Fara í efni

2,2 milljónir erlendra farþega 2017

Brottfarir erlendra farþega* frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru 2.195.271 árið 2017 eða 427.545 fleiri en árið 2016 samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Aukning milli ára nemur 24,2%.

Nærri helming fjölgunar má rekja til Norður-Ameríkana

Af einstaka markaðssvæðum voru brottfarir Norður-Ameríkana flestar eða 680 þúsund talsins og fjölgaði þeim mest milli ára eða um 181 þúsund. Aukningin nemur 36,3%. Brottförum Mið- og Suður-Evrópubúa fjölgaði um 21,8%, fóru úr 356 þúsund í 434 þúsund. Brottfarir Breta voru um 322 þúsund og Norðurlandabúa um 181 þúsund árið 2017 og fjölgaði um sex þúsund milli ára hjá hvoru markaðssvæði fyrir sig. Af einstaka þjóðernum voru langflestar brottfarir tilkomnar vegna Bandaríkjamanna og Breta eða um 41% af heildarbrottförum. Þar á eftir fylgdu brottfarir Þjóðverja (7,1%), Kanadamanna (4,7%) og Frakka (4,6%).

Vetrarferðir aukast

Aukning var í brottförum erlendra farþega milli ára 2016 til 2017 á öllum árstíðum. Aukningin var hlutfallslega mest að vori eða 36,7% og yfir vetrarmánuðina eða 32,9% en að sumri til var aukningin 17,1% og að hausti 15,5%. Þegar horft var hins vegar til þess hver hlutdeild árstíða var í aukningu brottfara frá 2016 til 2017 (427 þús.) má sjá að 42,4% má rekja til aukningar að vetri, 26,2% að sumri, 18,8% að vori og 12,1% að hausti. Hlutdeild vetrarferða fór vaxandi hjá öllum markaðssvæðum árið 2017 nema Norðurlöndunum og fylgir þeirri þróun sem hefur átt sér stað á síðustu árum í átt að jöfnun árstíðasveiflu.

Einungis einn mælikvarði á umsvif

Ferðamálastofa áréttar að fjöldi brottfara erlendra farþega gefur vísbendingu um þróun í komum ferðamanna til landsins. Til að álykta um breytingar á umsvifum í ferðaþjónustu þarf að líta til fleiri mælikvarða s.s. fjölda gistinótta og útgjalda ferðamanna.


 Nánara niðurbrot og samanburður

Brottfarir farþega 2016-17

 

Brottfarir á tímabilinu 2010-2017

Brottfarir erlendra farþega frá landinu mældust um 2,2 milljónir á nýliðnu ári. Um er að ræða nærri fimmföldun brottfara frá árinu 2010 en þá voru þær um 459 þúsund talsins. Á tímabilinu 2010 til 2017 hefur aukning milli ára verið að jafnaði 25,2%, mest frá 2015 til 2016 eða 40,1% og minnst frá 2010 til 2011 eða 17,8%.

 

Fjölmennustu þjóðernin

12 fjölmennustu þjóðerniAf einstaka þjóðernum voru flestar brottfarir árið 2017 tilkomnar vegna Bandaríkjamanna eða um 576 þúsund talsins. Um er að ræða 38,8% fleiri brottfarir Bandaríkjamanna en árið 2016. Brottfarir Breta komu þar á eftir en þær mældust um 322.500 árið 2017 eða álíka margar og árið 2016. Samtals voru brottfarir Bandaríkjamanna og Breta um 41% af heildarbrottförum. 

Brottfarir Þjóðverja á árinu 2017 komu í þriðja sæti, tæplega 156 þúsund talsins (7,1% af heild) og fjölgaði þeim um 17,3% milli ára. Brottfarir Kanadamanna voru síðan í fjórða sæti eða 103 þúsund talsins (4,7% af heild) en þeim fjölgaði um 23,9% milli ára og að lokum brottfarir Frakka í fimmta sæti um 100 þúsund talsins (4,6% af heild), 17,8% fleiri en árið áður. 

Þar á eftir fylgdu síðan brottfarir Kínverja (3,9% af heild), Pólverja (3,0% af heild), Spánverja (2,6% af heild), Svía (2,6% af heild), Dana (2,4% af heild), Hollendinga (2,2% af heild) og Norðmanna (2,2% af heild). 

Brottfarir eftir árstíðumBrottfarir eftir árstíðumDreifing eftir árstíðum

Aukning var í brottförum erlendra farþega milli ára 2016 til 2017 á öllum árstíðum eins og sjá má af töflunni hér til hliðar. Þannig fjölgaði brottförum um 181 þúsund eða 32,9% yfir vetrarmánuðina, 80 þúsund eða 36,7% að vori til, tæplega 114 þúsund eða 17,1% að sumarlagi og 52 þúsund eða 15,5% að hausti.

Hlutdeild vetrarins í aukningu brottfara milli ára 2016 til 2017 var hins vegar langmest eða 42,4%. Þar á eftir kom sumarið með 26,6% hlutdeild, vorið með 18,8% hlutdeild og haustið með 12,1% hlutdeild. 

Sé litið til dreifingar erlendra farþega eftir árstíðum á tímabilinu 2010 til 2017 má sjá að hlutdeild sumarsins hefur farið minnkandi, líkt og myndritið hér til hliðar sýnir glögglega. Þannig má sjá að nærri helmingur brottfara var að sumri til árið 2010 en árið 2017 var hlutdeild sumarsins komin í 35,4%. Hins vegar hefur hlutfall vetrarmánuðanna vaxið mest. Þannig var hlutfall brottfara ársins yfir vetrarmánuðina 23% árið 2010 en var komið í 33,3% árið 2017. Hlutdeild að vori og hausti  hefur hins vegar verið á líku róli á þessu tímabili, vorið með á bilinu 11,2-13,6% og haustið með 16-18,9%. 

