Fara í efni

Viðhorf Íslendinga til ferðafólks og ferðaþjónustu - Greining könnunar meðal Íslendinga

ForsíðaÞótt ljóst sé að Ísland er enn ekki farið að nálgast þann stað að fólk fari að mótmæla gestakomum og landið fari að glata sérstöðu sinni, liggur engu að síður fyrir að skjótt geta veður skipast í lofti hvað viðhorf almennings varðar. Það sem helst ber að hafa áhyggjur af er hin mikla og öra fjölgun gesta sem nú á sér stað. Þetta er meðal niðurstaðna í nýrri rannsókn sem Rannsóknamiðstöð ferðamála vann fyrir Ferðamálastofu.

Á hvaða braut áfangastaðurinn Ísland?

Markmið rannsóknarinnar sneri að viðhorfum Íslendinga almennt til ferðaþjónustu og ferðafólks. Samhliða var spurt á hvaða braut áfangastaðurinn Ísland er þegar kemur að þróun greinarinnar og gestakoma hingað til lands. Byggt er á niðurstöðum könnunar um viðhorf Íslendinga til ferðafólks og ferðaþjónustu, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Ferðamálastofu á haustdögum 2014. Í rannsókninni nú voru niðurstöður könnunarinnar greindar frekar, settar í víðara samhengi og ályktanir dregnar af þeim til samræmis við ofangreind markmið. Um er að ræða lið í rannsóknarverkefni um samfélagsleg þolmörk sem Ferðamálastofa stendur að í samstarfi við Rannsóknamiðstöð ferðamála og Háskólann á Hólum.

Samantekt alþjóðlegra og íslenskra heimilda

Fræðilegir útgangspunktar skýrslunnar eru hugtökin þolmörk (e. carrying capacity) og lífsferill áfangastaða (e. tourist area life cycle, sk. TALC). Skýrslan byggir á ítarlegri samantekt alþjóðlegra og íslenskra heimilda um þessi hugtök og þá sérstaklega félagsleg þolmörk heimafólks gagnvart ferðamennsku.

Skýrslan er í þremur hlutum:

  • Fyrst eru kynntar erlendar og íslenskar rannsóknir á þolmörkum heimafólks, þar sem lykilhugtök eru skýrð.
  • Í næsta hluta er farið yfir skilgreinda flokka spurninga í könnun Félagsvísindastofnunar þar sem áherslan er á að túlka niðurstöður spurninga og greina frekar ef tilefni er til.
  • Þriðji og síðasti hluti er samantekt og niðurstöður þar sem rannsóknarspurningum er svarað í stuttu og hnitmiðuðu formi. Aftast eru svo nokkur lokaorð um niðurstöður greiningarinnar.

Jákvætt viðhorf

Meginniðurstöður eru að sú mynd sem hefur teiknast upp af viðhorfum Íslendinga til ferðafólks og ferðaþjónustu er jákvæð. Landið er á stigi vaxtar, ef horft er til þróunarbrautar áfangastaða, þar sem heimafólk tekur gestum fagnandi og til landsins koma helst þeir sem leita framandi og nýstárlegra áfangastaða. Því er, eins og segir í byrjun, ljóst að Ísland er ekki enn farið að nálgast þann stað að fólk fari að mótmæla gestakomum og landið fari að glata sérstöðu sinni.

Frekari rannsóknir

Í skýrslunni kemur einnig fram að sú könnun sem skýrslan byggir á er aðeins ein vísbending um stöðu mála. Annarskonar og eigindlegar greiningar sem þegar eru hafnar við Háskólann á Hólum þarf til að bæta dýpt og skilning við það sem hér er sett fram, s.s. með viðtölum við ákveðna hópa um ákveðin málefni og orðræðugreiningu fjölmiðlaumfjöllunar. Könnunin er þó góð grunnlína til að miða við og mikilvægt er að sambærileg eða eins könnun verði gerð með reglulegu millibili (t.d. þriggja ára fresti) til að meta þróun í viðhorfum Íslendinga gagnvart ferðafólki og ferðaþjónustu hér á landi.

Skýrslan í heild:
Viðhorf Íslendinga til ferðafólks og ferðaþjónustu - Greining könnunar meðal Íslendinga í október 2014

Nánari uppplýsingar
Nánari uppplýsingar veitir Edward H. Huijbens hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála, Sími: 460-8931 Netfang: edward@unak.is