Fara í efni

Þjónustuhús úr íslensku greni

Nýja þjónustuhúsið er glæsilegt á að líta.
Nýja þjónustuhúsið er glæsilegt á að líta.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti á árinu Skaftárhreppi styrk uppbyggingar innviða við Fjaðrárgljúfur og var hann nýttur til byggingar þjónustuhúss sem nú er tilbúið.

Sverustu viðirnir úr íslenskum trjám

Sérstaða hússins er m.a. sú að allt ytra byrði hússins er gert úr íslenskum trjáviði, sitkagreni sem gróðursett var um 1950 á Tumastöðum í Fljótshlíð. Líklega eru í húsinu sverustu viðir sem hingað til hafa verið sagaðir úr íslenskum trjám, að mati Hreins Óskarssonar, skógarvarðar á Suðurlandi. Fleiri myndir af húsinu má sjá á vef Skógræktar ríkisins.

Árangur af starfi Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða

Að verkefninu stóðu Katla jarðvangur, Skaftárhreppur, Vatnajökulsþjóðgarður, Kirkjubæjarstofa, Friður og Frumkraftar og Ferðamálafélag Skaftárhrepps. Hönnuður byggingarinnar er Birgir Teitsson hjá Arkís ehf, sá hinn sami og sigraði í samkeppni Skógræktarinnar um áningarstaði í Þjóðskógum í vor. Það verkefni var einnig styrkt af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Má af því ráða að jákvæður árangur af starfi sjóðsins er víða að koma fram þótt stutt sé frá stofnun hans.