Fara í efni

Staða íslenskrar ferðaþjónustu í árslok 2021 - fjárhags- og rekstrargreining

Þingvellir
Þingvellir

Þriðjudaginn 4. janúar klukkan 11:00 verður kynning á fjárhags- og rekstrargreiningu íslenskrar ferðaþjónustu fyrir árin 2020 og 2021. Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra mun opna kynninguna og síðan munu Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri og Benedikt K. Magnússon sviðstjóri ráðgjafasviðs KPMG kynna niðurstöður skýrslunnar. Kynningunni verður streymt beint um netið og gerð aðgengileg á vefsíðu Ferðamálastofu að henni lokinni.

Fara má á vefsvæði fundarins með því að smella á hnappinn að neðan.

Fjárhags- og rekstrargreining íslenskrar ferðaþjónustu fyrir árin 2020 og 2021 

Ferðaþjónustan átt á brattann að sækja

Covid faraldurinn hefur haft mikil áhrif á íslenska ferðaþjónustu. Ferðamönnum hefur fækkað mikið með tilheyrandi tekjufalli, taprekstri og skuldasöfnun. Staða margra fyrirtækja er erfið og hafa stjórnvöld veitt margþættan stuðning. Í skýrslunni er farið yfir rekstur ferðaþjónustunnar á árinu 2020 og efnahag í árslok 2020. Þá er á grundvelli spálíkana áætlað um afkomu ársins 2021 og hver staðan er nú um áramótin. Reynt er að átta sig á skuldum fyrirtækja í atvinnugreininni, bæði langtímaskuldir og skammtímaskuldir. Þá er skoðað hvert eigið fé félaganna er en það er forsenda viðspyrnu.

Þriðja stöðuskýrslan

Skýrslan er sú þriðja sem Ferðamálastofa gerir með KPMG þar sem farið er yfir rekstur og fjárhag ferðaþjónustunnar í heimsfaraldri kórónuveirunnar. Nú liggja ársreikningar fyrirtækjanna fyrir miðað við lok árs 2020 en það ár var undirlagt áhrifa faraldursins. Í þeirri fyrstu skýrslunni sem kom út í apríl 2020 var fyrst og fremst fjallað um rekstur og afkomu í greininni í aðdraganda Covid. Í þeirri annarri sem kom út fyrir réttu ári var það efnahagur fyrirtækjanna og þá sérstaklega skuldir sem voru í brennidepli.