Fara í efni

Velta bílaleiga eykst um fjórðung

Velta bílaleiga eykst um fjórðung

Tölur Rannsóknaseturs verslunarinnar sýna að greiðslukortavelta erlendar ferðamanna í maí jókst um 17,9% frá sama mánuði í fyrra. Aukningin skilar sér til verslunar, veitingahúsa, hótela, í menningarstarfsemi og ýmsa aðra þjónustu.

Ný bílaleiga skráð vikulega

Erlendir ferðamenn greiddu í maí 554 millj. kr. með kortum sínum fyrir bílaleigubíla hér á landi, sem var fjórðungi hærri upphæð en í maí í fyrra. Bílaleigum fjölgar ört og eru nú skráðar 140 bílaleigur á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum Samgöngustofu eru skráðar nokkrar nýjar bílaleigur vikulega. Þannig er til dæmis gert ráð skráningu á þremur nýjum bílaleigum í þessari viku.

Gisting veitingar og verslun

Í maí var erlend kortavelta hér á landi vegna gistingar næstum 1,5 milljarð kr., sem er 22,2% aukning frá sama mánuði í fyrra. Aukning í veitingasölu til erlendra ferðamanna nam 17,2% frá síðasta ári.

Velta erlendra ferðamanna í íslenskum verslunum í maí nam rúmum milljarði kr. Mest aukning varð í dagvöruverslun eða 32,6% frá maí í fyrra. Í mánuðinum greiddu erlendir ferðamenn um 200 millj. kr í fataverslunum sem er 15,3% meira en í maí í fyrra. Líklega er aðallega um að ræða útivistarfatnað. 

Hver erlendur ferðamaður eyðir álíka miklu á þessu ári og í fyrra eins og kemur fram á súluritinu á myndinni. Upphæðin á hvern ferðamann er að meðaltali tæpar 100 þús. kr. Í fyrra greiddi hver erlendur ferðamaður að meðaltali mest í desember, um 120 þús. kr., og minnst í september, eða um 82 þús. kr. Aukin heildarvelta er því vegna aukins fjölda ferðamanna. Hér er miðað erlenda greiðslukortaveltu hér á landi og fjölda erlendra ferðamanna samkvæmt talningu Ferðamálastofu.

Þess ber að geta að kortavelta útlendingar sem kaupa farmiða eða pakkaferðir til Íslands frá heimalandi sínu eru ekki innifaldar í þessum tölum nema kortaveltan fari í gegnum íslenska færsluhirða. Þannig eru erlendar greiðslur vegna flugferða hingað til lands og greiðslur til erlendra ferðaskrifstofa eða annarra milliliða ekki meðtaldar. Þá eru úttektir á reiðufé úr hraðbönkum ekki innifaldar í þessum tölum.

Breytingar á erlendri greiðslukortaveltu eftir flokkum

2013, maí 12 mán. breyting í %
Alls 17,9
1 Gistiþjónusta  22,2
2 Veitingaþjónusta  17,2
3 Farþegaflutningar  7,3
4 Ýmis ferðaþjónusta  20,0
5 Bensín, viðgerðir og viðhald bifreiða  13,4
6 Önnur þjónusta tengd farþegaflutningum  25,1
7 Menningar-, afþreyingar og tómstundastarfsemi  8,8
8 Ýmis önnur þjónusta  12,3
9 Verslun  16,7
10 Opinber gjöld ofl.  -26,6

 

Íslendingar eyða minna í ferðaþjónustu

Á meðan aukning er í erlendri greiðslukortaveltu verja Íslendingar minna til ferðaþjónustu hér innanlands. Í maí var innlend kortavelta vegna ferðaþjónustu 3,1% minni en í sama mánuði í fyrra. Það þarf þó ekki að vera vegna minni ferðalaga landsmanna því samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar var verð á flugferðum til útlanda um 2% lægra í maí síðastliðnum miðað við maí í fyrra. Þessi lækkun kann að skýra þessa lækkun á útgjöldum landsmanna til ferðaþjónustu.

Um kortaveltu ferðamanna

Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta.

Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.

Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaiðnaðar. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum en ekki eftir uppgjörstímabilum og er samtalan því eilítið frábrugðin þeim gögnum sem Seðlabankinn birtir.

Nánari upplýsingar veita Emil B. Karlsson (emil@bifrost.is, GSM 822 1203) og Pálmar Þorsteinsson (palmar@bifrost.is, GSM 868 8578)