Fara í efni

Síðasti fundur núverandi Ferðamálaráðs Íslands

Afmælismynd 1
Afmælismynd 1

- 669 fundir  á 41 ári.

Í gær var haldinn síðasti fundur núverandi Ferðamálaráðs, þar sem ný lög um skipan ferðamála taka gildi 1. janúar næstkomandi. 

Með nýjum lögum fær það Ferðamálaráð sem  skipað verður samkvæmt þeim  nýtt hlutverk. Því var fundurinn í gær síðasti fundur  þess Ferðamálaráðs sem hefur verið með nær óbreytt hlutverk frá árinu 1964, eða í 41 ár. Ráðið hefur verið  stjórn stofnunarinnar, auk þess að sinna öðrum lögbundnum verkefnum. En frá og með 1. janúar heyrir stofnunin beint undir samgönguráðherra og ábyrgð á rekstri verður í höndum ferðamálastjóra en ekki stjórnar eins og verið hefur samkvæmt lögum.

Í nýju Ferðamálaráði munu sitja 10 fulltrúar og verður ráðið samgönguráðherra til ráðgjafar   um áætlanir í ferðamálum, gefur umsagnir um lög og reglur og gerir tillögur til ráðherra um markaðs- og kynningarmál. Stofnunin sjálf fær  svo aukið hlutverk og nýtt nafn; Ferðamálastofa og verður sú breyting kynnt sérstaklega um áramótin.

Ákveðin tímamót
Alls hafa um 120 einstaklingar setið í  Ferðamálaráði Íslands  frá upphafi. Magnús Oddsson ferðamálastjóri segir að  þetta séu auðvitað ákveðin tímamót. ?Það hefur verð mikill skóli og ákaflega  gagnlegt að taka þátt í fundum ráðsins en ég hef setið nær alla fundi ráðsins frá árinu 1984 eða í 21 ár, fyrst sem fulltrúi í ráðinu, síðan sem starfsmaður og loks hin síðari ár  sem ferðamálastjóri. Í ráðinu hefur setið á hverjum tíma  áhrifafólk í íslenskri ferðaþjónustu sem hefur mótað starf stofnunarinnar og þetta  600 klukkustunda  ?nám?  að sitja á fundum ráðsins skilur margt eftir,? segir Magnús. Hann bætir við að tengslin við hið nýja ráð verði eðlilega með öðru sniði en verið hefur en það sé tilhlökkunarefni að  sjá hvernig þetta nýja fyrirkomulag þróast og þá sérstaklega framkvæmd nýrrar ferðamálastefnu sem tekur einnig gildi um áramót.

Síðasta fund ráðsins í gær sátu:
 
                        Ísólfur Gylfi Pálmason starfandi formaður
                        Pétur Rafnsson, fulltrúi Ferðamálasamtaka Íslands
                        Gunnar Sigurðsson fulltrúi Sambands ísl. Sveitarfélaga
                        Felix Bergsson varafulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga
                        Hlynur Jónsson fulltrúi SAF
                        Þórunn Gestsdóttir varamaður
                        Helga Haraldsdóttir , samgönguráðuneyti
                        Ársæll Harðarson forstöðumaður markaðssviðs
                        Magnús Oddsson, ferðamálastjóri

Fjarverandi voru Dagur B. Eggertsson og Steinn Lárusson.

Einhverjir þeirra sem sitja í núverandi ráði hafa verið tilnefndir í hið nýja ráð. Óljóst er hverjir hverfa af  þessum vettvangi nú en það mun koma fram við skipan nýs ráðs og verða þá kynnt sérstaklega. Að loknum fundi ráðsins í gær bauð samgönguráðherra Sturla Böðvarsson fundarmönnum til kvöldverðar svo og  Einari Kr. Guðfinnssyni sjávarútvegráðherra, sem var formaður ráðsins til loka september, þegar hann var skipaður ráðherra.

Myndin að ofan var tekin á 40 ára afmælisfundi Ferðamálaráðs í fyrra.