Fara í efni

Reglugerð um gagnasöfnun og rannsóknir á sviði ferðamála

Dritvík á Snæfellsnesi. Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson
Dritvík á Snæfellsnesi. Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson

Drög að nýrri reglugerð um gagnaöflun og rannsóknir á sviði ferðamála er nú til umsagnar á Samráðsgátt stjórnvalda. Með henni verður settur rammi um starfsemi Ferðamálastofu á þessu sviði en stofnuninni var falið víðtækara hlutverk hvað það varðar við gildistöku nýrra laga um Ferðamálastofu í byrjun árs.

Víðtækara hlutverk Ferðamálastofu

Í lögum um Ferðamálastofu, nr. 96/2018 er stofnuninni falið að vinna að samræmingu, greiningum og rannsóknum í ferðaþjónustu með hliðsjón af stefnu stjórnvalda. Þar  segir að meðal verkefna stofnunarinnar á þessu sviði sé:

  • Annars vegar öflun, miðlun og úrvinnsla upplýsinga, þar á meðal tölfræðilegra gagna og annarra upplýsinga um viðfangsefni stofnunarinnar
  • Og hins vegar greining á þörf fyrir rannsóknir sem m.a. nýtast við stefnumótun stjórnvalda, í samvinnu við atvinnugreinina og rannsóknastofnanir á sviði ferðaþjónustu.

Þá er í lögunum kveðið á um skyldu Ferðamálastofu til að safna gögnum sem nýtast við ákvarðanatöku og markmiðasetningu í ferðaþjónustu og birta þau. Stofnunin skal jafnframt stuðla að rannsóknum og greina þörf fyrir rannsóknir á sviði ferðamála og vinna rannsóknaráætlun í samstarfi við rannsóknastofnanir, háskóla og atvinnugreinina þar sem skilgreind er rannsóknarþörf og forgangsröðun verkefna.

Þörfin greind og unnin rannsóknaáætlun

Í kynningu á reglugerðinni segir meðal annars: "Meginmarkmið með setningu reglugerðarinnar er að starfsemi Ferðamálastofu á sviði gagnaöflunar, tölfræði og rannsókna skuli miðast við að byggja upp samanburðarhæfan gagnabanka sem myndar tímalínu með hliðsjón af stefnu stjórnvalda og álagsmati innviða og nýtist við ákvarðanatöku og þróun greinarinnar. Í því skyni er annars vegar lagt til að þörf fyrir gagnaöflun verði greind í reglulegu samráði stjórnvalda og hagaðila og hins vegar að stýrihópur verði skipaður til að vinna rannsóknaáætlun." Umsagnarfrestur er til 29. júlí.