Fara í efni

Ný könnun um fjölda sjálftengifarþega sýnir minni frávik í ferðamannatalningum

Ný könnun um fjölda sjálftengifarþega sýnir minni frávik í ferðamannatalningum

Á morgunfundi Isavia í dag voru birtar niðurstöður nýrrar  úrtakskönnun meðal farþega Keflavíkurflugvallar. Tilgangurinn er að meta vægi sjálftengifarþega og erlends vinnuafls í brottfarartalningum og er um er að ræða endurtekningu á samskonar könnunum frá því í nóvember og fyrrasumar. Niðurstöður eru áþekkar og í nóvember en þó sýnir nýja könnunin enn minni áhrif þessara hópa á talninguna en áður.

1,9% millilenda eingöngu

Niðurstöður könnunar má sjá á myndinni hér að ofan en spurt var: Hvað af eftirfarandi lýsir best dvöl þinni á Íslandi/Keflavíkurflugvelli? (Which of the following best describes your stay in Iceland/Keflavik Airport?). Tölurnar sýna að 1,9% brottfararfarþega notaði flugvöllinn eingöngu til millilendingar, þ.e. farþegar sem tengja sjálfir á milli tveggja flugfélaga (e. self-connect). Að auki millilentu 2% farþega en nýttu tækifærið til að fara út af flugvellinum og skoða sig um, án þess að gista. Þetta hlutfall er í báðum tilvikum lægra en kom fram í sumarkönnuninni. Könnunin nú sýndi að  3,4% brottfararfarþega voru erlendir ríkisborgarar sem búa á Íslandi til skemmri eða lengri tíma en hlutfallið var 4,7% í nóvember. 

Ef niðurstöðurnar eru yfirfærðar á brottfarartalningarnar má gera ráð fyrir að um 582 þús. af 628 þús. á fyrsta ársfjórðungi hafi verið eiginlegir ferðamenn, 12 þús. skiptifarþegar, 12.500 skiptifarþegar með stutta viðdvöl og 21 þús. einstaklingar búsettir hérlendis til skemmri/lengri tíma. 

Gert ráð fyrir minni fjölgun

Isavia kynnti einnig uppfærða farþegaspá sína fyrir yfirstandandi ár. Af fyrirliggjandi gögnum, svo sem fyrirhugðuðu sætaframboði flugfélaganna o.fl., gerir Isavia nú ráð fyrir fyrir 2,6% aukningu erlendra farþega til landsins milli ára 2017-2018 sem er mun lægri tala en en fyrri spá gaf til kynna (24,2%).

Fyrirvarar hafa legið fyrir

Brottfarartalningar á Keflavíkurflugvelli hafa frá upphafi verið birtar með ákveðnum fyrirvörum og taka niðurstöður mið af þeirri aðferðafræði sem viðhöfð er. Þær hafa verið notaðar til þess að greina þróun í farþegafjölda og þjóðernissamsetningu erlendra gesta til Íslands og í kjölfar umræðu sem skapaðist á síðasta ári um mögulega fjölgun sjálftengifarþega þótti rétt að gera kannanir sem þessar til þess að tryggja sem best gagnsæi talninganna og áreiðanleika þeirra niðurstaðna sem úr þeim fást. 

Þeir farþegar sem þegar eru skráðir sem skiptifarþegar þurfa ekki að fara út fyrir flugverndarsvæði og eru því að öllum líkindum utan við þessar tölur. Hlutfall þeirra nemur rúmlega þriðjungi af heildarfarþegafjölda Keflavíkurflugvallar og hefur farið vaxandi.

Nota fleiri mælikvarða saman

Isavia og Ferðamálastofa vonast til að þessi könnun gagnist þeim sem vinna með talningarnar til að greina markaðsþróun og ferðahegðun erlendra gesta á Íslandi enn frekar. Lögð er áhersla á að fyllsta myndin af stöðu íslenskrar ferðaþjónustu fæst með því að samkeyra öll tiltæk gagnasöfn. Með því að horfa samhliða á tölur um farþegafjölda, fjölda gistinátta, greiðslukortaveltu o.s.frv. hefur til dæmis mátt greina að undanförnu sterkar vísbendingar um að þótt ferðamönnum fjölgi, sé dvalartími að styttast og eyðsla að minnka.