Fara í efni

Ferðamönnum fjölgaði um 134 þúsund árið 2013

Um 781 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll á nýliðnu ári samkvæmt talningum Ferðamálastofu. Um er að ræða 20,7% aukningu frá 2012 þegar erlendir ferðamenn voru 647 þúsund. Vart þarf að taka fram að ferðamenn hafa aldrei verið fleiri.

10 fjölmennustu þjóðerninTíu fjölmennustu þjóðernin

Tæplega þrír fjórðu ferðamanna árið 2013 voru af tíu þjóðernum. Bretar og Bandaríkjamenn voru langfjölmennastir en þar á eftir komu ferðamenn frá Þýskalandi, Noregi, Frakklandi, Danmörku, Svíþjóð, Kanada, Hollandi og Kína. Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum, Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum mest árið 2013. Þannig komu 42.500 fleiri Bretar árið 2013 en árið 2012, 24.700 fleiri N-Ameríkanar og 10.600 fleiri Þjóðverjar.

Aukning fjölgun á milli áraFjölgun alla mánuði ársins

Aukning eftir mánuðum hefur verið mismikil en hlutfallslega var hún þó mest í nýliðnum desember mánuði þegar ferðamönnum fjölgaði um 49%. Bretar báru upp nærri helming þeirrar aukningarnar, eins og sjá  má í töflunni hér neðst á síðunni.

Fjöldamet voru slegin í öllum mánuðum ársins 2013. Í febrúar, mars og desember fór aukning ferðamanna yfir 40% í samanburði við sömu mánuði árið 2012. Í janúar, apríl, júní og nóvember var aukningin á bilinu 20-30% og í maí, júlí, ágúst, september og október var hún á bilinu 10-20%. Ýmsar ástæður hafa verið nefndar fyrir þessari aukningu. Áfram var mikil umfjöllun um landið á erlendum vettvangi þar sem saman fór öflugt markaðsstarf og fleiri þættir. Þá er ljóst að framboð á flugsætum hefur aldrei verið meira en í fyrra og gengið áfram hagstætt fyrir erlenda ferðamenn.

Brottfarir eftir mörkuðumSkipting eftir markaðssvæðum

Vert er að skoða að ferðamenn frá einstökum markaðssvæðum dreifðust nokkuð ólíkt yfir árið. Þannig voru ferðamenn frá Mið- og Suður-Evrópu áberandi yfir sumarmánuðina á meðan Norðurlandabúar Norður Ameríkanar og ferðamenn frá löndum sem flokkast undir annað dreifðust talsvert jafnar yfir árið. Bretar skera sig hins úr en um helmingur þeirra kom yfir vetrarmánuðina. Þetta er nánar sýnt á myndinni hér til hliðar þar sem hægt er að bera einstök markaðssvæði saman.

Árstíðasveiflan minnkar

Sé litið á skiptingu ferðamanna eftir árstíðum má sjá að hlutfall ferðamanna utan háannar, þ.e. sumarmánuðanna þriggja, fer úr rúmum 53% árið 2012 í tæp 56% í fyrra. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá fjölgun gesta yfir vetrartímann en tæplega 27% gesta komu á þeim árstíma. Nánari skiptingu má sjá í meðfylgjandi töflu.

Árstíðasveifla ferðamanna

Ferðamenn eftir árstíðum

Ferðamenn veturVetur (jan.-mars/nóv.-des.)
Um 27% erlendra ferðamanna árið 2013 komu að vetrarlagi eða um 210 þúsund talsins. Um er að ræða tæplega 58 þúsund fleiri ferðamenn en yfir vetrarmánuðina árið 2012. Aukningin nemur 37,8% milli ára. Bretar báru að miklu leyti uppi aukningu vetrarins en um 27 þúsund fleiri ferðamenn komu frá Bretlandi yfir vetrarmánuðina 2013 en að vetri til í fyrra. Um er að ræða 61% aukningu Breta milli ára. N-Ameríkönum fjölgaði jafnframt verulega eða um 44%, ferðamönnum frá löndum sem flokkast undir annað um 36,6% og ferðamönnum frá Mið- og S-Evrópu um 33,5%. Minni aukningu mátti sjá frá Norðurlöndunum en þaðan komu 4,2% fleiri ferðamenn en árið 2012.

Af einstaka þjóðum voru flestir vetrarferðamenn frá Bretlandi (33,6%) og Bandaríkjunum (14,6%). Ferðamenn frá Noregi (6,0%), Þýskalandi (5,4%), Danmörku (4,4%), Frakklandi (4,0%), Svíþjóð (3,8%), Japan (3,1%), Hollandi (2,6%) og Kanada (2,2%) fylgdu þar á eftir en samanlagt voru framangreindar tíu þjóðir um 80% ferðamanna að vetrarlagi.

Ferðamenn vor/haustVor/haust (apríl-maí/sept.-okt.)
Um 29% erlendra ferðamanna árið 2013 komu að vori eða hausti til eða um 225 þúsund talsins, 33 þúsund fleiri ferðamenn en á sama tímabili árið 2012. Aukningin nemur 17,1% milli ára. Hlutfallslega fjölgaði Bretum mest eða um 37,7% en á eftir fylgdu ferðamenn frá öðrum markaðssvæðum (24%) og N-Ameríku (32,4%). Mið- og S-Evrópubúum fjölgaði í minna mæli eða um 9,8% og Norðurlandabúar ráku lestina með 4,1% aukningu.

Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn að vori og hausti árið 2013 frá Bretlandi (17,4%) og Bandaríkjunum (14,9%). Þar á eftir komu ferðamenn frá Noregi (9,5%), Þýskalandi (8,3%), Danmörku (6,7%), Svíþjóð (5,7%), Frakklandi (4,6%), Kanada (3,9%), Hollandi (2,7%) og Finnlandi (2,5%) en samanlagt voru þessar tíu þjóðir 76,2% ferðamanna að vori og hausti.

Ferðamenn sumarSumar (júní-ágúst)
Um 44% ferðamanna komu yfir sumarmánuðina þrjá eða um 345 þúsund. Um var að ræða 43.500 fleiri ferðamenn en sumarið 2012 og nemur aukningin 14,4% milli ára. Aukning var frá öllum markaðssvæðum nema Norðurlöndunum sem stóðu í stað. Bretum fjölgaði um 22,4%, N-Ameríkönum um 21,2%, Mið- og S-Evrópubúum um 11,9% og ferðamönnum frá löndum sem flokkast undir annað um 23,4%.

Af einstaka þjóðum voru flestir ferðamenn að sumri árið 2013 frá Bandaríkjunum (16,1%) og Þýskalandi (13,2%). Þar á eftir fylgdu ferðamenn frá Frakklandi (8,5%), Bretlandi (7,9%), Danmörku (5,4%), Noregi (5,4%), Svíþjóð (4,3%), Ítalíu (3,3%), Hollandi (3,2%) og Spáni (3,1%) en samanlagt voru þessar tíu þjóðir 70,4% ferðamanna sumarið 2013.

Ferðamenn á öðrum innkomustöðum

Talningar Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar ná til um 96% erlendra ferðamanna sem koma til landsins. Unnið er að því að fá tölur fyrir flugvellina í Reykjavík, á Egilsstöðum og Akureyri, sem og skipafarþega með Norrænu. Þær tölur er þó ekki hægt að greina eftir þjóðernum, líkt og hægt er með farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll.

Nánari upplýsingar

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Tafla með fjölda ferðamanna