Fara í efni

Umsóknarfrestur um hlutafjárkaup Byggðastofnunar

Undirgrodurthaki
Undirgrodurthaki

Sem lið í átaki ríkisstjórnarinnar um atvinnuþróun á landsbyggðinni var Byggðastofnun á árinu úthlutað 350 milljónum króna til kaupa á hlutafé í fyrirtækjum. Í lok mánaðarins rennur út frestur að sækja um til stofnunarinnar vegna kaupa hennar á hlutafé í ferðaþjónustufyrirtækjum á landsbyggðinni.

Nýsköpunar- og sprotafyrirtæki
Á heimasíðu Byggðastofnunar kemur fram að megináhersla verður lögð á kaup í sprotafyrirtækjum og fyrirtækjum í skýrum vexti með áherslu á nýsköpun. Fjárfest verður fyrirtækjum í höfuðatvinnugreinunum, þ.e. sjávarútvegi, landbúnaði, iðnaði og ferðaþjónustu, ásamt tengdum greinum. Umsóknarfrestur fyrir ferðaþjónustufyrirtæki er til 31. ágúst nk. en fyrir aðrar atvinnugreinar er umsóknarfrestur þegar útrunninn.

Reglur um kaup í einstökum félögum
Byggðastofnun mun að hámarki verja 50 m.kr. til kaupa á hlutafé í einstöku félagi. Eignarhlutur Byggðastofnunar má ekki verða meiri en 30% af heildarhlutafé í félaginu. Heildarfjármögnun verkefnisins verður sömuleiðis að vera tryggð. Kaupgengi er ákvarðað með verðmati á fyrirtækinu. Nauðsynlegt er að umsókn fylgi verðmat eigenda á félaginu ásamt forsendum verðmatsins.

Ákvörðun um kaup á hlutafé
Sérfræðingar Byggðastofnunar munu meta umsóknir og gera tillögur í einstökum málum til stjórnar sem taka mun ákvörðun um hlutafjárkaup. Stofnunin áskilur sér rétt til að leita eftir áliti og ráðgjöf frá fagaðilum um hlutafjárkaup, s.s. Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins ásamt því að leita eftir staðbundinni þekkingu á forsvarsmönnum, fyrirtækjum og umhverfi þeirra t.d. hjá atvinnuþróunarfélögum og eignarhaldsfélögum á einstökum svæðum. Leitast verður við að svara umsækjendum innan 45 daga frá því að umsóknartímabili vegna einstakra atvinnugreina er lokið. Frestur þessi gæti þó orðið lengri eftir fjölda umsókna, og verður það þá kynnt sérstaklega. Nauðsynlegt er að umsækjandi kynni sér vel á heimasíðu Byggðastofnunar hvaða gögn þurfa að fylgja umsókn.