Fara í efni

Öryggi þeirra sem ferðast gangandi og hjólandi um hálendið á eigin vegum

Erla Sigurðardóttir beinir í verkefninu sjónum að hálendishluta norðursvæðis 
Vatnajökulsþjóðgarðs …
Erla Sigurðardóttir beinir í verkefninu sjónum að hálendishluta norðursvæðis
Vatnajökulsþjóðgarðs og þeim ferðamönnum sem leggja leið sína um það á eigin
vegum og fyrir eigin vélarafli.

Félag stjórnmálafræðinga veitti á dögunum verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerðir sem var skilað árið 2023. Verðlaunin fyrir lokaritgerð á meistarastigi hlaut Erla Sigurðardóttir, starfsmaður Ferðamálastofu, fyrir ritgerð sína “Fólk á rétt á að fara sér að voða: Aðgerðir stjórnvalda í þágu öryggis ferðamanna sem fara á eigin vegum gangandi og hjólandi um hálendi Íslands”. Um er að ræða MPA ritgerð í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.

Hvaða aðferðir og hvers vegna

Markmið rannsóknar Erlu var að svara því hvaða aðferðum stjórnvöld beita í þágu þessara ferðamanna, hvað einkennir þær aðferðir og hvers vegna stjórnvöld velja þær aðferðir sem beitt er umfram aðrar. Hvernig eru verkefni í þágu öryggis þess hóps sem er til umfjöllunar falin framkvæmdaaðilum og fylgja því framsali einhver vandkvæði sem leiða til þess að aðgerðir skili lakari árangri en ella? Jafnframt er því velt upp hvort möguleiki sé að stuðla á markvissari hátt að öryggi þessa hóps en gert er í dag. Sjónum er beint að hálendishluta norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs og þeim ferðamönnum sem leggja leið sína um það á eigin vegum og fyrir eigin vélarafli.

Víðfeðmt og gott yfirlit

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars að vísbendingar séu um fjölgun þeirra ferðalanga sem fara á eigin vegum um hálendi Íslands og áleitnar spurningar vakni um hvernig hið opinbera eigi að bera sig að til að tryggja öryggi þeirra. Rannsókn Erlu sé vönduð og innihaldi afar víðfeðmt og gott yfirlit yfir starfsemi þeirra aðila sem vinna að öryggi ferðamanna á Íslandi. Samanburður er gerður á opinberri upplýsingagjöf og nálgun Íslands miðað við þrjú önnur lönd, sem glíma við svipaðar áskoranir á þessu sviði. Einnig inniheldur ritgerðin viðtöl við aðila sem koma að aðgerðum. Notast er við eigindlega aðferð þar sem höfundur aflaði gagnanna sjálf. Styrkleiki rannsóknarinnar liggur að mati dómnefndar sérstaklega í því hversu fjölbreyttra gagna sé aflað, þau séu faglega greind og á skipulegan hátt sett í fræðilegt samhengi út frá kenningalegum grundvelli ritgerðarinnar.

Mikilvægt innlegg í öryggismálin

Erla kemst að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld beiti helst fyrirbyggjandi leiðbeiningum og fræðslu til að stuðla að öryggi ferðamanna sem fara á eigin vegum um hálendið. Aðferðirnar einkennist af lágmarks þvingun samfara miklu lögmæti og pólitískum fýsileika, en með því er átt við að líklegt sé að aðgerðirnar njóti bæði víðtæks pólitísks stuðnings og frá almenningi. Ýmsir aðilar starfa að þessum málum í umboði stjórnvalda og þar má, samkvæmt rannsókninni, skerpa á nokkrum þáttum með auknu samtali og samvinnu. „Efnið á erindi, niðurstöðurnar eru skýrar og ritgerðin hefur að geyma áhugaverða samantekt sem gæti nýst stjórnvöldum í þeirra stefnumótun og starfsemi á þessu sviði. Sá mikli fjöldi ferðamanna sem heimsækir Ísland kallar á ýmis úrlausnarefni fyrir stjórnvöld og eitt af þeim er að tryggja öryggi fólks á hálendinu. Rannsókn Erlu er mikilvægt innlegg í það verkefni,“ segir í umsögn dómnefndar. Leiðbeinandi Erlu var Guðrún Þóra Gunnarsdóttir.

Fyrir áhugasama er vert að benda á að ritgerðina má nálgast á www.skemman.is