Fara í efni

Svæðið við Hraunfossa og Barnafoss opnað eftir endurbætur

SkiltividHraunfossa
SkiltividHraunfossa

Á um liðnum árum hefur Ferðamálaráð Íslands unnið að uppbyggingu á fjölsóttum ferðamannastöðum víðsvegar um land. Eitt af þessum svæðum er Hraunfossar og Barnafoss í Borgarfjarðarsveit. Í gær opnaði Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, svæðið með formlegum hætti og þá var einnig undirritaður samningur á milli Ferðamálaráðs og Borgarfjarðarsveitar, þar sem Borgarfjarðarsveit tekur að sér allt viðhald á þeim mannvirkjum sem Ferðamáráð hefur látið koma fyrir á svæðinu.

Framkvæmdir á 39 stöðum
Nú er rétt um áratugur síðan Ferðamálaráð Íslands hóf undirbúning að fyrstu framkvæmdunum á sínum vegum á fjölsóttum ferðamannastöðum. Á þeim árum sem síðan eru liðin hefur Ferðamálaráð staðið fyrir eða komið að framkvæmdum á 39 stöðum og varið til þess tæplega 245 milljónum króna á núvirði.

Slæmt ástand
Áningarstaðurinn við Hraunfossa var einn þeirra staða sem Ferðamálaráð réðist fyrst til atlögu við árið 1995. Þá var ástandið vægast sagt slæmt. Áníðsla landsins var þannig að gróðureyðing á bökkum árinnar var komin á hættustig, gróðurþekja var nánast horfin og trjágróður að fara sömu leið. Á öðrum stöðum í landinu gekk sauðfé þannig að nær enginn trjágróður þreifst þar. Einhverjar tilraunir höfðu verið gerðar á árunum á undan til að spyrna við fótum. Reynt var að afmarka leiðir, brúa læki og loka óæskilegum leiðum en mjög takmörkuðu fjármagni hafði verið varið til framkvæmdanna og ljóst var að mun meira þurfti til svo hægt væri að koma böndum á vandann.

Unnið í nokkrum áföngum
Byrjað var á að hanna og gera framkvæmdaáætlun fyrir svæðið. Framkvæmdir hófust síðan sem fyrr segir árið 1995 og fólust í stuttu máli í því að Vegagerðin byggði nýtt bílastæði, um svæðið voru lagðir stígar sem geta tekið við þeim fjölda ferðamanna sem þar fer um og stór útsýnispallur byggður á þeim stað þar sem helst eru teknar myndir og mest gróðureyðing var. Nokkrum árum síðar var farið í lokafrágang á svæðinu og þá byggð hreinlætisaðstaða og komið fyrir þjónustuhúsi sem tekið verður í notkun í vor. Síðastliðið haust og í vetur var síðan lögð lokahönd á verkið. Þá var meðal annars gengið frá afmörkun á bílastæði og aðkomutorgi. Einnig hefur gönguleiðin handan árinnar verið gerð aðgengileg með tröppum og stíg inn á hraunið, nýr útsýnispallur var gerður við Barnafoss og óæskilegum slóðum lokað í þeim tilgangi að vernda umhverfið og auka öryggi ferðamanna. Hönnun gönguleiða og mannvirkja hefur verið í höndum Halldórs Jóhannssonar, landslagsarkitekts og framkvæmdir í höndum fyrirtækja Ingólfs Jóhannssonar skrúðgarðyrkjumeistara og Þorsteins Guðmundssonar vélaverktaka og starfsmanna þeirra.

Kynning á starfi Ferðamálaráðs að umhverfismálum
Við athöfnina í gær var einnig kynnt það starf sem Ferðamálaráð Íslands sinnir á sviði umhverfismála. Af því tilefni var gefið út lítið upplýsingarit og má nálgast það hér á vefnum. Ritið er í pdf-formi (opnast í Acrobat Reader). Smellið hér