Fara í efni

Um 180 þúsund ferðamenn í júlí

ferðamenn í júlíUm 180 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í júlí síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 36 þúsund fleiri en í júlí á síðasta ári. Aukningin nemur 25% milli ára.

Það sem af er ári hefur mælst aukning milli ára alla mánuði eða 34,5% í janúar, 34,4% í febrúar, 26,8% í mars, 20,9% í apríl, 36,4% í maí og 24,2% í júní.

70% ferðamanna í júlí af tíu þjóðernum

10 fjölmennustu þjóðerniUm 70% ferðamanna í júlí síðastliðnum voru af tíu þjóðernum. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir eða 20,6% af heildarfjölda en næstir komu Þjóðverjar (11,1%) og Bretar (8,6%). Þar á eftir fylgdu síðan Frakkar (6,7%), Danir (4,7%), Kínverjar (4,1%), Kanadamenn (3,9%), Svisslendingar (3,6%), Svíar (3,4%) og Norðmenn (3,4%).

Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Kínverjum, Bretum, Þjóðverjum og Kanadamönnum mest milli ára í júlí en 14.237 fleiri Bandaríkjamenn komu í júlí í ár en í fyrra, 3.171 fleiri Kínverjar, 2.960 fleiri Bretar, 1.988 fleiri Þjóðverjar og 1.741 fleiri Kanadamenn. Þessar fimm þjóðir báru uppi 66,8% aukningu ferðamanna í júlí.
Nokkrum þjóðum fækkaði hins vegar í júlí ár frá því í fyrra. Þannig fækkaði Rússum um 40,2% og Norðurlandaþjóðunum um 5,5%.

Fjöldi ferðamanna í júlí á tímabilinu 2002-2015

júlí eftir markaðssvæðumFerðamönnum í júlí hefur fjölgað jafnt og þétt frá því Ferðamálastofa hóf talningar á Keflavíkurflugvelli árið 2002. Heildarfjöldi ferðamanna í júlímánuði hefur nærri fjórfaldast frá árinu 2002 og munar þá mestu um aukningu N-Ameríkana sem hafa meira en sjöfaldast og þeirra sem flokkast undir ,,annað“ sem hafa nærri áttfaldast. Ferðamenn frá Mið- og S-Evrópu hafa á sama tíma nærri þrefaldast, Bretar nærri þrefaldast og Norðurlandabúar ríflega tvöfaldast.

Tæplega 700 þúsund ferðamenn frá áramótum

Það sem af er ári hafa 697.716 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða 151.363 fleiri en á sama tíma í fyrra. Um er að ræða 27,7% aukningu milli ára. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum nema Norðurlöndunum sem hafa staðið í stað. Aukningin hefur verið 44,4% frá N-Ameríku, 27,5% frá Bretlandi, 21,0% frá Mið- og S-Evrópu, og 40,9% frá öðrum löndum sem ekki eru talin sérstaklega og flokkast undir ,,annað“.

Ferðir Íslendinga utan

Um 44 þúsund Íslendingar fóru utan í júlí síðastliðnum eða um fimm þúsund fleiri en í júlí árið 2014. Frá áramótum hafa 253.194 Íslendingar farið utan eða 28.700 fleiri en á sama tímabili árið 2014.

Nánari upplýsingar

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

ferðamenn júlí 2015