Fara í efni

Skýrsla um stöðu ferðaþjónustunnar

Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra ferðamála, kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í gær skýrslu sem Ferðamálastofa vann að beiðni ráðuneytisins um stöðu ferðaþjónustunnar.

Fyrsta skýrslan

Þetta er fyrsta skýrslan af þessu tagi og henni ætlað að gefa sannverðuga mynd af stöðu greinarinnar við áramót 2012/2013. Ferðamálastofa vann skýrsluna og aflaði upplýsinga hjá m.a. Hagstofunni, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar, Íslandsstofu og Rannsóknarmiðstöð ferðamála.

Saga og þróun

Auk sögulegs yfirlits er í skýrslunni komið inn á þróun greinarinnar í efnahagslífi landsins, gæða- og umhverfismál, rannsóknir, nýsköpun, stoðkerfi greinarinnar og markaðsstarf á innlendum og erlendum vettvangi.

Helstu tölulegar upplýsingar

Helstu tölulegar upplýsingar um þróun greinarinnar sem fram koma í skýrslunni eru m.a.:

  • Tölur Hagstofunnar sýna að störf í greinum sem tengjast ferðaþjónustu hafa aukið hlut sinn í störfum á vinnumarkaði. 
  • Ferðamennska og aðrir flutningar skiluðu 15,2 milljörðum króna meira af gjaldeyrisinnflæði á fyrstu þremur ársfjórðungum 2012 en á sama tímabili árið áður. 
  • Árið 2012 fóru 647 þús. erlendir ferðamenn frá landinu um Leifsstöð. Um er að ræða 19,6% aukningu milli ára. 
  • Tölur fyrir árið 2012 gefa til kynna að hlutfall vetrargesta hafi hækkað en sumargesta lækkað frá fyrra ári. 
  • Gistinætur erlendra gesta voru um 2,4 milljónir árið 2011 og hefur aukning þeirra verið að jafnaði 7,2% milli ára frá árinu 2000, eða heldur meiri en fjölgun ferðamanna. Þetta bendir til þess að dvalarlengd erlendra gesta hafi aukist að meðaltali á þessu tímabili. 

Brýn úrlausnarverkefni

Þá er í skýrslunni bent á nokkur brýn verkefni sem eru framundan á vettvangi stjórnvalda til að styrkja stöðu greinarinnar:

  • Móta þarf framtíðarsýn í málefnum ferðamannastaða. 
  • Vega þarf og meta kosti við framtíðarfjármögnun uppbyggingar á ferðamannastöðum. 
  • Tryggja þarf gerð hagtalna í ferðaþjónustu. 
  • Þróun flugsamgangna til að tryggja fjölgun ferðamanna og dreifingu um landið og á ársgrunni. 
  • Huga þarf að því að halda vinsælum ferðamannaleiðum opnum yfir vetrartímann. 
  • Koma þarf í veg fyrir hagsmunaárekstra á sviði almenningssamgangna. 
  • Skoða þarf starfsleyfi bílaleiga. 
  • Ljúka þarf innleiðingu VAKANS, gæða- og umhverfiskerfis ferðaþjónustunnar. 

Skýrslan í heild

Skýrsluna í heild má nálgast hér að neðan

Skýrsla um stöðu ferðaþjónustunnar (PDF)