Fara í efni

Samningur um samevrópskt flugsvæði

Flugfarþegar
Flugfarþegar

Af hálfu Íslands var áritaður fyrr í vikunni samningur um sameiginlegt flugsvæði í Evrópu (European Common Aviation Area). Frá þessu er greint á vef Samgönguráðuneytisins.

Ísland er aðili að samningnum auk Evrópusambandsins, Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu, Búlgaríu, Króatíu, Makedóníu, Noregs, Serbíu og Svartfjallalands, Rúmeníu og UNMIK í Kosovo. Fulltrúi samgönguráðuneytisins við fastanefnd Íslands í Brussel áritaði samninginn fyrir Íslands hönd. Stefnt er að formlegri undirritun samningsins í maí 2006.

Með samningnum verður komið á flugsvæði sem byggir á frjálsum markaðsaðgangi, frelsi til staðfestu, jöfnum samkeppnisskilyrðum og sameiginlegum reglum sem lúta að flugöryggi, flugvernd, flugleiðsöguþjónustu, umhverfismálum og félagslegum þáttum. Samningurinn gerir ráð fyrir að að ákvæði EES-samningsins skuli halda áfram að gilda um samskipti EES-ríkjanna á sviði flugmála. Í þessu felst að EES-samningurinn mun áfram gilda um samskipti Íslands við aðildarríki Evrópusambandsins á þessu sviði. Gildir þetta jafnt um aðgang flugfélaga á Íslandi að flugmörkuðum á Evrópska efnahagssvæðinu, sem og reglur um flugvernd, flugöryggi og samkeppnisreglur á sviði flugmála. Þá mun samningurinn gilda um samskipti Íslands við aðildarríki samningins í austanverðri Evrópu sem ekki eru aðilar að EES samningnum og Ísland hefur ekki loftferðasamning við. Samningurinn kemur til með að taka gildi í áföngum gagnvart þeim ríkjum sem ekki hafa aðlagað sig og innleitt þær tilskipanir og reglugerðir Evrópubandalagsins sem lúta að flugsamgöngum.

Íslensk samgönguyfirvöld binda vonir við að þessi samningur muni enn auka framrásarmöguleika íslenskra flugrekenda og styrkja þar með til lengri tíma litið rekstrargrundvöll flugfélaga og ferðaþjónustu á Íslandi.