Fara í efni

Yfir 40 brautryðjendur að klasasamstarfi íslensku ferðaþjónustunnar

Klasasamstarf
Klasasamstarf

Þann 9. október var haldinn upphafsfundur í klasasamstarfi innan íslensku ferðaþjónustunnar í Norræna húsinu í Reykjavík. Yfir 40 aðilar undirrituðu þjónustusamninga til eins árs við fyrirtækið Gekon um framkvæmd og verkstjórn á kortlagningu atvinnugreinarinnar í anda klasaaðferðafræði dr. Michael Porter. Meðal þeirra sem gerðust stofnaðilar að samstarfinu eru mörg lykilfyrirtæki á sviði ferðaþjónstu, opinberir aðilar og fyrirtæki sem styðja við eða eiga samstarf við ferðaþjónustuna. Eitt helsta markmið samstarfsins er að auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun innan íslensku ferðaþjónustunnar.

Fundurinn í Norræna húsinu var fjölsóttur og bar vott um mikinn áhuga á að nota aðferðir klasastjórnunnar í þágu ferðaþjónustunnar. Fjögur erindi voru flutt. Hákon Gunnarsson framkvæmdastjóri Gekon fjallaði um klasastjórnun, dr. Eyþór Ívar Jónsson framkvæmdastjóri Klak, nýsköpunarmiðstöðvunar atvinnulífsins, fjallaði um klasasamstarf sem verkfæri til nýsköpunar í atvinnulífinu, Ingibjörg Guðjónsdóttir frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum og SAF gerði grein fyrir væntingum ferðaþjónustunnar til verkefnisins og Rósbjörg Jónsdóttir frá Gekon fór yfir verkáætlun og markmið verkefnisins.

Hákon Gunnarsson framkvæmdastjóri Gekon sagði frá reynslunni af kortlagningu jarðvarmaklasans, sem um 80 fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög og fleiri eiga nú aðild að. Hann rakti kosti þess að beita aðferðum klasastjórnunar í ferðaþjónustunni. Hákon sagði að frumkvæðið kæmi frá atvinnugreininni sjálfri og að hugmyndin hefði fengið gríðarlega góðar undirtektir, jafnt hjá aðilum í ferðaþjónustu sem fulltrúum þeirra fyrirtækja sem vinna með atvinnugreininni. Hákon sagði að Gekon myndi vinna að uppbyggingu ferðaþjónustuklasans í samvinnu við færustu sérfræðinga heims á þessu sviði. Dr. Emiliano Duch hefur sammælst um að vinna með Gekon að kortlagningu og samstarfsmótun íslenska ferðaþjónustuklasans, en hann er einn fremsti sérfræðingur á sviði klasastjórnunar í heimi. Duch efur víðtæka reynslu á kortlagningu ferðaþjónustuklasa og annarra atvinnugreina víðsvegar um heim. Með því hefur hann aðstoðað þjóðir heims og svæði til að þróa og efla samkeppnishæfni þeirra til lengri tíma.

Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks - Nýsköpunarmiðstöðvar atvinnu-lífsins, ræddi um klasa sem verkfæri til nýsköpunar. Eyþór fjallaði um hvernig rannsóknir á klösum, hvort sem verið er að tala um þær rannsóknarhefðir sem snúast um samkeppnishæfni, tengslanet eða þekkingarsköpun, hafa allar lagt áherslu á að skoða hvernig klasar geta haft áhrif til að auka nýsköpun. Þegar "fyrirtæki" og "stofnanir" fara að tala saman og svo vinna saman þá aukast líkur á að til verði hugmyndir sem leiða til nýsköpunar. Til þess að nýsköpun, sem ferli til þess að gera eitthvað nýtt eða á nýjan hátt, geti orðið ávinningur fyrir klasa þurfa aðilar klasans að hafa það sjónarmið að vilja vinna og skapa saman en ekki standa í vegi hver fyrir öðrum. Eyþór lauk erindi sínu með því að leggja til að tilgangur klasasamstarfsins ætti að vera að aðilar klasans gætu eftir 5 til 10 ár litið til baka og séð þann ávinning sem fólgin er í frumkvæði, samstarfi, nýsköpun og verðmætasköpun.

Ingibjörg Guðjónsdóttir, frá fyrirtækinu Íslenskir fjallaleiðsögumenn fagnaði þessu framtaki sem verið væri að ýta úr vör. Hún sagðist vera talsmaður samvinnu og samstarfs í þessari vaxandi atvinnugrein og með markvissum vinnubrögðum telur hún að bæta megi fagmennsku og fjárhagslega afkomu í greininni. Hún fagnaði því sérstaklega, og það kæmi henni á óvart, hversu margir og öflugir aðilar væru með allt frá upphafi og gæfi það miklar vonir um árangur í framhaldinu.

Rósbjörg Jónsdóttir frá Gekon fjallaði um meginmarkmið klasasamstarfsins, sem væri að efla samkeppnishæfni og verðmætasköpun íslenskrar ferðaþjónustu, og að byggja upp samspil ólíkra aðila sem hafa hagsmuni af eflingu atvinnugreinarinnar. Það yrði gert með því að skapa samstarfsvettvang og draga saman beina og óbeina hagsmunaaðila, sem og opinbera aðila, og byggja upp samræðu þeirra á milli. Rósbjörg sagði að vinnuferlið skiptist í þrjá fasa: Greiningu, mótun og innleiðingu. Nú væri farið af stað með tvo fyrstu fasana en gert er ráð fyrir að greiningin og samstarfsmótunin standi fram í september 2013. Framundan eru m.a. gagnaöflun, viðtöl og fundir með aðilum klasans og fulltrúum landshlutanna, auk þess sem vinnustofur verða haldnar í öllum landshlutum. Aðilar að klasanum fá markvissa upplýsingagjöf um framgang verkefnisins, jafnframt því sem söfnun félaga verður haldið áfram.

Langflestir lykilaðilar eru aðilar að samstarfsferlinu en þeir skiptast í 3 meginflokka. Í fyrsta lagi fyrirtæki úr öllum geirum ferðaþjónustunnar, í öðru lagi aðilar úr atvinnugreinum sem styðja ferðaþjónustuna. Í þriðja lagi opinberar stofnanir og samtök ferðaþjónustuaðila. (Sjá lista yfir stofnaðila) Gera má ráð fyrir að þessum aðilum muni fjölga talsvert á næstu vikum og mánuðum, enda öllum velkomið að taka þátt í samstarfinu.

Nánari upplýsingar veita Hákon Gunnarsson, hakon@gekon.is, og Rósbjörg Jónsdóttir, rosbjorg@gekon.is.