Fara í efni

Verðlaun fyrir lokaverkefni í ferðamálafræði

Tjorn
Tjorn

Rannsóknamiðstöð ferðamála veitti í fjórða sinn í dag verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi.

Niðurstaða dómnefndar, sem skipuð er stjórn og forstöðumanni RMF, var að verðlaunin í ár hljóti Gunnar Magnússon fyrir MS ritgerð sína Ímynd Íslands ? Ímynd raunverulegra sumargesta af Íslandi sem ferðamannastað. Ritgerðina skrifaði hann á ensku og heitir hún þá: The image of Iceland ? Actual summer visitor image of Iceland as a travel destination.

Í umsögn dómnefndar segir:
Í verkefni sínu fjallaði Gunnar um ímynd landsins og vörumerki í hugum erlendra gesta sem voru þegar komnir til landsins. Hann lagði upp með að skoða hvort hægt væri að stilla saman markaðssetningu Íslands, Færeyja og Grænlands og gerði þannig samanburð á ímynd þessara landa í hugum gesta hér á landi. Hann notaðist við viðhorfskort sem gert var eftir afstöðu svarenda við fullyrðingum sem settar voru fram í spurningakönnun sem höfundur lagði fyrir sumarið 2008.

Með sömu spurningakönnun komst Gunnar að því hver ímynd Íslands væri í hugum erlendra gesta. Jafnframt heimfærði hann fullyrðingarnar sem svarendur tóku afstöðu til uppá þá ímynd sem nefnd Forsætisráðherra lýsti í skýrslu sinni sem kom út í febrúar 2008 og tók á ímynd Íslendinga á sjálfum sér.

Öryggi, gestrisni og tækifærum til ævintýra meðal vingjarnlegs heimafólks í einstakri náttúru
Komst Gunnar helst að því að ímynd landsins í hugum gesta einkenndist af öryggi, gestrisni og tækifærum til ævintýra meðal vingjarnlegs heimafólks í einstakri náttúru. Einnig komst Gunnar að því að ekki væri vænlegt til árangurs að stilla saman markaðssetningu Færeyja, Grænlands og Íslands, þar sem löndin hefðu afar ólíka ímynd í huga gesta sem hingað eru komnir. Að auki rökstuddi Gunnar með sannfærandi hætti að Noregur væri okkar helsta samkeppnisland er kæmi að hylli ferðamanna sem hingað eru komnir.

Dómnefndin telur að þetta verkefni sé verðugt og vandað framhald þeirrar vinnu sem fór af stað með heimsókn Simon Anholt á vegum Viðskiptaráðs Íslands nýverið og nefn á vegum forsætisráðuneytis. Gunnar tekur af festu og fagmennsku á bæði heimildum um ímyndir og vörumerki áfangstaða og heimfærir uppá vandaða könnun með stóru úrtaki. Þannig leggur verkefnið til hvernig markaðssetning Íslands getur byggt á styrkleikum sem þegar eru í hugum þeirra sem landið sækja heim og jafnframt rökstyður af hverjum má læra og stilla sér upp gagnvart í markaðssetningu landsins.

Verkefni Gunnars er sem áður sagði unnið samviskusamlega af metnaði og fagmennsku og er hann verðugur handhafi verðlauna Rannsóknamiðstöðvar ferðamála árið 2008.
Ritgerðina er hægt að skoða á Landsbókasafni eða kaupa gegnum Stúdentamiðlun v/ Hringbraut (www.studentamidlun.is). Verðlaunin voru afhent á aðalfundi SAF á Grand hótel, Reykjavík í dag.

Önnur verkefni
Sex önnur verkefni  skólaársins 2008 þóttu afar góð og/eða mjög athyglisverð en þau eru:

Menningartengd ferðaþjónusta ? menningarstofnanir Kópavogbæjar. B.Sc. ritgerð Agnesar Sifjar Andrésdóttur frá Viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri.

The image of Iceland ? Actual summer visitor image of Iceland as a travel destination. MS ritgerð Gunnars Magnússonar í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

Mat íbúa Reykjanesbæjar á félagslegum áhrifum Ljósanætur. B.Sc. ritgerð Ingólfs Magnússonar frá land- og ferðamálafræðiskor Háskóla Íslands.

Íslensk tónlist sem landkynning. B.Sc. ritgerð Tómasar Viktors Young frá land- og ferðamálafræðiskor Háskóla Íslands.

Upplifun ferðamanna af akstri um hálendisvegi. BA ritgerð Ingibjargar Eiríksdóttur frá Hólaskóla ? háskólanum á Hólum.

Viðhorf heimamanna til nýtingar Látrabjargs til ferðamennsku. B.Sc. ritgerð Ragnhildar Sveinsdóttur frá land- og ferðamálafræðiskor Háskóla Íslands.

Heimavinnsla og sala afurða beint frá býli ? mikilvægi íslensks hráefnis fyrir veitingastaði hér á landi. B.Sc. ritgerð Evu Sifjar Jóhannsdóttur frá land- og ferðamálafræðiskor Háskóla Íslands.