þessara spurninga skv. aðferð hollenska hagfræðingsins Peter Van Westendorp (Price Sensitivity Meter) kemur í ljós að verð á náttúrupassanum ætti að vera á bilinu 5.000-8.000 kr. (nánar um útreikninga skv. aðferðinni má finna á bls. 14 í skýrslunni). Þetta verðbil miðast við að náttúrupassinn væri vara eða þjónusta á samkeppnismarkaði, þannig að ef ná á sem mestu fé fyrir náttúrupassann mætti eflaust hafa verðið hærra, en vilji menn hafa það sanngjarnt er mælt með að það sé á umræddu bili 5.000-8.000 kr. Það er athyglisvert að meðaltal fyrir það verð sem erlendu vetrargestirnir töldu hagstætt (2. spurning) er einmitt um það bil 6.500 kr. Vert er að benda á að hér eru spurðir gestir sem þegar hafa lokið heimsókn sinni til landsins.

Ferðin stóðst væntingar

Meðal ánægjulegustu niðurstaðna er að gestir til landsins eru líkt og áður einkar sáttir við heimsóknina. Íslandsferðin stóðst þannig væntingar 95,4% svarenda sem er álíka hlutfall og í síðustu vetrarkönnun en þá var hlutfallið 95,0%. Tæp 84% töldu líklegt að þau myndu ferðast aftur til Íslands.

Tilgangur og dvalarlengd

Langflestir voru hér í fríi (87,1%) og var dvalarlengdin að jafnaði um 6,1 nótt, samanborið við 6,6 nætur í síðustu vetrarkönnun. Flestir, eða rúm 50% gesta, gistu hins vegar 3-4 nætur.

Af hverju Ísland

Fjölmargir þættir ollu því að Ísland varð fyrir valinu þó svo náttúran, menningin eða sagan og gott ferðatilboð hafi oftast verið nefnd. Er þetta í samræmi við það sem fyrri kannanir hafa sýnt. Nokkru fleiri nefna þó náttúruna en í síðustu vetrarkönnun, eða 77,7% nú en voru 72,3% áður.

En hvað í náttúrunni

Hvað í náttúrunni?Þeir sem nefndu náttúruna sem áhrifavald í Íslandsferð voru spurðir um hvað það væri varðandi náttúruna sem heillaði. Er þetta í fyrsta sinn sem spurning af þessu tagi er í könnun Ferðamálastofu. Þá voru oftast nefnd þau atriði sem myndin hér til hægri sýnir.

Næst á listanum komu dýralíf (3,9%), hreinleiki/rósemd (3,3%), Bláa lónið (2,5%) og hvalir (2,3%).

Ákvörðun um Íslandsferð

Síðustu kannanir hafa sýnt að bæði ákvörðunar- og kaupferlið hafa verið að styttast og virðist sú þróun halda áfram hvað ákvörðunarferlið varðar. Þannig sögðu 60,7% svarenda að hugmynd að ferðinni hefði kviknað innan 9 mánaða frá brottför, samanborið við 46,1% fyrir tveimur árum. Álíka hlutfall nefndi hins vegar svarmöguleikann 3 mánuðir eða skemur, þannig að fjölgunin er í hópi þeirra sem nefna 3-9 mánuði.

Helmingur svarenda bókaði ferðina innan tveggja mánaða frá brottför, sem er nokkuð lægra hlutfall en í síðustu könnun. Álíka margir nefna 2-4 mánuði þannig að hlutfall þeirra sem nefna lengri fyrirvara en 4 mánuði hækkar nokkuð.

Vaxandi áhrif samfélagsmiðla

Almennur áhugi á landi og þjóð var það sem flestir nefndu þegar spurt var hvaðan hugmyndin að Íslandsferð hefði kviknað, eða um 48%. Þar á eftir koma upplýsingar frá vinum og ættingjum og Internetið. Áhugavert er að sjá vaxandi hlut tveggja síðarnefndu þáttanna m.v. síðustu kannanir. Internetið og vinir og ættingjar auka einnig hlut sinn sem helsta uppspretta upplýsinga áður en ferð var farin, sem gæti bent til vaxandi áhrifa samfélagsmiðla á ferðahegðun fólks og mikilvægi þess að viðhalda góðu orðspori áfangastaðarins.

Varðandi áhrifaþætti um hvaðan hugmynd um Íslandsferð kviknaði þá var svarmöguleikum fjölgað frá síðustu könnun. M.a. var bætt við svarmöguleikanum „Alþjóðlegar kvikmyndir, sjónvarpsþættir eða tónlistarmyndbönd með íslensku landslagi“ og nefndi tæplega tíundi hver gestur þann valmöguleika.

