Fara í efni

Verðlaun fyrir lokaverkefni í ferðamálafræði

logoferdamalaseturs
logoferdamalaseturs

Ferðamálasetur Íslands veitir nú í þriðja sinn verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Verðlaunin verða afhent á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) næstkomandi fimmtudag.

Verðlaunahafinn
Niðurstaða dómnefndar, sem skipuð er stjórn og forstöðumanni FMSÍ , er að verðlaunin í ár hljóti Hildur Kristjánsdóttir fyrir B.Sc. ritgerð sína Samvinna fyrirtækja í samkeppni á íslenskum ráðstefnumarkaði ? Viðhorf fagaðila til sameiginlegs gagnagrunns. Einnig mat dómnefnd fimm verkefni skólaársins 2007 sem þóttu afar góð og/eða mjög athyglisverð

Í umsögn dómnefndar um lokaverkefni Hildar segir:

Í verkefni sínu fjallaði Hildur Kristjánsdóttir um klasa og hugmyndir um samvinnu í samkeppni, þá sérstaklega með tilliti til starfandi fyrirtækja á íslenskum ráðstefnumarkaði. Þannig leitaðist hún við að skilja sjónarmið starfandi einstaklinga á tilteknu markaði íslenskrar ferðaþjónustu til hugmynda sem hafa verið ofarlega í opinberri umræðu.

Með viðtölum komst Hildur að því hvernig forsvarmenn fyrirtækja á íslenskum ráðstefnumakaði sjá fyrir sér gagnagrunn sem nýst gæti við markaðssetningu Íslands sem ráðstefnulands af hálfu Ráðstefnuskrifstofu Íslands, sem rekin er sem sjálfstæður hluti Ferðamálastofu. Í ljós kom af forsvarmenn eru jákvæðir en hafa þó ákveðnar hugmyndir um hvernig af gagnasöfnun skuli staðið.  

Helstu niðurstöður Hildar eru því að upplýsingar í gagnagrunni mega ekki vera of ítarlegar, skil á þeim mega ekki vera of tíð, þær þurfa að vera órekjanlegar og allir verða að taka þátt einnig gististaðir og þeir sem ráðstefnur hýsa. Af þessu dregur hún þá ályktun að tvímælalaus vilji sé til samstarfs sem muni þá gagnast við markaðssetningu Íslands sem ráðstefnulands en einnig til að meta umfang ráðstefnuferðamennsku á Íslandi. Leggur hún til að þessi gögn verði hýst hjá Hagstofu Íslands og þangað væri upplýsingum skilað, líkt og gert er nú með gistinætur. Þannig yrði hlutverk Ráðstefnuskrifstofu Íslands að árangursmæla og gera markaðsstarf sýnilegra.  

Dómnefndin telur að þetta verkefni geti Ráðstefnuskrifstofu Íslands og fyrirtækjum á íslenskum ráðstefnumarkaði sem stefna að því að vera alþjóðlega samkeppnishæf. Þannig leggur verkefnið til hvernig þau geta bætt eigin þjónustu með samvinnu sem studd er af hinu opinbera í samræmi við það sem er efst á baugi í málefnum ferðaþjónustunnar um landið í tengslum við uppbyggingu Vaxtarsamninga. 

Verkefni Hildar er unnið samviskusamlega af metnaði og fagmennsku og er hún verðugur handhafi verðlauna Ferðamálaseturs Íslands árið 2007. Ritgerðina er hægt að fá hjá Stúdentamiðlun v/ Hringbraut (www.am.is)

Önnur verkefni
Sem fyrr segir mat dómnefnd einnig fimm verkefni skólaársins 2007 sem þóttu afar góð og/eða mjög athyglisverð. Þau eru:

  • Ímynd Egilsstaða sem ferðamannastaðar. M.Sc. ritgerð Sturlu Más Guðmundssonar frá Viðskipta og Hagfræðideild Háskóla Íslands.

  • Römm er sú taug ? getur átthagafræði (og sjálfsefling) stuðlað að sterkri byggð og uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni. BA ritgerð Margrétar Björnsdóttur frá Hólaskóla ? Háskólanum á Hólum.

  • Samvinna fyrirtækja í samkeppni á íslenskum ráðstefnumarkaði ? Viðhorf fagaðila til sameiginlegs gagnagrunns. B.Sc. ritgerð Hildar Kristjánsdóttur frá jarð og landfræðiskor Háskóla Íslands.

  • Framleiðni í íslenskri ferðaþjónustu ? stjórnun afþreyingarfyrirtækja. M.Sc. ritgerð Ingibjargar Sigurðardóttur frá Háskólanum á Bifröst.

  • Myrk ferðamennska ? eins dauði er annars brauð. BA ritgerð Öldu Davíðsdóttur frá Hólaskóla ? Háskólanum á Hólum.