Fara í efni

Hvernig má bæta upplifun erlendra ferðamanna á Íslandi? Greining á niðurstöðum landamærakönnunar

Nánari upplýsingar
Titill Hvernig má bæta upplifun erlendra ferðamanna á Íslandi? Greining á niðurstöðum landamærakönnunar
Lýsing

Þótt kannanir sýni að meirihluti erlendra ferðamanna sé ánægður með dvöl sína hérlendis og myndi mæla með Íslandi sem áfangastað, þá benda niðurstöður landamærakönnunar á ýmis atriði sem íslensk ferðaþjónusta getur bætt þannig að upplifun verði enn betri. 

Bæði er um að ræða þætti sem snúa að greininni sjálfri og aðkomu hins opinbera.

Sérstaklega má nefna hluti sem snúa að verði og gæðum, fjölbreyttara framboði af vörum og þjónustu, viðmóti heimamanna, aukinni upplýsingagjöf, náttúruvernd og umgengni.


Ný greining á opnum svörum

Í þessari skýrslu má kynna sér greiningu Margrétar Wendt á svörum erlendra ferðamanna við spurningunni um hvað megi bæta í íslenskri ferðaþjónustu. Sérstök áhersla var lögð á úrbætur með tilliti til fagmennsku, gæða og öryggis. Einnig er horft til þess hvað erlendum ferðamönnum þótti minnisstæðast úr Íslandsferðinni og hvernig náttúra, menning og afþreying stuðla að upplifun ferðamanna á Íslandi. Greiningin tekur til fjölmargra þátta og er hér að neðan aðeins tæpt á því helsta.

Verðlag og gæði haldast ekki í hendur

Sá þáttur sem hafði neikvæðustu áhrif á upplifun ferðamanna var verðlagið. Það var afgerandi neikvæður þáttur sem mótaði einnig afstöðu svarenda til einstakra þjónustuþátta, svo sem gistingar, matar og afþreyingar. Hátt verðlag skapaði ýmsar væntingar um gæði og fagmennsku sem oft á tíðum stóðust ekki. Margir svarendur töldu sig ekki hafa fengið þá þjónustu eða upplifun sem þeir hefðu átt að fá miðað við verðlagið og í þeim tilfellum skapaðist sú tilfinning að íslensk ferðaþjónusta væri að ræna og svindla á ferðamönnum.

Framboð á þjónustu sem hentar öllum

Margir óskuðu eftir auknu framboði á vörum og þjónustu. Á meðan ferðamenn með meðalháar tekjur gátu auðveldlega fundið þjónustu sem höfðar til þeirra áttu ferðamenn með lágar og háar tekjur í erfiðleikum að finna þjónustu sem er í samræmi við tekjur þeirra. Ef íslensk ferðaþjónusta vill höfða til ferðamanna úr ólíkum tekjuhópum þyrftu íslenskir ferðaþjónustuaðilar þannig að bjóða fjölbreyttri þjónustu sem höfðar bæði til tekjuhárra og tekjulágra ferðamanna.

Viðmót heimamanna

Annað atriði sem svarendur töldu nauðsynlegt að bæta er jákvætt viðmót heimamanna og þjálfun starfsmanna. Svarendur töldu að oft á tíðum væri skortur á fagmennsku í samskiptum starfsmanna við ferðamenn.

Aukin upplýsingagjöf

Upplifun ferðamanna væri einnig hægt að bæta með aukinni upplýsingagjöf. Svarendur töldu að oft skorti heiðarleika þegar ferðaþjónustuaðilar væru að auglýsa ákveðna upplifun. Nauðsynlegt er að skapa raunhæfar væntingar til þess að tryggja jákvæða upplifun. Í því samhengi lögðu svarendur til að auka aðgang að upplýsingum frá hinu opinbera. Hið opinbera ætti að veita vottanir til fyrirtækja sem væru heiðarleg og ætti að sama skapi að reka upplýsingamiðlun til ferðamanna sem veitir áreiðanlegar upplýsingar.

Náttúruvernd og umgengni

Svarendur gerðu náttúruvernd einnig hátt undir höfði. Hér var aftur óskað eftir því að hið opinbera myndi grípa sterkara inn. Til þess að vernda náttúrugæði Íslands yrði að stjórna fjölda ferðamanna, tryggja að umgengnisreglur yrðu settar og þeim fylgt eftir.

Öryggi á gönguleiðum

Svarendur töldu Ísland að mörgu leyti vera mjög öruggan áfangastað. Athugasemdir í þeim efnum tengdust fyrst og fremst vegum og gönguleiðum og bent var á að öryggi ferðamanna á veturna sé ógnað vegna hálku. Því var óskað eftir betri vetrarþjónustu eða aðgengi að broddum.

Mikilvægt að fylgjast vel með 

Í heildina má segja að þótt kannanir gefi skýra vísbendingu um almenna ánægju þá sýnir greining Margrétar fram á mikilvægi þess að fylgjast vel með viðhorfi erlendra ferðamanna með það fyrir augum að geta betur kortlagt styrkleika og veikleika greinarinnar. Því glöggt er gests augað.

Skýrslan í heild   -    Upptaka frá kynningu     -    Glærur frá kynningu

Skráarviðhengi
Ná í viðhengi
Höfundar
Nafn Margrét Wendt
Flokkun
Flokkur Ferðavenjur
Útgáfuár 2019
Útgefandi Ferðamálastofa
ISBN 978-9935-9478-8-8
Leitarorð landamærakönnun, ferðamálastofa, könnun, kannanir, viðhorf, verð, verðlag, upplifun, gæði, öryggi, viðmót