Fara í efni

Þolmörk ferðamanna á átta vinsælum ferðamannastöðum á Suður- og Vesturlandi

Þingvellir
Frá Þingvöllum. Mynd: Ragnar Th. Sigursson

Út er komin skýrsla þar sem eru kynntar meginniðurstöður viðhorfskönnunar sem gerð var meðal ferðamanna á átta vinsælum náttúruskoðunarstöðum á Suður- og Vesturlandi sumarið 2014. Ferðamálastofa fjármagnaði rannsóknina sem stýrt var af dr. Önnu Dóru Sæþórsdóttur, dósent í ferðamálafræði við Háskóla Íslands.

Eru ferðamenn of margir?

Ástæða þess að Ferðamálastofa ákvað að ráðast í verkið var að vegna mikillar fjölgunar ferðamanna hér á landi og þess álags sem af henni skapast hafa spurningar vaknað um hvort ferðamenn séu nú þegar of margir á vinsælustu áfangastöðum landsins. Þá voru þolmörk einn þeirra þátta sem greining Ferðamálastofu haustið 2013 leiddi í ljós að hagsmunaaðilar töldu brýnast að ráðast þyrfti í.

Staðirnir átta

Staðirnir sem valdir voru til skoðunar voru: Djúpalónssandur, Geysir, Hakið á Þingvöllum, Hraunfossar, Húsadalur í Þórsmörk, Jökulsárlón, Seltún og Sólheimajökull.

Heildarniðurstöður á árslok

Spurningalistum er dreift á þremur tímabilum; sumar (miður júní til ágúst 2014), haust (lok september til byrjun nóvember 2014) og vetur (febrúar til mars 2015). Í þessari skýrslu birtast frumniðurstöður könnunarinnar sem gerð var meðal sumargesta. Heildarniðurstöður verkefnisins verða birtar í lok árs 2015 en þá verður búið að greina hvort um hvort tölfræðilega marktækur munur sé á milli árstíða, staða og eftir ýmsum öðrum þáttum.

Markmið rannsóknarinnar var að kanna:

  1. Hvert aðdráttarafl staðanna er, hvernig ferðamenn skynja staðina, hversu ánægðir þeir eru með heimsókn sína, hvort aðrir ferðamenn hafi áhrif á upplifun þeirra og hvort ferðamenn sjái ummerki um skemmdir á náttúrunni vegna ferðamennsku. 
  2. Hvort greina megi árstíðabundinn mun á fyrrgreindum atriðum. 
  3. Hver fjöldi ferðamanna á hverjum stað er og hvernig hann dreifist eftir tíma (þ.e. yfir árið, viku og á sólarhring).

Ferðamenn almennt ánægðir

Könnunin sýnir að erlendir ferðamenn eru um 92% þeirra gesta sem koma á staðina. Þrátt fyrir að fjöldi erlendra ferðamanna hingað til lands hafi aukist mjög ört undanfarin ár eru langflestir ánægðir með náttúruna og dvölina á stöðunum sem til skoðunar eru. Ánægja er einnig mikil með göngustíga, en hún er ekki eins mikil með aðra innviði og þjónustu. Gestir eru þó síður ánægðir með innviði og þjónustu við Geysi og Jökulsárlón, auk þess sem umhverfi Geysis þykir manngerðara en hinna staðanna. Almennt þykir hreint á svæðunum en þó síst við Jökulsárlón. Fáir hafa orðið varir við skemmdir á náttúrunni af völdum ferðamanna sem og rusl, skemmdir á jarðmyndunum og gróðurskemmdir. Sú umhverfisröskun sem ferðamenn taka helst eftir er rof úr göngustígum og þá sérstaklega í Þórsmörk og við Geysi.

Jökulsárlón og Geysir skera sig úr

Meirihluti ferðamanna á áfangastöðunum átta finnst fjöldi ferðamanna hæfilegur. Jökulsárlón og Geysir skera sig þó úr hvað þetta varðar þar sem um 40% ferðamanna þar þykir vera of mikið af hópferðamönnum. Um þriðjungi svarenda þar finnst of mikið af ferðamönnum almennt. Á Þingvöllum fannst 20% þátttakenda vera of mikið af ferðamönnum almennt og 18% gesta í Þórsmörk voru á sama máli. Um 8-11% við Seltún, Sólheimajökul og Djúpalónssand fannst of mikið af ferðamönnum

Ákveðnir markhópar nálgast hugsanlega þolmörk

Í skýrslunni segir að liggja þyrftu fyrir skýr markmið um hvaða upplifun stöðum er ætlað að veita og eða til hvaða markhópa þeir eiga að höfða til í skipulagi ferðamannastaða. Slík markmið hafa ekki verið sett fyrir rannsóknastaðina átta og því ekki er hægt að fullyrða hvort félagslegum þolmörkum ferðamann sé náð. Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa þó ákveðna vísbendingu um að ákveðnir markhópar við Geysi og Jökulsárlón séu mögulega að nálgast þessi þolmörk en aðrir staðir virðast í betra horfi.

Skilgreina þolmörk fyrir hvert svæði

„Til að náttúruskoðunarstaðir haldi áfram að vera auðlind fyrir ferðaþjónustuna verður að meðhöndla þá í samræmi við það. Mikilvægt er að þolmörk séu skilgreind fyrir hvert svæði fyrir sig, og þar með ákvörðuð staðsetning svæðisins innan afþreyingarrófsins. Með því móti næst hámarksnýting á landinu fyrir fjölbreytta ferðamennsku, styrkari stoðum er rennt undir ferðaþjónustu og betur er stuðlað að sjálfbærri þróun greinarinnar. Þannig verður hægt að taka við sem flestum ferðamönnum, af mismunandi gerðum, án þess að ganga meira en nauðsyn krefur á þær auðlindir sem ferðamennska byggir á,“ segir meðal annars í skýrslunni.

Skýrslan í heild:

Þolmörk ferðamanna á átta vinsælum ferðamannastöðum á Suður- og Vesturlandi sumarið 2014