Fara í efni

Vinnustofa verkefnisstjóra áfangastaðaáætlana með Tom Buncle

Vinnustofa verkefnisstjóra áfangastaðaáætlana með Tom Buncle

 

Einn fremsti ráðgjafi heims á sviði uppbyggingar áfangastaða, Tom Buncle, aðstoðar nú íslenska ferðaþjónustu við gerð áfangastaðaáætlana. Tom var hér á landi mánudaginn 5. febrúar í tilefni af vinnustofu með verkefnisstjórum áfangastaðaáætlana. Vinna við áfangastaðaáætlanir á landsvísu gengur vel og verður áfangastaðaáætlunum frá öllum landshlutum skilað inn til Ferðamálastofu í vor.

Hundruðir manna taka þátt í vinnunni

Vinna við áfangastaðaáætlanir er eitt stærsta stefnumótunarverkefnið í ferðaþjónustu sem ráðist hefur verið í á landsvísu. Verkefnið er á vegum Ferðamálastofu, en er unnið í náinni samvinnu við Stjórnstöð ferðamála og markaðsstofur landshlutanna sem fara með verkefnisstjórn á sínum svæðum. Tom hefur komið að gerð áfangastaðaáætlana víðs vegar um heiminn, t.d. í Noregi, Skotlandi, Karabíahafi og Namibíu, en þetta er í fyrsta skipti í heiminum sem ráðist er í svona vinnu á landsvísu. 

Verkefnisstjórar á vegum markaðsstofanna vinna áætlanir fyrir sín svæði í nánu samstarfi við svæðisráð, vinnuhópa, íbúa og hagaðila. Við vinnuna styðjast þeir við verkfærakistu frá Tom, en hann hefur komið reglulega til landsins á meðan á vinnunni stendur til að halda vinnustofur með verkefnisstjórunum. Nú þegar hafa hundruðir manna tekið þátt í vinnunni hér á landi með þátttöku í stýrihópum, vinnuhópum og með því að mæta á opna íbúafundi.  

Vinnustofa með Tom 

Síðastliðinn mánudag var haldinn vinnustofa á Ferðamálastofu með Tom og verkefnisstjórum verkefnisins. Verkefnisstjórarnir skiptust á að greina frá framvindu verkefnsins á sínu svæði og veitti Tom þeim ráðgjöf varðandi helstu áskoranir sem hafa komið upp í ferlinu. Verkefnastjórar deildu líka reynslu sinni með hvor öðrum og góðum ráðum sín á milli. Verkefnisstjórarnir voru sammála um að þeir hefðu nóg fyrir stafni, en þeir voru engu að síður allir jákvæðir og bjartsýnir á að ná að klára vinnuna á áætluðum tíma.

Áfangastaðaáætlunum skilað inn í vor

Áfangastaðaáætlun er sameiginleg stefnuyfirlýsing sem hefur það að markmiði að stýra uppbyggingu og þróun svæðis yfir ákveðinn tíma, skilgreina hlutverk hagsmunaaðila, tiltaka beinar aðgerðir sem hver og einn hagsmunaaðili ber ábyrgð á og hvaða bjargir/auðlindir þeir hyggjast nýta við þá vinnu. Stefnt er að því að verkefnisstjórar skili áætlunum inn til Ferðamálastofu vorið 2018. Á vef Ferðamálastofu eru reglulega fluttar fréttir af vinnu við gerð áfangastaðaáætlana, en nánari upplýsingar verkefnið má nálgast hér.