Fara í efni

Viðhorf heimamanna til ferðafólks og ferðaþjónustu á tímum COVID-19 - skýrslur og kynning

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Kynning á rannsóknarverkefninu Viðhorf heimamanna til ferðafólks og ferðaþjónustu á tímum COVID-19 fór fram í beinu streymi um netið í dag á vegum Ferðamálastofu. Verkefnið er unnið af Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) fyrir Ferðamálastofu og er liður í reglubundinni gagnasöfnun hins opinbera á félagslegum áhrifum ferðaþjónustunnar og tengist framtíðarsýn stjórnvalda um að ferðaþjónusta hafi jákvæð áhrif á nærsamfélag.

Viðhorf til ferðaþjónustu mælt milli ára

Viðamiklar kannanir hafa verið gerðar á landsvísu á síðustu árum til að meta viðhorf landsmanna til ferðafólks og ferðaþjónustu og þess á milli rannsóknir á nokkrum völdum stöðum til að öðlast dýpri skilning á hver er upplifun íbúa í heimabyggð en verkefnin eru hluti af rannsóknaráætlun Ferðamálastofu. Að þessu sinni er athyglinni beint að því að greina hvaða áhrif hrun í umsvifum ferðaþjónustu vegna COVID-19 og breytt starfsumhverfi hennar hefur haft á viðhorf heimamanna til greinarinnar, þ.m.t. hvernig heimamenn upplifi breytingarinnar og hverju þeir finni mest fyrir. Byggt er á tilviksrannsókn sem gerð var á fjórum stöðum á landinu: 101 Reykjavík, Ísafirði, Skútustaðahreppi og Höfn í Hornafirði. 

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar

Í erindi Eyrúnar Jennýjar Bjarnadóttur sérfræðings hjá RMF sem hefur haft yfirumsjón með verkefninu kom meðal annars eftirfarandi fram:

  • Á öllum stöðum kom fram að tímabundin hvíld frá ferðamönnum hefði verið kærkomin en heimabyggðin hefði verið dauflegri og að neikvætt væri að erlendum ferðamönnum hefði fækkað. 
  • Á öllum rannsóknarstöðunum var talið að COVD-19 hefði undirstrikað mikilvægi ferðaþjónustu fyrir atvinnulífið á svæðunum og enginn vafi var á mikilvægi þess að ferðaþjónustan næði fyrri styrk að faraldri loknum.
  • Meirihluti íbúa á öllum stöðum var fylgjandi því að við endurreisn ferðaþjónustunnar yrði lögð meiri áhersla á sjálfbærni en áður. Í viðtölum við íbúa kom þó fram að umræða um sjálfbærni væri nokkuð flókin og óljóst þótti hvort markvisst væri unnið að eflingu sjálfbærni í ferðaþjónustu.
  • Á öllum stöðum kom fram að íbúar söknuðu ferðamanna og að þeir hlökkuðu til að fá erlenda ferðamenn aftur. Á flestum stöðum komu fram efasemdir um frekari markaðssetningu staðanna til að laða að fleiri ferðamenn. Einnig voru efasemdir um að íbúar væru reiðubúnir að fá fleiri ferðamenn heldur en fyrir faraldurinn. Því virðast íbúar á stöðunum fjórum vilja stíga aðeins á bremsuna varðandi frekari fjölgun erlendra ferðamanna og voru ekki samþykkir fjölgun í þeirri mynd og við þær aðstæður sem hún var á árunum fyrir faraldurinn.

 

Glærur Eyrúnar frá kynningunni má nálgast með því að smella hér sem og lokaskýrslur með niðurstöðum fyrir rannsóknarsvæðin fjögur.

Kynningu á verkefninu má nálgast í spilaranum hér að neðan