Fara í efni

Leyfisumsóknir vegna nýrra laga

Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson

Nú um áramótin tóku gildi tvenn ný lög á sviði ferðamála

Þegar er hægt er að sækja um leyfi sem ferðasali dagsferða í gegnum Þjónustugátt Ferðamálastofu

Þeir sem eru í dag með leyfi sem ferðaskipuleggjandi eða skráð bókunarþjónusta þurfa að endurnýja leyfi sín fyrir 1. mars miðað við nýjar forsendur og hefur einnig verið opnað fyrir þá endurskilgreiningu í Þjónustugáttinni.

Eftir á að staðfesta nýja reglugerð um tryggingar vegna pakkaferða og verður ekki hægt að sækja um leyfi sem ferðaskrifstofa fyrr en hún er tilbúin. 


Leyfi ferðasala dagsferða

Búið er að opna fyrir umsóknir um leyfi vegna ferðasala dagsferða, samkvæmt nýju lögunum. Leyfi ferðasala dagsferða tekur til aðila sem selja ferðir sem falla ekki undir lögin um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Leyfi ferðasala dagsferða er þannig einungis fyrir þá sem bjóða aðeins stakar ferðir sem eru styttri en 24 klst. og fela ekki í sér gistingu. Hverskyns samsetning og samtenging við aðra þjónustu getur kallað á stærra leyfi. Þannig að t.d. um leið og gisting bætist við þarf ferðaskrifstofuleyfi, eins og nánar er lýst undir liðnum Ferðaskrifstofur hér á vefnum.

Leyfi sem ferðaskrifstofa

Eftir á að staðfesta nýja reglugerð um tryggingar vegna pakkaferða. Tryggingin verður virk komi til gjaldþrots eða greiðslustöðvunar og á að tryggja endurgreiðslu á því sem sem ferðamaður hefur greitt fyrir ferð ásamt kostnaði vegna heimflutnings, ef við á. Eyðublað sem notað er til að reikna út fjárhæð tryggingarinnar er meðal þeirra fylgiganga sem senda þarf inn með umsókn og í reglugerðinni er lögð er til ný reikniregla við þann útreikning. Um leið og reglugerðin er staðfest verður hægt að útbúa eyðublaðið og opna fyrir umsóknir. Hægt er að kynna sér drög að reglugerðinni á samráðgátt stjórnvalda.

Vert er að ítreka að núverandi ferðaskrifstofuleyfi halda gildi sínu. Þeir sem í dag eru með ferðaskrifstofuleyfi þurfa því ekki að sækja um upp á nýtt.

Endurskilgreining ferðaskipuleggjenda og bókunarþjónusta

Leyfin og skráningarnar þeirra sem nú eru með ferðaskipuleggjendaleyfi eða skráningu sem bókunarþjónusta halda gildi sínu til 1. mars 2019. Þannig að fyrir þann tíma þurfa þessir aðilar að skoða starfsemi sína og og sækja um nýtt leyfi í samræmi við hana, annað hvort sem ferðaskrifstofa eða ferðasali dagsferða. Sem fyrr segir er þó ekki en opið fyrir umsóknir um ferðaskrifstofuleyfi. Ekki verður tekið leyfisgjald vegna endurútgáfu leyfa þeirra sem sækja um fyrir 1. mars 2019 en greiða þarf fyrir mat á fjárhæð tryggingar, falli viðkomandi undir ferðaskrifstofuleyfi. Þessar umsóknir fara í gegnum Þjónustugátt Ferðamálastofu.

Öryggisáætlanir eru skylda

Þá er vert að ítreka að samkvæmt nýju lögunum þurfa allir sem framkvæma skipulagðar ferðir á íslensku yfirráðasvæði að hafa öryggisáætlanir fyrir ferðir sínar. Söluaðilar sem hafa milligöngu um ferðir verða að ganga úr skugga um að sá sem framkvæmir ferð sé með öryggisáætlun.