Fara í efni

Samtökin Cruise Iceland stofnuð - Stefnir í metfjölda skemmtiferðaskipa

Rúmlega 70 manns mættu á fyrsta fund Cruise Iceland samtakanna sem haldinn var á Hótel Sögu 20. febrúar sl. Tilgangur þeirra er að auka samvinnu allra sem hagsmuna eiga að gæta vegna móttöku skemmtiferðaskipa hérlendis.

Stefnir í metár
Á fundinum voru flutt erindi um móttöku skemmtiskipa í hinum ýmsu höfnum landsins og fram kom að sumarið 2004 verður það stærsta í komum skemmtiskipa til landsins. Til Reykjavikur koma 68 skip samanborið við 58 árið 2003 og Akureyringar eiga von á 53 skipum í samanburði við 43 í fyrra. Einnig var á fundinum fjallað um öryggismál í höfnum en ný lög þar að lútandi taka gildi þann 1. júlí í ár sem breyta munu ýmsu við móttöku skipanna og meðal annars aðgengi almennings að hafnarsvæðum

Hægt að fjölga farþegum verulega
Stofnun "Cruise Iceland" má rekja til skýrslu sem unnin var í fyrra um stöðu Íslands sem viðkomustaðar fyrir skemmtiferðaskip. Það voru hafnirnar í Reykjavík, Akureyri og Ísafirði, ásamt skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í Bandaríkjunum, sem stóðu fyrir gerð skýrslunnar en þessir aðilar hafa átt árangursríkt markaðssamstarf sl. rúman áratug. Í skýrslunni kemur m.a. fram að mögulegt sé að fjölga farþegum með skemmtiferðaskipum til landsins verulega og í samræmi við niðurstöðurnar var ákveðið að fara í frekari aðgerðir, m.a. að stofna samtökin "Cruise Iceland".

Ísland markaðssett sem áhugaverður áfangastaður
Á fundinum kom fram að samtökin munu sérstaklega leggja áherslu á að markaðssetja Ísland sem áhugaverðan áfangastað skemmtiskipa bæði í samvinnu við innlenda og erlenda aðila. M.a. verður hugað að möguleikum þess að fá fleiri skip til þess að skipta um farþega á Íslandi og einnig verða möguleikar þess efnis að fá skip til þess að sigla hringferðir í kringum Ísland sumarlangt skoðaðir. Samtökin munu einnig stuðla að frekari vöruþróun í framboði afþreyingar fyrir farþega skipanna og skoða möguleika á frekari verslun við farþega og útgerð skipanna.

Í stjórn Cruise Iceland voru kjörnir:

Ágúst Ágústsson, formaður, Reykjavíkurhöfn
Einar Gústavsson, varaformaður, Ferðamálaráð Íslands í Banadaríkjunum
Pétur Ólafsson, Akureyrarhöfn
Gunnar Rafn Birgisson, Ferðaskrifstofan Atlantik
Svava Johansen, Verslunin 17

Í varastjórn voru kjörnir:
Tryggvi Harðarson, Seyðisfirði
Ársæll Harðarson, Ferðamálráði Íslands
Ingvar Sigurðsson, Samskip hf
Guðmundur M. Kristjánsson, Ísafirði
Edda Sverrisdóttir, Verslunin Flex

Meðfylgjandi myndir voru teknar á stofnfundinum.