Skipting eftir markaðssvæðum 

Brottfarir erlendra farþega dreifast ólíkt yfir árið eftir því hvaða markaðssvæði á í hlut. Bretar skera sig úr en um 60% brottfara þeirra árið 2017 voru að vetri til og virðist sem hlutdeild vetrarferða til landsins meðal Breta fari vaxandi en um 41,3% brottfara Breta árið 2010 og 51,5% árið 2013 voru að vetrarlagi. Um fjórðungur brottfara Mið- og Suður-Evrópubúa voru að vetri til árið 2017 og hafa vetrarferðir Mið- og Suður-Evrópubúa aukist á kostnað sumarferða. Þannig var hlutfall brottfara Mið-og Suður-Evrópubúa að sumri til árið 2017, 47,0%, en 65,3% árið 2010 og 60,9% árið 2013. Um tvær af hverjum fimm brottförum Norður-Ameríkana voru að sumri til árið 2017, tæplega þriðjungur að vori og ríflega fimmtungur að vetri en þegar þróunin er skoðuð síðustu ár virðist sem hlutdeild vetrarferða meðal Norður-Ameríkana fari vaxandi líkt og meðal Breta og Mið- og Suður-Evrópubúa. Svipaða þróun má ennfremur merkja meðal þeirra sem falla undir ,,önnur markaðssvæði“. Eina markaðssvæðið þar sem hlutdeild brottfara eftir árstíðum virðist ekki hafa breyst mikið síðustu ár er Norðurlöndin en um fimmtungur brottfara Norðurlandabúa voru að vetri til árið 2017, tæplega 40% að sumri og tæplega 40% að vori og hausti.

Brottfarir eftir árstíðum

14 þjóðerni bættust við á árinu

Þjóðernum í brottfarartalningum var fjölgað úr 18 í 32 í júní 2017. Þjóðernin sem bættust við eru Austurríkismenn, Ástralir, Belgar, Hong Kong búar, Indverjar, Ísraelar, Írar, Singapúr-búar, S-Kóreumenn og Tævanar. Ástralir og Ný-Sjálendingar eru nú ennfremur taldir sérstaklega og þá undir sama hatti og hið sama má segja um Eista, Letta og Litháa. Með fjölgun þjóðerna fækkar þeim sem fara í flokkinn ,,annað". Þannig er hægt að fá betri mynd af brottförum Austur-Evrópubúa og Asíubúa en áður. Af þeim niðurstöðum sem liggja fyrir á árinu 2017 má t.a.m. sjá að fleiri brottfarir eru tilkomnar vegna farþega frá Suðaustur-Asíu og Japan á tímabilinu júní til desember 2017 en Norðurlöndunum sem lengst af voru stærsta markaðssvæði íslenskrar ferðaþjónustu.  

Nánari upplýsingar*

Um 99% erlendra ferðamanna til Íslands komu um Keflavíkurflugvöll og eru þá ótaldir þeir sem koma um aðra flugvelli, með Norrænu og skemmtiferðaskipum. Talning Ferðamálastofu og Isavia er hugsuð sem viðbótarupplýsingar við farþegatölur Isavia til að geta greint fjölda ferðamanna til landsins eftir þjóðernum. Um er að ræða handtalningu áður en komið er inn á brottfararsvæði og vert er að hafa í huga að með þessari aðferð ná talningarnar yfir alla sem fara í gegnum öryggisleit. Tölurnar ber því að skoða með þeim fyrirvörum sem aðferðafræðin felur í sér. Þó ber að ítreka að flestir skiptifarþegar eru ekki inn í þessum tölum. Með því að viðhafa sömu aðferðafræði í gegnum tíðina hafa fengist dýrmætar upplýsingar um þjóðernasamsetningu ferðamanna og fjölda þeirra, sem samanburðarhæfar eru milli ára. Þannig má greina þróunina með tiltölulega litlum kostnaði og án teljandi óþæginda fyrir starfsemi Keflavíkurflugvallar.
Niðurstöður úr könnun sem Isavia hefur látið framkvæma meðal brottfararfarþega tvívegis á árinu, annars vegar yfir hásumarið (júlí-ágúst) og hins vegar í nóvember gefa til kynna að 86,3% brottfararfarþega yfir hásumarið og 92,1% í nóvember voru að heimsækja Ísland í persónulegum eða viðskiptalegum tilgangi. Þeir sem voru erlendir ríkisborgarar búsettir hérlendis til skemmri eða lengri tíma reyndust 2,7% brottfara yfir hásumarið og 4,7% í nóvember. Þeir sem millilentu án þess að fara út af flugvellinum reyndust 4,8% yfir hásumarið og 1,7% í nóvember en þeir sem millilentu og nýttu tækifærið til að fara út af flugvellinum og heimsækja einhverja staði reyndust 6,2% yfir hásumarið og 1,6% í nóvember.
Ef gengið er út frá þeim könnunum sem Isavia hefur tvívegis framkvæmt á árinu 2017* má gera ráð fyrir að um 90% brottfara eða tæplega 2 milljónir talsins séu tilkomnar vegna heimsókna erlendra ferðamanna til Íslands í persónulegum eða viðskiptalegum tilgangi.

Sjá nánar

Skiptingu milli þjóðerna má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Nánari upplýsingar veita:
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri, Sími: 660-0063 skarphedinn@ferdamalastofa.is
Oddný Þóra Óladóttir rannsóknastjóri, oddny@ferdamalastofa.is

Brottfarir farþega 2016-17