Fara í efni

Nýjar niðurstöður um umhverfisáhrif ferðamanna og ferðamennsku

Út eru komnar skýrslur þar sem kynntar eru niðurstöður tveggja rannsóknaverkefna er snúa að umhverfisáhrifum ferðamanna og ferðamennsku. Verkefnin voru undir stjórn Rannveigar Ólafsdóttur, prófessors í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, og eru meðal þeirra verkefna sem Ferðamálastofa ákvað að láta ráðast í með hliðsjón af mikilli fjölgunar ferðafólks og álags sem af henni hefur skapast.

Áhrif gönguferðamennsku á gróður og jarðveg 

Skýrslunar eru báðar á ensku, með útdætti á íslensku, en sú fyrri nefnist „Impact of recreational trampling in Iceland: a pilot study based on experimental plots from Þingvellir National Park and Fjallabak Nature Reserve“ eða „Áhrif gönguferðamennsku á gróður og jarðveg – athuganir og mælingar frá tilraunareitum.“ Dr. Micael Runnström, sérfræðingur við landfræðideild háskólans í Lundi í Svíþjóð, er höfundur skýrslunnar með Rannveigu. Þetta er í fyrsta skipti sem tilraunareitir eru notaðir til að meta álag frá ferðamönnum hér á landi.

Grunnur að aðferðafræði fyrir íslenskar aðstæður

Markmiðin voru af tvennu tagi. Annars vegar var það markmið að auka þekkingu á notkun tilraunareita (e. experimental plots) fyrir ferðamennsku í íslenskri náttúru en einungis með mælingum í tilraunareitum er unnt að styðjast við þekktar stýribreytur. Hins vegar var markmiðið að kanna viðnám íslenskra vistlenda við álagi ferðamanna með því að meta mismunandi álag frá gönguferðamönnum í mismunandi vistlendi. Við framkvæmd rannsóknarinnar var stuðst við erlendar rannsóknir, m.a. til að byggja upp gagnabanka fyrir samanburðarrannsóknir, en jafnframt lagður grunnur að aðferðafræði fyrir íslenskar aðstæður. Tilraunareitirnir verða vaktaðir næstu fimm til tíu ár, og allar breytur mældar á sama tíma á hverju ári til að meta hraða á endurheimt gróðurs og jarðvegs.

Áhrif innviða á þróun ferðamannastaða 

Forsíða skýrslu 2Seinni skýrslan nefnist „A systemic approach to assessing the environmental impacts of tourism and the attractiveness of tourist destinations“ eða „Áhrif innviða á þróun ferðamannastaða á hálendinu í ljósi kerfisgreiningar.“ Meðhöfundur Rannveigar er Dr. Hörður V. Haraldsson, sérfræðingur við náttúrufræðistofnun Svíþjóðar. Líkt og fram kemur í skýrslunni þá einkennist samband ferðamennsku og umhverfis af flóknu samspili margra þátta, sem með aukinni uppbyggingu ferðaþjónustu getur haft töluverð umhverfisáhrif og smám saman breytt upplifun ferðamanna, og að lokum breytt tegund þeirra ferðamanna sem velja að heimsækja ákveðin svæði. Nauðsynlegt er efla þekkingu og skilning á eðli þeirra breytinga sem hvert stig uppbyggingar innviða og þjónustu hefur á hvort tveggja ferðamennsku og umhverfis svæða. 

Greina ferli og skilja orsakasamhengi 

Til að greina breytingar á ásýnd umhverfis er stuðst við kerfisgreiningu. Kerfisgreining er sú aðgerð að greina ferli til að skilja orsakasamhengi þess og uppbyggingu. Breytur eru flokkaðar og settar upp í fræðilegt hugrænt líkan, svokallað orsakalíkan (e. causal loop diagram). Allir áhrifaþættir kerfisins eru síðan skilgreindir til að fá heildaryfirlit yfir vægi allra þátta. Á þann hátt er unnt að auðkenna og greina mikilvægustu áhrifaþætti hvers ferlis. Markmið kerfisgreiningar er þannig að auka skilning á samspili allra áhrifaþátta og auðvelda skilning á orsökum og afleiðingum. 

Aðdráttarafl hentugri mælikvarði en fjöldi

Niðurstöður kerfisgreiningarinnar sýna að megin breytur sem hafa áhrif á upplifun og áhuga einstaklinga sem heimsækja náttúrusvæði á hálendinu eru magn innviða og þjónustu ásamt fjölda annarra ferðamanna. Þar sem fjöldi er áhrifa-breyta sem kemur seint inn í orsakaferilinn er fjöldi ferðamanna ekki hentugur mælikvarði til að meta þróun ferðamannastaða. Hentugri mælikvarði er aðdráttarafl ferðamannastaða, sem nær að fanga þróun og næmni kerfis betur. Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi heildarskipulags og stjórnunar ferðamannastaða til að koma í veg fyrir hnignun þess umhverfis sem þeir byggja afkomu sína á, og til að forðast að allir áfangastaðir ferðamanna þróist í sömu átt. 

Hluti af stærra verkefni 

Verkefnið er hluti af stærra verkefni sem beinir sjónum að umhverfisáhrifum ferðamennsku á vinsælum gönguleiðum á hálendinu og hvenær breytingar vegna uppbyggingar innviða eru orðnar það miklar að breytt ásýnd er varanleg og ekki unnt að fara til baka, sem og hvaða áhrif það hefur á ferðamennsku hálendisins til langs tíma.

Hlekkir á skýrslurnar eru hér að neðan: