Fara í efni

Verðlaun fyrir lokaverkefni í ferðamálafræðum

Lokaverkefnisverðlaun
Lokaverkefnisverðlaun

Ferðamálasetur Íslands veitir nú í fyrsta sinn 100.000 króna verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra afhenti verðlaunin á Ferðamálaráðstefnunni í dag.

Dómnefnd sem skipuð er stjórn FMSÍ mat fimm verkefni  skólaársins 2004-2005 sem góð og mjög athyglisverð:

  1. Comparing Environmental Performance, Environmental benchmarking for SMEs in the Nordic tourism industry.  MS-ritgerð Anne Mariu Sparf frá Jarð- og landfræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands.
  2. Fjölmenningarleg hæfni sem lykill árangursríkra samskipta. Athugun á stöðu fjölmenningarlegra mála á Íslandi. BS-ritgerð Gerðar Sveinsdóttur frá Jarð- og landfræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands
  3. Markaðssetning Íslands á Bretlandi. Samanburður á framkvæmd markaðssetningarinnar og ferlum fræðimanna. BS-ritgerð Hjördísar Maríu Ólafsdóttur frá Jarð- og landfræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands
  4. Hestatengd ferðaþjónusta á Íslandi.  BS-ritgerð Ingibjargar Sigurðardóttur frá Ferðamálabraut viðskiptadeildar Háskólans á Akureyri
  5. Ímyndir og ímyndarsköpun. Fósturlandsins Freyja í markaðssetningu landsins. BS-ritgerð Sunnu Þórðardóttur frá Jarð- og landfræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands

Niðurstaða dómnefndar var að verðlaunin í ár hljóti Anne Maria Sparf fyrir MS-ritgerð sína Comparing Environmental Performance, Environmental benchmarking for SMEs in the Nordic tourism industry

Í umsögn dómnefndar segir:

Í verkefni sínu fjallaði Anne Maria Sparf um möguleika lítilla og meðalstórra ferðaþjónustufyrirtækja til að bæta frammistöðu sína í umhverfismálum með hjálp umhverfisviðmiðunar.
Hún kannaði þarfir fyrirtækja á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum fyrir umhverfisstjórnun og viðhorf þeirra til umhverfismála. Niðurstöður könnunarinnar notaði hún til að móta einfalda og skýra aðferð til að finna út hversu vel hin ýmsu umhverfisstjórntæki hentuðu smærri ferðaþjónustufyrirtækjum.
Greiningin leggur kerfisbundið mat á hversu skilvirk stjórntækin eru í umhverfismálum, en einnig hversu auðvelt er fyrir fyrirtæki að innleiða þau og hversu mikilla áhrifa má vænta á samkeppnisstöðu.
Að því loknu bar Anne Maria saman 10 slík stjórntæki með aðferð sinni, bæði heildstæð umhverfisstjórnunarkerfi og sértækari umhverfismerki eða hrein umhverfisviðmiðunarkerfi ætluð tilteknum tegundum fyrirtækja, til dæmis gistihúsum og hótelum.
Niðurstöðurnar geta nýst einstökum ferðaþjónustufyrirtækjum og samtökum ferðaþjónustunnar, jafnt hér á landi og í nágrannalöndum, við að byggja upp ferðamennsku á forsendum sjálfbærrar þróunar.
Verkefni Anne Mariu er unnið af metnaði, fagmennsku og næmni og er hún verðugur handhafi verðlauna Ferðamálaseturs Íslands árið 2005.
 
Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri starfrækja sameiginlega Ferðamálasetur Íslands, sem er miðstöð rannsókna, fræðslu og samstarfs í greinum sem tengjast ferðamálum.

Mynd:
Verðlaunahafinn Anne Maria Sparf ásamt Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra og Helga Gestssyni, forstöðumanni Ferðamálaseturs Íslands.