Ferðaþjónustan almennt með góða einkunn

Í könnuninni er fólk beðið að meta rúmlega 20 þætti í íslenskri ferðaþjónustu og gefa þeim einkunn á bilinu 0-10. Hæstu meðaleinkunnina fá þættirnir „Fjölbreytni í náttúrutengdri afþreyingu“ (8,81) og „Almennt ástand á ferðamannastöðum“ (8,72). Aðeins þrír þættir fara undir 8 í meðaleinkunn. Þetta eru „Merkingar-nöfn vega og vegnúmer“ (7,96), "Framboð af menningartengdri afþreyingu" (7,89) og "Fjölbreytni veitingastaða" (7,75).

Hvar á landinu var gistHvar á landinu var gist?

Dvöl vetrargesta var að miklu leyti bundin við höfuðborgarsvæðið en um 94,4% svarenda gistu í Reykjavík og nágrenni og var meðaldvalarlengdin 4,3 nætur. Aðrir landshlutar auka hins vegar hlut sinn í gistinóttum frá síðustu könnun, sérstaklega Suðurland. Myndin sýnir hversu hátt hlutfall gesta gisti í hverjum landshlutam (tölur úr síðustu vetrarkönnun innan sviga).

Hvaða svæði og staðir voru heimsótt?

Hvaða svæði voru heimsóttAllt önnur mynd birtist hins vegar þegar spurt er hvaða landshlutar voru heimsóttir, einkanlega hvað varðar svæðin sem liggja að höfuðborginni.

Auk þess var spurt sérstaklega um heimsóknir á 40 staði/svæði vítt og breitt um landið. Af þeim sögðust flestir hafa heimsótt Geysi eða Gullfoss, Bláa Lónið og Þingvelli, eins og vart þarf að koma á óvart. Nokkra athygli vekur að flestir aðrir staðir á listanum nú eru nefndir af lægra hlutfalli gesta en áður.

Hvaða afþreyingu var greitt fyrir?

Hvaða afþreyingu var greitt fyrirVetrargestir hafa líkt og áður einkum áhuga á afþreyingu tengdri náttúruupplifun, heilsu og vellíðan. Þegar spurt var um hvaða afþreyingu greitt hefði verið fyrir voru oftast nefndir þeir þættir sem myndin sýnir.

Þar á eftir koma sýningar og listagallerí, hestaferð og skipulögð gönguferð með leiðsögn.

Bláa lónið minnisstæðast

Hvað var minnisstæðastÞegar svarendur voru spurðir að því hvað þrennt þeim hefði þótt minnisstæðust við Íslandsferðina nefndu flestir Bláa lónið (36,1%), náttúru eða landslag (27,4%) og norðurljós (24,4%). Annars má sjá þá þætti sem flestir nefndir á myndritinu hér til hliðar. 

Eina verulega breytingin er að norðurljósin auka verulega vægi sitt á milli kannana, úr 16,1% í 24,4%.

Styrkur ferðaþjónustu á Íslandi liggur í náttúru og landslagi

Vetrargestir töldu líkt og áður að styrkleikar ferðaþjónustu lægju fyrst og fremst í náttúrunni og landslaginu en 62,7% vetrargesta nefndu þessa þætti. Næst kom fólkið og gestrisni lands og þjóðar en tæplega þriðjungur vetrargesta nefndi þann valmöguleika. Þar á eftir kom afþreying og það hversu margt væri hér að gera og sjá (17,7%), menningin og sagan (9,2%) og svo matur og veitingastaðir (7,8%).

Gæðavitund að vaxa

Hærra hlutfall gesta nefnir nú en áður að það skipti máli við val þess á ferðaþjónustufyrirtæki að það sé með viðurkennda gæðavottun, eða 73,7% en var 64,5% í síðustu könnun. Þar áður var hlutfallið 56,2%. Virðist því sem gæðavitund gesta sé að vaxa.

Nánari niðurstöður

Niðurstöður úr könnuninni má nálgast í skýrslunni hér að neðan. Heildarniðurstöður eru settar fram í gröfum þar sem sjá má samanburð milli svara sumargesta 2011 og vetrargesta 2011-2012 þar sem slíkt á við. Einstaka spurningar eru síðan greindar fyrir svör gesta eftir kyni, aldri, starfi, heimilistekjum, þjóðerni, markaðssvæðum, tilgangi ferðar og tegund ferðar þ.e. hvort um var að ræða ferð á eigin vegum eða pakkaferð.

Íslensk útgáfa:
Könnun meðal erlendra ferðamanna á Íslandi veturinn 2013-2014 (16 MB)

Ensk útgáfa:
Könnun meðal erlendra ferðamanna á Íslandi veturinn 2013-2014 (16 MB)