Fara í efni

Rúmlega helmings fækkun í mars

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega 80 þúsund í nýliðnum mars samkvæmt talningu Ferðamálastofu, eða innan við helmingur brottfara marsmánuðar í fyrra, þegar þær voru 170 þúsund.

Vart þarf að fjölyrða um ástæður þessarar fækkunar. Horfa þarf allt til ársins 2015 til að sjá álíka fjölda brottfara en farþegum til landsins hefur fjölgað mikið í marsmánuði síðustu ár, og voru um 173 þúsund þegar mest var, eða í mars 2018. 

Frá áramótum hafa tæplega 334 þúsund erlendra farþega farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 27,2% fækkun miðað við sama tímabil í fyrra.

 


Skipting innan mánaðarins

Sé dreifing brottfara innan mars mánaðar skoðuð kemur í ljós að 80% brottfara erlendra farþega voru í fyrri hluta mánaðarins (1.-15.mars) eða um 64 þúsund talsins og um 20% seinni hluta (16.-31.mars). Fækkunin fyrri hluta mánaðarins var 22% miðað við mars í fyrra, sem er á líku róli og þróunin fyrstu tvo mánuði ársins. Þegar litið er til seinni hluta mars má sjá nærri fjórfalt færri brottfarir en á sama tímabili 2019.  

 

Fjölmennustu þjóðernin

Af einstaka þjóðernum voru flestar brottfarir í mars tilkomnar vegna Breta en brottfarir þeirra voru tæplega 23 þúsund. Þeir voru þannig tæpur þriðjungur ferðamanna en fækkaði um 34% á milli ára.

Bandaríkjamenn voru í öðru sæti en brottfarir þeirra voru um 14.600 talsins, 18,3% af heild. Brottfarir þeirra voru rúmlega 24 þúsund færri en í mars 2019 sem er 61,5% fækkun milli ára.

Í þriðja sæti voru brottfarir íbúa Eystrasaltslandanna, um 5.600 og fjölgaði mikið á milli ára en leiða má líkum að því að þar sé að stærstum hluta um að ræða fólk sem hér hefur verið við störf.

Þar á eftir fylgdu síðan brottfarir Pólverja (6,2% af heild), Þjóðverja (5,8% af heild), Frakka (5,1% af heild) og Kínverja (3,1% af heild), Kanadabúa (2,5% af heild), Dana (2,3% af heild) og Spánverja (2,3%) af heild. Samtals voru brottfarir þessara 10 fjölmennustu þjóðerna 81,4% af heild.

 

Ferðir Íslendinga utan

Um 15.700 Íslendingar fóru utan í mars í ár eða 63,6% færri en í mars 2019. Megnið af brottförum Íslendinga, eða 97%, var á tímabilinu 1.-15. mars um 3% á tímabilinu 16.-31. mars. Frá áramótum hafa 88.300 Íslendingar ferðast utan eða 29,1% færri en árið áður.

Nánari upplýsingar*

Fjöldi ferðamanna eftir þjóðerni er metinn út frá kerfisbundnu úrtaki sem tekið er meðal farþega áður en komið er inn á brottfararsvæði Keflavíkurflugvallar. Niðurstöður eru hugsaðar sem viðbótarupplýsingar við farþegatölur Isavia til að geta greint fjölda ferðamanna til landsins eftir þjóðernum og ber að skoða þær með þeim fyrirvörum sem aðferðafræðin felur í sér.
Gagnasöfnun fer fram alla mánuði ársins þar sem farþegar á leið úr landi eru taldir eftir helstu þjóðernum. Gera má gera ráð fyrir að skekkja í hlutfalli hvers þjóðernis sé að meðaltali innan við +/- 0,3% í mánuði. 
Ítreka ber að flestir skiptifarþegar eru ekki inni í þessum tölum. Niðurstöður úr könnnum sem Isavia hefur látið framkvæma meðal brottfararfarþega benda til að um 93% brottfararfarþega yfir vetrartímann séu að heimsækja Ísland í persónulegum eða viðskiptalegum tilgangi og gisti eina eða fleiri nætur. Þeir sem koma inn í landið án þess að gista hafa mælst um 2% sjálftengifarþegar hafa mælst á bilinu 2-4% og erlendir ríkisborgarar búsettir hérlendis til skemmri eða lengri tíma á bilinu 1,4-3,4%. Sjá nánar
Ferðamálastofa áréttar að fjöldi brottfara erlendra farþega gefur vísbendingu um þróun í komum ferðamanna til landsins. Til að álykta um breytingar á umsvifum í ferðaþjónustu þarf að líta til fleiri mælikvarða s.s. fjölda gistinótta og útgjalda ferðamanna. 
Nánari skiptingu á milli þjóðerna má sjá í töflunni að neðan og frekari upplýsingar eru undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.