Fara í efni

Óska umsagna um drög að reglugerð um tryggingar vegna pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Atvinnuvega -og nýsköpunarráðuneytið hefur óskað eftir umsögnum um drög að reglugerð um tryggingar vegna pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar. Drögin hafa verið birt á samráðgátt stjórnvalda þar sem hægt er að kynna sér þau og senda inn athugasemdir.

Sem kunnugt er taka ný lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun gildi 1. janúar næstkomandi. Nýja reglugerðin mun koma í stað eldri reglna um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa, nr. 1100/2005 og með henni er lagðar til töluverðar breytingar á því fyrirkomulagi sem gilt hefur um tryggingar vegna pakkaferða.

Helstu breytingarnar eru þessar:

  • Lögð er til ný reikniregla við útreikning tryggingafjárhæðar. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 95/2018 skal ráðherra kveða á um útreikning tryggingafjárhæðar í reglugerð og skal trygginga duga fyrir endurgreiðslu allra greiðslna sem inntar hafa verið af hendi vegna ferðar sem ekki er framkvæmd í samræmi við samning, komi til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots skipuleggjanda. Í nýrri reiknireglu er grunnviðmið líkt og áður tryggingaskyld velta en að auki eru fleiri þættir sem tekið er tillit til sem munu hafa áhrif á tryggingafjárhæðina og ætlað er að endurspegla áhættu viðkomandi aðila. Með því er leitast við að ná jafnvægi milli neytendaverndar og íþyngjandi áhrifum af tryggingaskyldu.
  • Vegna nýrrar reiknireglu þurfa tryggingaskyldir aðilar að skila Ferðamálastofu ítarlegri upplýsingum en áður hefur verið svo hægt sé að taka tillit til þeirra þátta við útreikning tryggingafjárhæðar. Ákvæði um upplýsingaskyldu tryggingaskyldra aðila er því ítarlegra en áður.
  • Í samræmi við ákvæði laga nr. 95/2018 eru heimildir til tímabundinna lækkunnar og hækkunar á tryggingafjárhæð vegna breytinga í rekstri frá því sem lagt var til grundvallar tryggingafjárhæð nánar útfærðar.
  • Lagt er til að almennt verði skipuleggjandi tryggingaskyldur vegna allra ferða sem hann setur saman, býður fram og selur sem og þeirra ferða sem hann setur saman en eru seldar af öðrum smásala, nema skipuleggjandinn sýni fram á að smásalinn uppfylli tryggingaskyldu vegna þeirra ferða.
  • Árleg upplýsingaskil verða 1. apríl í stað 1. október. Þannig næst að leggja nýrri upplýsingar úr rekstri tryggingaskyldra aðila til grundvallar ákvörðun um fjárhæð tryggingar.

Umsagnarfrestur er til 21. desember

Umsagnarfrestur er til 21. desember og eru umsagnir birtar jafnóðum og þær berast. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.