Fara í efni

Starfshópur skoðar fyrirkomulag upplýsingamiðstöðva

Upplýsingamiðstöð
Upplýsingamiðstöð

Starfshópur skipaður fulltrúum markaðsstofa landshlutanna, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Ferðamálastofu er nú að skoða framtíðarskipan við rekstur upplýsingamiðstöðva.

Rekstur upplýsingamiðstöðva er í dag með ýmsu móti. Sumar eru alfarið á  vegum einkaaðila eða sveitarfélaga en Ferðamálastofa hefur í gegnum ríkissjóð varið fé til rekstrar  níu svonefndra landshlutamiðstöðva. Ein er í hverju gömlu kjördæmanna, og tvær landamærastöðvar, í Keflavík og á Seyðisfirði. Þessum samningum hefur verið sagt upp og eru þannig lausir um áramót en fyrir þann tíma verður fengin niðurstaða um framtíðarfyrirkomulag. Það er einlægur vilji Ferðamálastofu að áfram haldist gott samstarf við upplýsingarmiðstöðvar og að sú vinna sem framundan er leiði af sér jákvæða niðurstöðu fyrir rekstur upplýsingamiðstöðva, enda er mikilvægi upplýsingamiðstöðva sífellt að aukast með vaxandi ferðamannastraumi um land allt.

Í áðurnefndum starfshóp eiga sæti Elías Bj. Gíslason og Ólafur Aðalgeirsson frá Ferðamálastofu, Drífa Magnúsdóttir (Höfuðborgarstofu) og Áskell Heiðar Ásgeirsson (Sveitarfélaginu Skagafirði) eru fulltrúar markaðsstofanna og fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga eru Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði og Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri.