Fara í efni

Stefnumótun hjá Ferðamálastofu og breytingar á skipulagi

Nýtt skipurit 2009
Nýtt skipurit 2009

Ferðamálastofa lauk nýverið fyrsta áfanga í stefnumótunarferli og um leið var kynnt til sögunnar nýtt skipurit. Samfara verða talsverðar breytingar á skipulagi starfseminnar, sérstaklega hvað varðar markaðsmál.

Stefnumótunarferlið hófst í haust og var unnið í samvinnu við ParX viðskipatráðgjöf. Meginmarkmiðið var að marka stefnu stofnunarinnar með hliðsjón af nýjum kröfum um starfshætti innan stjórnsýslunnar, um aukna samvinnu og betri nýtingu fjármuna hjá hinu opinbera og um skýra framtíðarsýn fyrir hina margvíslegu þætti starfseminnar.

Víðtækt hlutverk
Ferðamálastofa fer samkvæmt lögum með framkvæmd ferðamála og er í því sambandi ætlað víðtækt stuðnings- og þjónustuhlutverk. Framtíðarsýn stofunnar tekur mið af þessu; Ferðamálastofa stefnir að því að vera frumkvæðis- og samræmingaraðili opinberrar þjónustu við íslenska ferðaþjónustu og stefnumarkandi í markaðsstarfi fyrir greinina. Ennfremur felst í framtíðarsýninni að Ferðamálastofa stuðli að því að styrkja og viðhalda ímynd Íslands og að ferðaþjónustan verði virt og þekkt sem ein af helstu atvinnugreinum landsins.

Starfsemi Ferðamálastofu snýst í miklu mæli um samstarf og samskipti við aðila innan ferðaþjónustunnar. Er sérstaklega tekið á þeim þætti og hlutverki Ferðamálastofu í samræmingu og heildarsýn opinberrar þjónustu við greinina.

Þá er sett fram gildi sem verða starfsmönnum til leiðbeiningar í daglegum störfum og við ákvarðanatöku. Þau lýsa með hvaða hætti verkefni skuli leyst og hvaða meginreglur gilda í samstarfi við aðra. Gildi Ferðamálastofu eru Samvinna-Jákvæðni-Kappsemi.

Nýtt stjórnskipulag
Tekið er upp nýtt stjórnskipulag út frá svokölluðu fléttuskipulagi þar sem stofnuninni er skipt í tvö fagsvið auk þjónustusviðs. Fagsviðin eru þróunar- og nýsköpunarsvið og markaðs- og samskiptasvið. (sjá mynd)

Breytingar á markaðsmálum
Víðtækustu breytingarnar verði á fyrirkomulagi markaðsmála, með það fyrir augum að nýta betur þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru fyrir markaðssetningu landsins. Í stað þess að reka sérstakar skrifstofur erlendis verður tekið upp aukið samstarf við aðra aðila sem vinna að kynningarmálum Íslands.

Ferðamálastofa hefur á undanförnum mánuðum verið í samræðum við Útflutningsráð og utanríkisráðuneyti um markvissa samvinnu við framkvæmd verkefna á sviði markaðssetningar íslenskrar ferðaþjónustu. Sú vinna heldur áfram og standa vonir til samvinnan skili sér í miklum samlegðaráhrifum og styrkingu á framkvæmd verkefna, ekki síst þar sem Ferðamálastofa hefur hingað til ekki átt fulltrúa á vettvangi. Vinna að samhæfingu kynningarmála Íslands stendur nú yfir á vegum ráðuneyta.

Ferðamálastofa hefur rekið skrifstofur í þremur löndum með 1 til 4 starfsmönnum á hverjum stað. Slíkur rekstur er afar kostnaðarsamur, ekki síst í ljósi þróunar á gengismálun undanfarið. Með breytingunni aukast möguleikar á því að nýta fjárveitingar til beinnar markaðssetningar og jafnframt verður þess vandlega gætt að hlúa að þeim fjölmörgu stoðverkefnum á sviði markaðssetningar sem Ferðamálastofa hefur sinnt. Eftir sem áður gefst kostur á góðum tengslum við aðila á þessum lykilmörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu, bæði í gegnum sendiráðin og með þeim góðu flugsamgöngum sem eru við landið. Benda má á að á einum stærsta markaðinum, Bretlandsmarkaði, hefur ekki verið rekin sérstök skrifstofa heldur markaðsstarfinu stýrt af starfsmanni Ferðamálastofu í Reykjavík.

Í samræmi við boðaða stefnu
Umræddar aðgerðir eru í samræmi við þá stefnu sem m.a. kom fram hjá Össuri Skarphéðinssyni, ráðherra ferðamála, á ferðamálaþingi í haust og finna má í þeim skýrslum sem unnar voru á síðasta ári um þessi mál, bæði á vegum forsætisráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins.