Fara í efni

Þrjú þúsund brottfarir í febrúar

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um þrjú þúsund í nýliðnum febrúarmánuði samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia, eða 97,7% færri en í febrúar 2020, þegar brottfarir voru um 133 þúsund talsins. Frá áramótum hafa um sjö þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi sem er 97,1 fækkun miðað við sama tímabil í fyrra en þá voru brottfarir erlendra farþega um 254 þúsund.

Langflestar brottfarir í febrúar má rekja til Pólverja eða um tvær af hverjum fimm (40%). Um er að ræða sjötta mánuðinn í röð þar sem fækkunin nemur yfir 90% milli ára.

Brottfarir Íslendinga í febrúar voru um 2.300 talsins en í sama mánuði í fyrra voru þær um 34.400 talsins. Fækkunin nemur 93,2% milli ára. Brottfarir Íslendinga frá áramótum eru um 8.400 eða 88,4% færri en á sama tímabili í fyrra.

Nánari upplýsingar

Nánari skiptingu á milli þjóðerna má sjá í töflunni að neðan og frekari upplýsingar eru undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Niðurstöður um brottfarartalningar má jafnframt nálgast í Mælaborði ferðaþjónustunnar undir liðnum Farþegar.