Ný löggjöf á sviði ferðamála

Ný löggjöf á sviði ferðamála
Dyrhólaey. Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson

Nú hafa verið birt í stjórnartíðindum tvenn ný lög á sviði ferðamála, en Alþingi samþykkti lögin á síðustu dögum þingsins í nýliðnum mánuði:

Bæði lögin taka gildi 1. janúar 2019. Viðamestu breytingarnar snúa að aukinni neytendavernd og öryggismálum.

Allir sem skipuleggja, selja og framkvæma ferðir verða áfram leyfisskyldir og verða leyfin tvenns konar: Leyfi ferðaskrifstofu og leyfi ferðasala dagsferða.

Hugtakið pakkaferðir er endurskilgreint og útvíkkað og nýmæli í lögunum er svokölluð samtengd ferðatilhögun.

Margir sem til þessa hafa verið undanþegnir leyfis- og tryggingaskyldu munu falla undir gildissvið laganna.

Öryggisáætlanir verða skylda hjá öllum sem framkvæma skipulagðar ferðir á Íslandi.

Núgildandi ferðaskrifstofuleyfi halda gildi sínu þannig að handhafar þeirra þurfa ekki að sækja um aftur. Þeir sem í dag hafa ferðaskipuleggjendaleyfi, og aðrir sem falla undir nýju lögin, þurfa að sækja um fyrir 1. mars 2019.


Tvenns konar leyfi

Allir sem skipuleggja, selja og framkvæma ferðir verða áfram leyfisskyldir. Leyfin verða tvenns konar:

  • Leyfi ferðaskrifstofu
    Tekur til aðila sem falla undir lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun
  • Leyfi ferðasala dagsferða
    Tekur til aðila sem selja ferðir sem ekki falla undir lögin um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

Hugtakið bókunarþjónusta fellur úr lögunum og ber þeim að sækja um viðeigandi leyfi en starfsemi upplýsingamiðstöðva verður tilkynningaskyld til Ferðamálastofu.

Víðtækari skilgreining á pakkaferð

Hugtakið pakkaferðir er endurskilgreint og útvíkkað og nær til mun fleiri tegunda ferða en fyrirfram skilgreindra pakkaferða.

Nýmæli - Samtengd ferðatilhögun

Ennfremur er nýmæli í lögunum að skilgreind er svokölluð samtengd ferðatilhögun. Í stuttu máli er hún skilgreind þannig að um sé að ræða a.m.k. tvær mismunandi tegundir ferðatengdrar þjónustu sem keyptar eru vegna sömu ferðar en mynda ekki pakkaferð, enda séu gerðir aðskildir samningar við hvern ferðaþjónustuveitanda fyrir sig. Aðilum sem hafa milligöngu um samtengda ferðatilhögun ber að hafa tryggingu komi til gjaldþrots rekstraraðila eins og þeim sem bjóða pakkaferðir.

Upplýsingaskylda seljenda pakkaferða varðandi réttindi neytenda er aukin verulega. Einnig er lögð upplýsingakylda á aðila sem hafa milligöngu um samtengda ferðatilhögun.

Fleiri verða leyfis- og tryggingaskyldir

Ljóst er að fjölmargir aðilar sem til þessa hafa verið undanþegnir leyfis- og tryggingaskyldu munu falla undir gildissvið laganna, þetta getur t.d. átt við um starfsemi bókunarþjónusta, flugfélaga, gististaða og bílaleiga sem hafa milligöngu um samtengda ferðatilhögun.

Öryggisáætlun verður skylda

Öllum sem framkvæma skipulagðar ferðir inna íslensks yfirráðasvæðis verður skylt að setja sér öryggisáætlanir fyrir þær og uppfæra reglulega. Öryggisáætlanir skulu vera til bæði á íslensku og ensku.

Ferðaskrifstofuleyfi áfram í gildi

Núgildandi ferðaskrifstofuleyfi halda gildi sínu en tekin verða upp ný auðkenni. Þeir sem í dag eru með ferðaskrifstofuleyfi þurfa því ekki að sækja um upp á nýtt.

Ekkert leyfisgjald vegna endurútgáfu leyfa til 1. mars 2019

Leyfi ferðaskipuleggjenda og skráningar bókunarþjónustu halda gildi sínu til 1. mars 2019. Fyrir þann tíma þurfa þessir aðilar að skoða starfsemi sína og og sækja um nýtt leyfi í samræmi við hana. Ferðamálstofa metur hvort um er að ræða starfsemi ferðasala dagsferða eða ferðaskrifstofu samkvæmt nýjum lögum og gefur út leyfi í samræmi við það. Ekki verður tekið leyfisgjald vegna endurútgáfu leyfa þeirra sem sækja um fyrir 1. mars 2019 en greiða þarf fyrir mat á fjárhæð tryggingar, falli viðkomandi undir ferðaskrifstofuleyfi. Ef sótt er um eftir 1. mars verður tekið fullt leyfisgjald.

Fyrirtæki hefji aðlögun sem fyrst

Framangreindar lagabreytingar hafa talsverð áhrif á starfsumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja og er mikilvægt að forsvarsmenn þeirra kynni sér vel hvað í lögunum felst og hefji undirbúning að aðlögun hið fyrsta.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar og leiðbeiningar verða settar fram á vef Ferðamálastofu auk þess sem núverandi leyfishafar og aðrir sem lögin varða fá send bréf með nánari skýringum og upplýsingum um þau atriði er varða þá sérstaklega.

Við gildistöku nýju laganna um næstu áramót falla úr gildi lög um skipan ferðamála nr. 73/2005 og lög um alferðir nr. 80/1994.

Skoða nýju lögin:


Athugasemdir