Fara í efni

Skýrsla nefndar um móttöku skemmtiferðaskipa

Skemmtiferðaskip
Skemmtiferðaskip

Skýrsla nefndar um móttöku skemmtiferðaskipa sem samgönguráðherra skipaði í febrúar á þessu ári, var lögð fram í gær. Meginniðurstaða nefndarinnar er að með bættri aðstöðu fyrir skemmtiferðaskip og farþega þeirra má annars vegar stuðla að fleiri skipakomum og hins vegar nýta betur þau tækifæri sem þessi starfsemi hefur hér á landi.

Í skýrslunni er að finna margháttaðar upplýsingar um þróun í móttöku skemmtiferðaskipa hérlendis, um vöxt og viðgang greinarinnar, eðli starfseminnar og markaðssetningu, leiðir skipanna tegundir skipa, fjöldi þeirra og eignarhald. Fjallað er um aðstöðu hérlendis, reglur um öryggi farþega og í viðaukum eru ýmsar tölulegar upplýsingar. Þá eru í skýrslunni fjölmargar tillögur sem hafa það markmið að virkja fleiri aðila til að veita skemmtiferðaskipum og farþegum þeirra þjónustu og taka þátt í markaðsstarfi. Skýrsluna í heild er að finna á vef samgönguráðuneytisins, ásamt því sem hún hefur verið skráð í gagnagrunn um útgefið efni hér á vefnum.

Í frétt á vef samgönguráðuneytisins lýsti Kristján L. Möller samgönguráðherra ánægju sinni með tillögurnar og sagði ljóst að þar væri margt sem brýnt væri að vinna úr. Það yrði að hluta til verkefni nýs ráðherra ferðamála þar sem ferðamál flytjast til iðnaðarráðuneytisins um áramót. Áfram yrði þó hlutverk samgönguráðuneytis að stuðla að bættri aðstöðu í höfnum til að hlúa að þessum vaxtarbroddi.

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, skipaði starfshópinn í febrúar á þessu ári en auk Gísla Gíslasonar sátu í hópnum Gunnar Rafn Birgisson, forstjóri ferðaskrifstofunnar Atlantik, Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, Hörður Blöndal, hafnarstjóri á Akureyri og Sigríður Finsen, forseti bæjarstjórnar Grundarfjarðar og fyrrverandi formaður hafnaráðs. Með hópnum starfaði Rúnar Guðjónsson, viðskiptafræðingur í samgönguráðuneytinu.