Fara í efni

Samið um þolmarkarannsóknir á átta stöðum

Jökulsárlón er meðal staða þar sem þolmörk verða rannsökuð.
Jökulsárlón er meðal staða þar sem þolmörk verða rannsökuð.

Ferðamálastofa hefur samið við Háskóla Íslands um framkvæmd þolmarkarannsókna á átta vinsælum ferðamannastöðum á Suður- og Vesturlandi. Samningunum tengjast einnig fleiri rannsóknir um áhrif ferðamennsku.

Meðal mikilvægustu rannsóknarefna

Í greiningu sem Ferðamálastofa vann í fyrrasumar kom í ljós að þolmörk ferðamennsku voru meðal þeirra rannsókna sem ferðaþjónustan kallar helst eftir. Ljóst er að álag á sum svæði hefur aukist verulega samfara fjölgun ferðamanna. Til að sporna við neikvæðum áhrifum þarf uppbygging og skipulag greinarinnar að byggja á markvissum þolmarkarannsóknum og því var mat Ferðamálastofu að mjög brýnt væri að fara í þessar rannsóknir sem fyrst.

Átta staðir

Staðirnir sem um ræðir eru:

  •  Geysir
  •  Þingvellir
  •  Sólheimajökull
  •  Jökulsárlón
  •  Djúpalónssandur
  •  Hraunfossar
  •  Seltún við Krísuvík
  •  Húsadalur í Þórsmörk

Framkvæmd

Rannsóknunum verður stýrt af Önnu Dóru Sæþórsdóttur en einnig var samið við Rögnvald Ólafsson um að annast talningar ferðamanna á umræddum stöðum. Rannsóknin verður framkvæmd með spurningalistum og verður úrtak tekið þrívegis á yfirstandandi ári. Úrvinnsla gagna og lokaskýrsla verður tilbúin í árslok 2015.

Meginmarkmið

Með rannsóknunum verður leitast við að svara eftirtöldum spurningum:

  •  Í hverju felst aðdráttarafl svæðanna?
  •  Er munur á aðdráttarafli eftir árstíma?
  •  Eru ferðamenn ánægðir með heimsókn sína?
  •  Hvernig skynja ferðamenn umhverfi svæðanna?
  •  Skynja ferðamenn skemmdir á náttúru svæðanna af völdum ferðamennsku?
  •  Er fjöldi ferðamanna svo mikill að upplifun ferðamanna beri af því skaða?

Fjórar rannsóknir á ferðamennsku

Jafnframt hefur verið samið við Háskóla Íslands (Land- og ferðamálafræðistofu) um framkvæmd fjögurra annarra rannsókna. Umsjón þeirra verður í höndum Rannveigar Ólafsdóttur. Þessar rannsóknir eru:

  •  Þolmarkarannsókn um áhrif göngu-, hjóla,- og hestaferðamennsku á gróður og jarðveg
    Tekin verða fyrir þrjú mismunandi svæði og verður verkefnið unnið á yfirstandandi ári.
  • Þróun á umhverfisskipulagi fyrir sjálfbæra ferðamennsku í Snæfellsnesþjóðgarði og Vatnajökulsþjóðgarði
    Markmiðið er að þróa umhverfisskipulag fyrir friðlýst svæði á íslandi. Sett verður upp tilraunaverkefni sem unnið verður sem meistaraverkefni við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ. Verklok eru áætluð í júníbyrjun 2015.
  • Öflun gagna um slóða í Friðlandi að fjallabaki
    Markmiðið er tvíþætt. Annars vegar að meta og greina eðli og umfang allra slóða á svæðinu og hins vegar að meta umfang og ástæður utanvegaaksturs. Allir slóðar innan svæðisins verða kortlagðir, þeir metnir og flokkaðir eftir gerð og ástandi og loks reynt að greina uppruna kortlagðra slóða. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki í maí 2015.
  • Umhverfisáhrif ferðamennsku á gönguleiðum
    Markmiðið er að meta umhverfisáhrif ferðamennsku og tveimur vinsælum gönguleiðum, með tilliti til breytinga á ásýnd umhverfis vegna álags á náttúru og uppbyggingu innviða fyrir ferðamennsku. Gönguleiðirnar sem um ræðir eru Laugavegurinn á milli Landmannalauga og Þórsmerkur og gönguleiðin á milli Snæfells og Lónsöræfa. Verklok eru áætluð í árslok 2014.