Fara í efni

Stofnfundur Íslandsstofu

FolkundirKletti
FolkundirKletti

Stofnfundur Íslandsstofu var haldinn í sjóminjasafninu Víkinni í dag en Alþingi samþykkti í lok aprílmánaðar lög um stofnunina. Markmið með Íslandsstofu er að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins.

Á vettvangi Íslandsstofu sameinast starfsemi Útflutningsráðs, Fjárfestingarstofu og erlent markaðsstarf Ferðamálastofu. Íslandsstofa verður þó annað og meira en einföld samlagning þeirrar starfsemi sem þegar er fyrir hendi, því henni er ætlað víðtækara starf sem snýr m.a. að því að styrkja ímynd og orðspor Íslands og styðja við kynningu á íslenskri menningu erlendis.

Á stofnfundinum voru undirritaðir viljayfirlýsingar um samstarf við Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN), Samtök tölvuleikjaframleiðenda og Markaðsnefnd uppruna- merkis í sjávarútvegi. Sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra við það tækifæri að samningarnir endurspegluðu nýjar áherslur í atvinnulífinu og undirstrikuðu það verkefni Íslandsstofu að greiða fyrir viðskiptum.

Gert er ráð fyrir breiðri aðkomu hagsmunaaðila að stefnumörkun og stjórn Íslandsstofu. Stjórnina skipa sjö einstaklingar sem valdir eru til þriggja ára í senn. Utanríkisráðherra skipar fjóra stjórnar menn eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn eftir tilnefningu iðnaðarráðherra, einn eftir tilnefningu mennta- og menningarmálaráðherra og einn án tilnefningar.

Formaður stjórnar Íslandsstofu er Friðrik Pálsson, framkvæmdastjóri Hótels Rangár. Aðrir í stjórn eru Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda, Einar Karl Haraldsson ráðgjafi, Innform, Kolbrún Halldórsdóttir, formaður Bandalags íslenskra listamanna, Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri, Sigsteinn Grétarsson, forstjóri Marel á Íslandi og Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentor.

Stjórnin skal samkvæmt lögunum skipa fagráð til að móta áherslur einstakra málaflokka; á sviði ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu, umhverfismála, menningarmála og fjárfestinga erlendra aðila hér á landi. Þá skipar stjórnin ráðgjafaráð um stefnumörkun og áherslur í störfum stofunnar og skulu málsvarar mikilvægustu hagsmuna á starfssviði stofunnar eiga sæti í ráðgjafaráðinu.

Stjórn Íslandsstofu hefur þegar tekið til starfa en Íslandsstofa mun formlega hefja störf 1. júlí n.k. Auglýst hefur verið eftir framkvæmdastjóra og jafnframt hefur stjórnin ákveðið að móta Íslandsstofu stefnu á haustmánuðum.