Fara í efni

Bandaríkjamönnum fjölgar í júlí en öðrum fækkar

Bandaríkjamönnum fjölgar í júlí en öðrum fækkar

Samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar voru brottfarir erlendra farþega frá Íslandi rúmlega 278.600 í júlí sem er 2.5% fjölgun miðað við júlí í fyrra.  

Fjölgunin í júlí byggir að mestu leyti á Bandaríkjamönnum sem hafa aukið hlutdeild sína til muna. Rúmlega 27% fleiri Bandaríkjamenn fóru frá Leifsstöð í júlí í ár en á sama tíma í fyrra. Norðurlandabúum, Bretum, Frökkum, Þjóðverjum og Kanadamönnum, sem einnig tilheyra mikilvægum markaðssvæðum fyrir Ísland, fækkaði hins vegar um 9-19% í júlí á milli ára. Ef fjöldi Bandaríkjamanna hefði staðið í stað milli ára hefði brottfararfarþegum í júlí fækkað um 5.6%.

Frá áramótum hafa rúmlega 1300 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi um Leifsstöð sem er tæplega 5% fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra.


Erlendum farþegum fjölgar um 2,5% í júlí

Í júlí voru erlendir brottfararfarþegar í Leifsstöð 278.613 og hafa aldrei verið fleiri í júlímánuði. Bandaríkjamenn eru fjölmennastir þjóðerna í júlí með tæplega 103 þúsund farþega eða 36.9% af heild. Þar á eftir koma Þjóðverjar, Bretar, Frakkar og Kanadamenn með 4.5-7.4% hlutdeild.

Fjölgun farþega í júlí var tæplega 6700 á milli ára eða 2.5% sem er óveruleg fjölgun miðað við fyrri ár. Bandaríkjamönnum fjölgaði um rúmlega 27% í mánuðinum á milli ára á meðan farþegum frá flestum öðrum ríkjum fækkaði verulega. Sem dæmi fækkaði Þjóðverjum um 19.6% í júlí, Frökkum um 16,7%, Bretum um 13.3% og Kanadamönnum um 9,1% miðað við júlí í fyrra. Hefði fjöldi Bandaríkjamanna staðið í stað frá því í júlí í fyrra hefði brottfararfarþegum júlímánaðar fækkað um 5.6% á milli ára.

Fleiri en spár gerðu ráð fyrir

Athygli vekur að raunfjöldi brottfararfarþega í júlí er nokkru meiri en uppfærð spá ISAVIA fyrir ferðasumarið 2018 sem kynnt var í 30. maí sl. Þar var áætlað að fjöldi erlendra brottfararfarþega yrði tæplega 242 þúsund í júlí eða 36 þúsundum færri en fóru frá landi. Sömu sögu er að segja í júní en þá fóru rúmlega 19 þúsund fleiri farþegar frá Íslandi en gert var ráð fyrir í spá ISAVIA.

Heimild: ISAVIA (2018).  Ferðasumarið 2018 og farþegaþróun á Keflavíkurflugvelli

Markaðurinn að breytast

Frá áramótum 2018 hafa rúmlega 1300 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi um Leifsstöð sem er tæplega 5% fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra. Markaðshlutdeild Norður-Ameríku (Bandaríkja og Kanada) vegur mest með 34% af heild.

Frá Mið- og Suður-Evrópu og Bretlandseyjum koma 19% og 15% farþega. Norðurlandabúar og Asíubúar voru heldur færri, með 8% hlutdeild hvorir um sig og Austur-Evrópubúar voru 6% brottfararfarþega. 


Mest fjölgun frá N-Ameríku

Athyglisvert er að skoða hvernig farþegafjöldinn hefur þróast eftir markaðssvæðum á þessu tímabili (janúar-júlí) síðustu ár. Þegar nokkur ár eru skoðuð aftur í tímann sést vel að mikil aukning hefur einkennt þróunina, sér í lagi í N-Ameríku. Frá 2017 hefur dregið verulega úr fjölgun farþega á milli ára.

Enn fjölgar örlítið á öllum markaðssvæðum nema á Norðurlöndum þar sem farþegum fækkar um 8% frá því á sama tímabili í fyrra.

Breytt samsetning

Þegar hlutfallsleg samsetning brottfara er skoðuð fyrir fyrstu mánuði ársins (janúar-júlí) nokkur ár í röð sést glöggt hvernig hlutdeild Norður-Ameríku hefur verið að aukast ár frá ári einkum á kostnað Norðurlandabúa, en einnig Breta og Mið- og Suður-Evrópubúa. Einn af hverjum þremur farþega kemur frá Norður-Ameríku.

Hlutdeild þjóðerna sem flokkast undir “annað” (þjóðir Asíu, Afríku, Mið- og Suður-Ameríku og Eyjaálfu – og vega þar Kínverjar, Ástralir og Nýsjálendingar þyngst) hefur aftur á móti hækkað úr fimmtungi í fjórðung farþega á tímabilinu 2014-2018.

Ferðir Íslendinga utan

Rúmlega 66 þúsund Íslendingar fóru utan í júlí í ár eða 6% fleiri en í júlí 2017. Samtals voru brottfarir Íslendinga á tímabilinu janúar til júlí rúmlega 389 þúsund talsins eða 10.7% fleiri en á sama tímabili árið 2017.

*Nánari upplýsingar

Talning Ferðamálastofu og Isavia er hugsuð sem viðbótarupplýsingar við farþegatölur Isavia til að geta greint fjölda ferðamanna til landsins eftir þjóðernum. Um er að ræða handtalningu áður en komið er inn á brottfararsvæði og tölurnar ber að skoða með þeim fyrirvörum sem aðferðafræðin felur í sér. Talningarnar ná yfir alla sem fara í gegnum hefðbundna öryggisleit.
Ítreka ber að flestir skiptifarþegar eru ekki inn í þessum tölum. Niðurstöður úr könnun sem Isavia lét framkvæma meðal brottfararfarþega á fyrsta ársfjórðungi ársins benda til að um 93% brottfararfarþega séu að heimsækja Ísland í persónulegum eða viðskiptalegum tilgangi og að 3,5% séu erlendir ríkisborgarar búsettir hérlendis til skemmri eða lengri tíma. Þeir sem millilenda án þess að fara út af flugvellinum séu 1,9% og þeir sem millilenda og nýta tækifærið til að fara út af flugvellinum og heimsækja einhverja staði séu 2,0%. Sjá nánar
Skiptingu milli þjóðerna má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.