Fara í efni

Viðhorf ferðamanna á miðhálendi Íslands

Forsíða skýrslunnar.
Forsíða skýrslunnar.

Út er komin skýrsla þar sem birtar eru niðurstöður kannana á viðhorfi ferðamanna á miðhálendi Íslands. Um er að ræða hluta af verkefninu „Áætlun um ferðamennsku á miðhálendi Íslands“.

Afla gagna fyrir stefnumótun

Markmið heildarverkefnisins er að afla gagna sem notuð yrðu í stefnumótun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu og byggir á sjálfbærri nýtingu þess. Verkefnið var unnið undir stjórn Önnu Dóru Sæþórsdóttur og Rögnvalds Ólafssonar við Háskóla Íslands í samvinnu við og með stuðningi Ferðamálastofu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Vantaði gögn fyrir norðurhluta hálendisins

Í desember árið 2012 var gefin út lokaskýrsla fyrir verkefnið með titlinum: Áætlun um ferðamennsku á miðhálendi Íslands: Niðurstöður rannsókna. Þar kom fram að enn skorti þekkingu á viðhorfi ferðamanna á norðurhluta hálendisins og var lagt til að bæta úr því með könnunum í Öskju og Kverkfjöllum sumarið 2013. Það hefur nú verið gert með fjárstuðningi frá Ferðamálastofu og Vatnajökulsþjóðgarði.

Stuðst við gögn frá 13 stöðum

Í skýrslunni sem nú er kominn út er stuðst við gögn sem hefur verið safnað á 13 stöðum á hálendinu í tengslum við rannsóknir á viðhorfum ferðamanna. Kannanirnar eru frá mismunandi tímum, frá árinu 2007 til ársins 2013. Á öllum stöðum var dvalið viku í senn og spurningalistum dreift meðal ferðamanna og tekin viðtöl við ferðamenn. Þar sem rannsóknirnar voru unnar sem aðskilin verkefni er ekki fullkomið samræmi milli spurninganna sem notaðar voru og eru því ekki gögn frá öllum stöðunum í öllum greiningunum. Höfundar eru Anna Dóra Sæþórsdóttir og Gyða Þórhallsdóttir.

Skoða skýrslu:
Viðhorf ferðamanna á miðhálendi Íslands