Fara í efni

Tæplega 700 þúsund erlendir farþegar 2021

Mynd: Hildur Helga Pétursdóttir
Mynd: Hildur Helga Pétursdóttir

Brottfarir erlendra farþega* frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega 688 þúsund árið 2021 eða um 209 þúsund fleiri en árið 2020, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Aukningin milli ára nemur 44%. Leita þarf níu ár aftur í tímann til að sjá álíka fjölda brottfara erlendra farþega.

Í kjölfarið á afléttingu ferðatakmarkana í júní 2021 tók ferðamönnum að fjölga en um 95% brottfara árið 2021 voru á síðari hluta ársins (júní-des.). Bandaríkjamenn voru um þriðjungur allra brottfara.


 

Brottfarir 2021 álíka margar og 2012

Brottfarir erlendra farþega frá landinu mældust um 688 þúsund á nýliðnu ári eða 43,7% fleiri en árið 2020. 

Leita þarf níu ár aftur í tímann til að sjá álíka fjölda brottfara erlendra farþega eða til ársins 2012 en þá mældist fjöldi þeirra um 647 þúsund.

Fjöldi brottfara mældist mestur á árunum 2017 til 2019 eða á bilinu tvær til tvær komma þrjár milljónir.  

 

 

Brottfarir erlendra farþega eftir tímabilum

Sé dreifing brottfara innan ársins 2021 skoðuð kemur í ljós að um 44,3% voru farnar að sumri til (júní-ágúst) eða um 304 þúsund talsins. Um er að ræða nærri þrefalt fleiri brottfarir frá fyrra sumri en meira en tvöfalt færri en sumarið 2019. Um helmingur (51,1%) brottfara var á tímabilinu september til desember eða um 351 þúsund talsins. Um er að ræða 13-falt fleiri brottfarir frá fyrra sumri en tæplega helmingi færri en árið 2019. Samtals voru brottfarir á tímabilinu júní til desember um 95,2% af heildarbrottförum 2021.  

 

Brottfarir eftir mánuðum

Í töflunni hér til hliðar má sjá nánari útlistun á brottförum eftir mánuðum en þeim fjölgaði níu mánuði ársins 2021 frá fyrra ári eða á tímabilinu apríl til desember. Aflétting á ferðatakmörkunum í júní 2021 skilaði sér í margfalt fleiri ferðamönnum seinni hluta ársins.

Langflestar voru brottfarirnar í júlí, ágúst, september og október, eða um og yfir 100 þúsund í hverjum mánuði fyrir sig. Brottfarir í júlí og ágúst voru meira en tvöfalt fleiri 2021 en árið 2020, brottfarir í september voru ríflega tífalt fleiri og brottfarir í október um 17-falt fleiri. Þegar árið 2021 er borið saman við 2019 má sjá að brottfarir voru meira en 100 þúsund færri í hverjum mánuði á tímabilinu janúar til ágúst en á bilinu 55 til 75 þúsund í september, október, nóvember og desember. 

 

 

Stærstu þjóðernin

Flestar brottfarir árið 2021 voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna, 227 þúsund talsins eða um þriðjungur allra brottfara. Um er að ræða um fjórum sinnum fleiri brottfarir Bandaríkjamanna en árið 2020 en tæplega helmingi færri en árið 2019. Brottfarir Þjóðverja komu þar á eftir en þær mældust tæplega 64 þúsund talsins 2021 og fjölgaði um 20 þúsund frá fyrra ári eða um 46%. Brottfarir Þjóðverja voru ríflega helmingi fleiri árið 2019. Í þriðja sæti voru brottfarir Breta, um 54 þúsund talsins og fækkaði þeim um tæplega 48 þúsund frá árinu 2020 eða um 46,7%. Brottfarir Breta voru nærri fimm sinnum fleiri árið 2019.  

Samtals voru brottfarir Bandaríkjamanna, Þjóðverja og Breta um helmingur allra brottfara frá landinu árið 2021. Þar á eftir fylgdu brottfarir Pólverja (7,6% af heild), Frakka (5,3% af heild), Ítala (4,1% af heild), Dana (3,5% af heild), Spánverja (2,8% af heild), Hollendinga (2,5% af heild) og íbúa frá Eystrasaltslöndunum (2,2% af heild).

 

Stærstu þjóðernin eftir mánuðum 

Hér má sjá dreifingu brottfara sjö stærstu þjóðerna¹ eftir mánuðum árið 2021.

  • 70,8% brottfara Bandaríkjamanna voru á tímabilinu júní-september, 25,4% október-desember og 3,8% aðra mánuði.
  • 63,4% brottfara Þjóðverja voru á tímabilinu júní-sept., 32,1% okt.-des. og 4,5% aðra mánuði.
  • 37,5% brottfara Breta voru á tímabilinu júní-sept., 61,5% okt.-des. og 1,3% aðra mánuði.
  • 52,1% brottfara Pólverja voru á tímabilinu júní-sept., 35,4% okt.-des. og 12,5% aðra mánuði.
  • 56,8% brottfara Frakka voru á tímabilinu júní-sept., 40,5% okt.-des. og 2,7% aðra mánuði.
  • 66,5% brottfara Ítala voru á tímabilinu júní-sept., 31,8% okt.-des. og 4,5% aðra mánuði.
  • 53,3% brottfara Dana voru á tímabilinu júní-sept., 41,9% okt.-des. og 4,8% aðra mánuði.

¹Samanlagt voru sjö stærstu þjóðernin árið 2021 70,7% af heild.

Ferðir Íslendinga utan

Brottfarir Íslendinga voru um 219 þúsund talsins árið 2021 eða um 89 þúsund fleiri en árið 2020. Aukningin nemur 68,5% milli ára. Flestar brottfarir voru farnar seinni hluta ársins (júlí-des.) eða 85,2% talsins. Um er að ræða annað minnsta ferðaár Íslendinga hvað utanferðir varðar frá því Ferðamálastofa hóf talningar árið 2002.

*Nánari upplýsingar

Nánari skiptingu á milli þjóðerna má sjá í töflunni að neðan og frekari upplýsingar eru undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Niðurstöður um brottfarartalningar má jafnframt nálgast í Mælaborði ferðaþjónustunnar undir liðnum Farþegar.