Nýtt nám á Bifröst - Stjórnun og samvinna í ferðaþjónustu

Nýtt nám á Bifröst - Stjórnun og samvinna í ferðaþjónustu
Bifröst

Háskólinn á Bifröst býður nú í fyrsta sinn nám í stjórnun og rekstri í ferðaþjónustu. Um er að ræða 9 vikna fjarnám sem telur þrjú námskeið sem sérsniðin eru fyrir rekstraraðila í ferðaþjónustu. Námskeiðin þrú eru:

·                Markaðssetning og sala
·                Mannauðs- og þjónustustjórnun
·                Stefnumótun og gæðastjórnun

Námið hentar vel fyrir stjórnendur og rekstraraðila eftirfarandi ferðaþjónustufyrirtækja og stofnana:

·                Hótel og gistihús, s.s. ferðaþjónustubændur
·                Veitinga- og kaffihús
·                Bílaleigur og hópbílar, bensínstöðvar
·                Afþreyingarþjónusta, s.s. hestaleigur, bátaleigur o.s.frv.
·                Frumkvöðlar í ferðaþjónustu
·                Söfn og sundlaugar

Markmiðin með náminu eru að auka þekkingu, hæfni og leikni stjórnenda og rekstraraðila ferðaþjónustufyrirtækja til þess að takast á við krefjandi starfsumhverfi og auka samvinnu þeirra í milli.

Að námstíma loknum ættu nemendur að:

Hafa þekkingu á ýmsum sviðum stjórnunar, geta skilgreint hlutverk stjórnenda og tekist á við flókin viðfangsefni mannauðsstjórnunar.
Vera í stakk búnir til þess að takast á við og stjórna breytingum í starfsumhverfi sínu og móta framtíðarsýn.
Geta skilgreint og metið fjárhagslegan árangur sinna fyrirtækja og borið hann saman við önnur ferðaþjónustufyrirtæki.
Vera færir um að gera framtíðaráætlanir út frá mismunandi forsendum.
Hafa eflt samstarfsnet sitt og færni í að þróa hugmyndir með öðrum stjórnendum innan ferðaþjónustugeirans. 

Fyrirkomulag náms:
Námið er kennt í blönduðu námi; þ.e. fjarnám og vinnulotur á Bifröst sem eru í upphafi og lok námstímans.

Ein námsgrein er kennd í einu og spannar hver lota 3 vikur.  Fyrirlestrar eru 5-6 í hverju námskeiði og eru birtir á fjarnámsvef skólans samkvæmt kennsluáætlun hvers námskeiðs. Þar að auki eru kennslustundir á vinnulotum þar sem lögð verður áhersla á hópavinnu nemenda. Gert er ráð fyrir að fyrirlestrar komi inn tvisvar í viku, á mánudögum og miðvikudögum.

Námsmat er í formi verkefnaskila og lokaverkefna eftir atvikum. Fjöldi verkefna ræðst af umfangi þeirra og efnistökum. Leitast er við að hafa verkefni hagnýt þannig að þau nýtist þátttakendum sem best í þeirra störfum.

Námið hefst með vinnulotu á Bifröst dagana 9.-10. október. Seinni vinnulotan og útskrift verður á Bifröst dagana 4.-5. desember 2012. Námið kostar kr. 125.000 og innifalið í þeirri upphæð er gisting og fæði á vinnuhelgum.

Upplýsingar og skráning

Nánari upplýsinga veita Brynjar Þór Þorsteinsson, brynjar@bifrost.is og Geirlaug Jóhannsdóttir, geirlaug@bifrost.is.


Athugasemdir