Stöðuskýrsla Evrópska ferðamálaráðsins - European Tourism: trends and prospects

Ársfjórðungsskýrsla Evrópska ferðamálaráðsins (ETC) kom út í dag en þar er fjallað um þróunina í ferðaþjónustu út frá fyrirliggjandi gögnum; ferðamannatalningum, gistinóttum, flugtölum og hagtölum ýmiss konar. Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á stöðuna sem skapast hefur vegna Covid-19. Ferðamálastofa á aðild að ráðinu ásamt ferðamálastofnunum 30 annarra Evrópulanda sem gerir m.a. kleift að meta hvernig íslensk ferðaþjónusta kemur út í alþjóðlegum samanburði.

Þróunin í komum ferðamanna og gistinóttum ferðamanna

Samkvæmt skýrslunni sem unnin er af ráðgjafafyrirtækinu Tourism Economics fjölgaði ferðalögum til Evrópu um 4,1% frá 2018 til 2019. Aukning var í ferðalögum til langflestra aðildarlanda ETC sem mæla þróunina reglubundið ýmist út frá komum ferðamanna eða gistinóttum. Eins og sjá má af töflu á blaðsíðu 10 í skýrslunni sker Ísland sig úr með metfækkun ferðamanna á árinu 2019 (-11,7%) en í skýrslu er tiltekið að fækkunina megi rekja til brotthvarfs WOW. Gistinætur á hótelum og í sambærilegri gistingu stóðu hins vegar í stað milli ára á Íslandi. Einu aðildarlönd ETC fyrir utan Ísland sem sýndu samdrátt á árinu 2019 voru Rúmenía með 4,1% færri ferðamenn og Svíþjóð með 1,4% færri gistinætur.


Fyrstu tvo mánuði ársins 2020 eða áður en faraldurinn kom til fjölgaði ferðamönnum til langflestra aðildarlanda ETC. Ferðamönnum til Íslands fækkaði hins vegar um 10,7%. Í töflu á bls. 13 í skýrslunni má sjá yfirlit yfir breytingu milli ára en einu löndin sem byggja samanburð á tölum að marsmánuði meðtöldum þegar áhrifa faraldursins var farið að gæta að fullum þunga eru Ísland og Króatía.

Áhrif Covid-19

Samkvæmt skýrsluhöfundum mun veiru faraldurinn kosta milljónir manna vinnu í Evrópu og munu lítil og meðalstór fyrirtæki verða verst úti. Mikil óvissa ríkir um framvindu ferðaþjónustunnar en varnaraðgerðir stjórnvalda til að takmarka útbreiðslu og smittíðni hafa sett fyrirtæki um alla Evrópu í erfiða stöðu og óvíst hvernig spilast muni úr. Þau inngrip sem stjórnvöld hafa gripið til í sumum löndum til að halda hagkerfinu gangandi milda áhrif faraldursins til skemmri tíma.

Spá Tourism Economics gefur til kynna að ferðalögum á heimsvísu muni fækka um 39% milli ára 2019-2020 sem samsvarar 577 milljón ferðum. Gert er ráð fyrir að um helming ferða megi rekja til ferðalaga til Evrópulanda, Frakkland mun t.a.m. sjá 38 milljón færri ferðamenn, Spánn 34 milljónir og Ítalía 31 milljón færri ferðamenn. Gert er ráð fyrir hægum bata á árinu 2021 og fyrri styrk verði ekki ná fyrr en árið 2023.

Aðildarkönnun ETC

Í skýrslunni er fjallað um niðurstöður könnunar sem framkvæmd var nýlega meðal aðildarlanda ETC en niðurstöður hennar gefa til kynna að öll vænti þau verulegrar fækkunar ferðamanna á árinu 2020. Eins og sjá má af grafi hér að ne'an gera langflest löndin ráð fyrir fækkun á bilinu 30-40%.
Sum aðildarlöndin búast við miklum samdrætti í landsframleiðslu og atvinnuleysi vegna faraldursins. Nokkur búast við að tekjur af ferðamönnum dragist saman um allt að 60-70% milli ára 2019-2020. Hjá einhverjum gerðu björtustu sviðmyndir ráð fyrir að einungis eitt af hverjum þremur störfum í ferðaþjónustu myndi tapast til skemmri tíma.

 

Aðildarlönd gáfu til kynna að þau gætu þurft að fara í algjöra enduruppbyggingu á ferðaþjónustunni eftir faraldurinn. Höfðu þau áhyggjur af því að viðhorf neytenda til ferðalaga myndi breytast. Innanlandsferðir voru taldar munu taka fyrst við sér og voru flestöll löndin með áform um að efla ferðamennsku innanlands til að fylla upp í það rúm sem skapast með samdrætti í ferðalögum erlendra ferðamanna. Ferðalög milli landa í Evrópu eru talin líklegri að taka fyrr við sér en ferðalög til Evrópu frá fjarmörkuðum.

Tækifæri til breytinga

Þrátt fyrir neikvæð efnahagsleg áhrif faraldursins á ferðaþjónustuna í Evrópu leggja skýrsluhöfundar áherslu á að nú skapist tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt og endurskapa áherslur í greininni. Þannig geti greinin orðið sjálfbærari, drifin áfram af nýsköpun og gæðum sem kemur jafnt til góða ferðamönnum, umhverfinu, byggðarlögum og hagkerfi svæða.

Skýrslan í heild

Í myndbandinu hér að neðan er einnig farið yfir helstu niðurstöður skýrslunnar: 


Athugasemdir